Fara í efni

Norðurlandafréttir: 47 bandarískar herstöðvar og Svíþjóð í NATO

Fáni Svíþjóðar var í dag (11. mars) í fyrsta sinn dreginn að húni við NATO-stöðvarnar í Brussel. Nú gengur vígvæðingin hratt fyrir sig á Norðurlöndum. Hlutlausu Norðurlöndin ganga í NATO. Svíþjóð núna en Finnland í apríl í fyrra. «Þetta gerir Svíþjóð öruggari og gerir NATO sterkara“ sagði Jens Stoltenberg af tilefninu. Nákvæmlega það sama sagði hann um Finnland og finnska öryggið í fyrra.

Svo hefur annað gerst síðustu tvö ár, og sérstaklega nú síðustu 2-3 mánuði: Norðurlönd hleypa Bandaríkjaher í stórum stíl inn á landsvæði sitt með fjölda nýrra herstöðva. Þau ganga langt, þau beinlínis afhenda Bandaríkjunum forræði varnarmála sinna.

Orsökin fyrir þessum ósköpum er sögð vera „gjörbreytt staða öryggismála í Evrópu“ vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Punktur.

Á móti þessu má setja fram a.m.k. tvær spurningar: a) Er árásarstefna Rússa grundvallarorsökin fyrir hinu nýja kalda stríði? b) Er það að Norðurlönd stilli sér upp í fremstu víglínu gegn Rússlandi líklegt til að auka öryggi á Norðurlöndum?

Er árásarstefna Rússa grundvallarorsökin?

 
Það er engin leið að skilja Úkraínudeiluna nema sögulega. Við komumst ekki hjá að rifja upp nokkur atriði. Kalda stríðinu (fyrra) lauk er Sovétríkin (og Varsjárbandalagið) leystust upp 1991. Þá breyttist geópólitíkin í Evrópu hratt. Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna (Cheney og Wolfowitz) lögðu strax fram stefnu um hnattræn völd Bandaríkjanna, sk. Wolfowitzáætlun þar sem stendur: „Stefna okkar verður núna að endurstilla miðið, og miða að því að hindra að til verði nokkur hnattrænn keppinautur [við Bandaríkin].» https://www.archives.gov/files/declassification/iscap/pdf/2008-003-docs1-12.pdf

Bandaríkin og NATO hófu stórsókn á svæðum, þar sem Sovétríkin höfðu áður áhrif, s.s. Austur-Evrópu og Austurlöndum nær. Stefnan að girða fyrir mögulega keppinauta gekk í fyrstu fyrst vel, ekki síst vegna kreppunnar í Rússlandi á 10. áratug. Rússland varð þá um skeið nýfrjálshyggjuríki undir forræði Bandaríkjanna/AGS/Alþjóðabankans sem lögðu upp hagstjórnarlínu kennda við «sjokkmeðferð». CIA og Clinton forseti stjórnuðu mikið til framboðsmálum rússneska forsetans Jeltsíns. Tvö stríð brutu upp Júgóslavíu og útþensla NATO til austurs komst á skrið. Rússland reyndi eftir megni að hindra hana en var á hnjánum vegna eigin kreppu og náði ekki að verja hagsmuni sína.

Þegar hins vegar Rússland, í stjórnartíð Vladimírs Pútíns, náði sér af kreppu 10. áratugarins sneri það aftur til fyrri öryggismálastefnu, sem einnig hafði gilt í Kalda stríðinu, og einkenndist af gætinni en harðri landvarnarpólitík.

Þá byggðist smám saman upp spenna í Austur-Úkraínu og við vesturlandamæri Rússlands. Annars vegar var það af því Rússland fór aftur að haga sér eins og það svæðisbundna stórveldi sem það hefur löngum verið. Hins vegar kom frumkvæðið í spennuuppbyggingunni vestan frá. NATO tók upp þá stefnu að gera skyldi Úkraínu aðildarríki.

Atburðir árið 2014 urðu í þessari röð: Fyrst var valdarán gert í Kiev, litabylting stjórnað af CIA og Victoriu Nuland; næst – og sem bein viðbrögð við því – var Krímskaginn og rússneska flotastöðin Sevastopol innlimuð í Rússland; loks hófst borgarastríð í Donbass þegar hinir rússneskumælandi Donbassbúar viðurkenndu ekki nýju stjórnvöldin í Kiev, stjórnvöld sem beittu þá sprengjuregni og terror en Rússar veittu þeim stuðning á móti.

Aðgerðir Pútíns á þessu stigi voru fyrst og fremst viðbrögð við valdaskiptunum og borgarastríði í Úkraínu. Pútín/Kremlverjar vildu hindra að stærsta og nátengdasta grannríki þeirra í vestri gengi í hernaðarbandalag gegn Rússlandi. Þau viðbrögð höfðu því meiri einkenni harkalegrar landvarnarstefnu en landvinningastefnu.

Kaflinn sem hófst 2014 stóð til febrúar 2022. Borgarastríðið í Donbass hélt áfram þrátt fyrir SÞ-viðurkennda friðarsamninga sem gerðir voru í Minsk 2014 og 2015. Áform og undirbúningur að NATO-aðild Úkraínu hélt áfram, en einmitt þar drógu Rússar „rautt strik“. Nýr kafli í atburðarásinni hófst með innrás Rússa í Austur-Úkraínu 24. febrúar 2022.

