Rauði kross Noregs axlar ábyrgð gagnvart spilafíkn

Mikil umræða hefur verið í Noregi að undanförnu um skaðsemi spilakassa. Um þetta hefur fréttaritari RÚV meðal annars fjallað. Í hinu víðlesna blaði Dagbladet frá 8. mars eru fréttir af þessum málum. Þar segir frá ungri stúlku Eiléen að nafni, sem tapaði fimm milljónum (íslenskum) á hálfu ári. Eiléen hóf spilaferil sinn með því að setja tuttugu krónur í spilakassa fyrir tveimur árum. "Ég tók lán hvar sem ég gat", síðan leiddi eitt af öðru, "nú er ég svefnlaus, geng með svefnpillur í vasanum, búin að veðsetja allt sem ég á. Áður var ég jákvæð manneskja. Það er liðin tíð. Blekkingarnar hafa farið verst með mig."
Í blaðinu kemur fram að í þeim reglum, sem norsk stjórnvöld hyggjast setja eru reistar skorður við því hve "ágengir" kassarnir mega vera. Kassarnir tala nefnilega við spilarann og hvetja hann til að halda áfram.
Í fréttinni í Dagbladet segir að björgunarsveitir og Rauði krossinn hagnist vel á spilakössum en með nýju fyrirkomulagi munu tekjur þessara aðila rýrna. "Árið 2003 þénuðum við um fimm milljarða (ísl) á spilakössum. Fyrirsjáanlegt er að þessi upphæð verði 2,2 milljarðar á næsta ári. Það þýðir tap upp á 2,8 milljarða. Engu að síður styðjum við þessar breytingar. Spilafíkn er orðin að alvarlegum heilsufarsvanda, sem við tökum alvarlega,"   segir Bent Apeland, ráðgjafi hjá Rauða krossi Noregs. 

Fréttabréf