Fara í efni

Er bókhaldið suður í Borgarfirði?

Í orði hafa fulltrúar Samfylkingarinnar barist fyrir því þjóðþrifamáli að stjórnmálaflokkarnir opni bókhald sitt þannig að greina megi meint hagsmunatengsl milli fyrirtækja og flokka og treysta með því lýðræðislegt vald almennra kjósenda. Frétt Ríkisútvarpsins miðvikudaginn 5. maí sýnir hins vegar að á borði eru Samfylkingarmenn vægast sagt tvöfaldir í roðinu í þessu merka máli og einnig með endemum seinheppnir - eins og raunar í svo mörgu öðru sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina.

Snúið að reikna í stórum flokki

Já, það hefur heyrst hátt í fulltrúum Samfylkingarinnar og þeir hafa m.a. hundskammað stjórnarflokkana fyrir að pukrast með bókhaldið. Og flokkurinn hefur, að eigin sögn, gengið fram fyrir skjöldu af heiðarleik og sýnt gott fordæmi. Þannig setti Samfylkingin sér þá reglu fyrir síðustu alþingiskosningar að ekki skyldi gefið upp hver léti fé af hendi rakna til flokksins nema að framlögin færu yfir hálfa milljón króna. Eða með öðrum orðum og miklu jákvæðari nálgun; öll framlög til Samfylkingarinnar yfir hálfa milljón yrðu samviskulega gefin upp á opinberum vettvangi og með nafni og númeri hinna rausnarlegu gefenda.
Litlar fréttir hafa síðan borist úr herbúðum Samfylkingarinnar varðandi peningamálin fyrr en nú. En allt er það skiljanlegt enda aðeins liðið tæpt ár frá síðustu kosningum og bókhaldsvinnan gengur auðvitað hægt í stórum flokki eins og lesa má út úr frétt RÚV: “Samfylkingin fékk 15 til 20 hálfrar milljónar krónu framlög, fyrir síðustu alþingiskosningar. Þetta segir Karl Th. Birgisson, framkvæmdastjóri flokksins, en ekki er gefið upp frá hverjum þau eru nema þau fari yfir þá upphæð.” Sem sagt, allt samkvæmt reglunum en í framhaldi af þessari ágætu upplýsingagjöf kynni nú einhver að spyrja: Kann framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar ekki að telja? Getur hann ekki skorið úr um hvort þessir 500 þúsund króna styrkir voru 15, 16, 17, 18, 19 eða þá 20? Þarf hann fleiri mánuði en 12 til að komast til botns í því? En svona vangaveltur hljóta að flokkast undir ósanngjarnar aðdróttanir og er því rétt að hverfa hið snarasta frá þeim og víkja sögunni að viðmiðunarmörkum flokksins varðandi nafnbirtingar á styrkveitendum.

 Er seinheppnin að drepa þá?

Karl Th. Birgisson greinir samviskulega frá því að engin framlög yfir hálfa milljón hafi borist flokknum fyrir síðustu kosningar. Og maður hlýtur að hugsa: Mikið andskoti eru þeir seinheppnir Samfylkingarmenn að geta ekki birt eitt einasta nafn! Ekki einu sinni svo mikið sem eitt nafn á t.d. öldruðum hugsjónamanni sem hafði lagt fyrir í áratugi til að búa í haginn fyrir jafnaðarstefnuna. Og hvað með Íslands athafnaskáld sem forðum voru uppnefnd auðvaldsseggir og arðræningjar en eru nú – þegar þau eru loksins komin í þokkalegar álnir - í versta falli uppnefnd markaðsráðandi aðilar? Skyldu það hafa verið samantekin ráð skáldjöfranna og stórfyrirtækja þeirra að halda sig við 500 þúsund króna markið og gera þannig hið heiðarlega regluverk Samfylkingarinnar í bókhalds-birtingum marklaust með öllu? Nei, aldeilis ekki því fréttastofa RÚV hefur fyrir því heimildir að Samfylkingin hafi sérstaklega óskað eftir nákvæmlega 500.000 króna framlagi þegar hún leitaði eftir styrkjum frá fyrirtækjum, sem þýðir að allir styrkirnir með tölu eru undir þeim mörkum sem Samfylkingin lofaði að gefa upp eftir kosningar.

Er nema kyn að bókhaldið leki?

Frétt útvarpsins af bókhaldsmálum Samfylkingarinnar lýkur með svofelldum orðum: “Karl Th. Birgisson neitar því aðspurður að nokkurt fyrirtæki hafi greitt auglýsingar fyrir flokkinn, eða farið á nokkurn annan hátt yfir 500.000 króna viðmiðið.” Gott ef satt væri, en allt er þetta bókhaldsvesen þannig vaxið að ekki getur nokkur heilvita maður tekið mark á orðum framkvæmdastjóra flokksins. Úr því sem komið er sýnist mér eina skynsamlega ráðið í þessari annars vandræðalegu stöðu að senda Ingibjörgu Sólrúnu upp í Borgarnes til að skýra bókhaldsmálin og komast til botns í þeim. Bendi ég hér með á þetta heillaráð, verandi minnugur tímamótayfirlýsinga hennar á þeim fallega stað fyrir síðustu kosningar um nauðsyn þess að slá skjaldborg um ákveðin þjóðþrifafyrirtæki, vegna ofsókna forsætisráðherra þeim á hendur, sem og minnugur frægra ummæla úr ævintýrinu um þá Bakkabræður eftir að einn þeirra hafði gert stórmerka uppgötvun um keraldið sem engum vökva hélt. Hann sagði einfaldlega: “Gísli, Eiríkur og Helgi, ekki er kyn þótt keraldið leki, botninn er suður í Borgarfirði.” Og enda þótt bókhaldi og keraldi sé kannski ekki svona dags daglega saman að líkja, sýnist mér að í tilviki Samfylkingarinnar sé það alls ekki fráleitt að skyggnast eftir botninum í bókhaldið á svipuðum slóðum og þeir bræður frá Bakka keyptu sitt kerald forðum.
Þjóðólfur