Stefna og aðgerðir Rússa 2014 og svo 2022 endurspegluðu ákveðinn viðsnúning í Kreml frá fyrra tímabili, tímabilinu 1991-2014. Sá viðsnúningur fól í sér að Rússland hætti að hörfa undan sókn BNA/NATO sem staðið hafði óslitið frá 1991 (einkum með NATO-útvíkkun), sló hnefanum í borðið og tók að verja aftur svæðisbundna stórveldishagsmuni sína. Undanhald og linkind Rússa 1991-2014 var meira frávik frá hefðbundinni varnarmálastefnu Rússa en tíminn eftir 2014.

Flest bendir til að Rússar hafi með innrásinni viljað þvinga Úkraínu að samningaborði. USA og Vesturveldin höfðu aðrar óskir, vildu fá Úkraínu til að berjast við Rússa, það myndi „teygja Rússland“ (RAND Corporation) og „veikja Rússland“ (Austin varnarmálaráðherra). Friðarviðræður hófust strax á fyrstu vikum stríðsins og miðaði vel. Skv. formanni úkraínsku samninganefndarinnar var „lykilatriðið“ af hálfu Rússa í viðræðunum að tryggja hlutleysi Úkraínu. Áður en til undirskrifta kom voru viðræðurnar stöðvaðar fyrir tilstilli Vesturveldanna, Boris Johnson var sendur til Kiev 9. apríl með eftirfarandi skilaboð: Þið þurfið ekki að samþykkja hlutleysi. Þið hafið okkur að baki „and let's just fight.“ Úkraínsk stjórnvöld hlýddu því, og friðarviðræðurnar runnu út í sand. https://www.pravda.com.ua/eng/news/2023/11/24/7430282/

Þannig varð ljóst að stríðið snerist ekki um sókn Rússa til vesturs, ekki heldur var fullveldi Úkraínu aðalatriði málsins, heldur snerist það um hnattræn völd USA/Vestursins sem voru ósamrýmanleg svæðisbundnu valdi og landvarnarhagsmunum Rússlands. Hvatinn til stríðs var meiri vestan frá. Kenningin um að orsök og helsta hreyfiafl nýs Kaldastríðs sé árásarhneigð Rússa er það mikil einföldun að hún er lygi.

Bjartsýni ríkti í byrjun í Vestrinu um að stríðið og refsiaðgerðir Vestursins myndu koma Rússum á kné. En áðurnefndur viðsnúningur Rússa úr vörn í sókn endurspeglaði líka breytt styrkleikahlutföll í heiminum, þróun í átt frá einpóla heimsskipan til fjölpóla heims. Úkraínustríðið reyndist verða hvati á þá þróun, varð til þess að Rússland, Kína og önnur Evrasíuríki juku efnahagssamvinnu sín á milli og gerðu sig með því minna háð Vestrinu en áður. Rússland sneri sér í raun frá vestrænt miðaðri utanríkisstefnu (sem gilt hafði allt frá 17. öld) yfir í austrænt miðaða stefnu. Töpuð tækifæri í vestri unnust í austri.

Noregur reið á vaðið – tólf herstöðvar

 
Víkur þá sögunni til hinnar dramatísku vígvæðingar á Norðurlöndum. Þau virðast öll hafa keypt þá bandarísku kenningu að þau myndu auka öryggi sitt best með því að stilla sér upp í fremstu víglínu í átökum Bandaríkjanna og Rússlands.

Noregur gekk nokkrum skrefum á undan öðrum Norðurlöndum í samningagerð við Bandaríkin með því að semja árið 2021 um afnot Bandaríkjanna af fjórum herstöðvum í Noregi, með fyrirheit um að herstöðvarnar gætu brátt orðið fleiri. Þetta var reyndar fyrir innrás Rússa í Úkraínu.

En 2. febrúar síðastliðinn undirritaði varnarmálaráðherra Noregs samning um að stofna til átta nýrra bandarískra herstöðva á norsku landi. Og viku síðar skrifaði Klassekampen: https://klassekampen.no/artikkel/2024-02-09/gir-usa-tilgang-til-atte-nye-basar/vZAk:

„Bandaríkin hafa nú þegar [frá 2021] aðgang að fjórum sk. „umsömdum svæðum“ í Noregi, Rygge herflugvelli, Evenes herflugvelli, Sola herflugvelli og Ramsund sjóherstöð.

Nýi samningurinn veitir svo Bandaríkjunum aðgang að átta nýjum stöðvum: Andøya, Ørland, Haakonsvern, Værnes, Bardufoss, Setermoen, Osmarka og Namsen.

Samningurinn gefur Bandaríkjunum mikinn umráðarétt á viðkomandi svæðum, meðal annars fulla stjórn á aðgengi, afnotarétt af og umráðarétt yfir fyrir fram geymdum útbúnaði og tækjakosti.“

Um þessa norsk-bandarísku samningagerð er ýmislegt að segja. „Sameiginleg svæði“ er nýlenska (newspeak) í anda George Orwell sem þýðir bandarísk herstöð. Og bandarískar eru herstöðvarnar í Noregi sannarlega. Ekkert annað. Þær hafa að svo komnu máli enga beina tengingu við NATO. Um er að ræða tvíhliða samning Noregs og Bandaríkjanna.

Nýi samningurinn er ekki enn kominn gegnum norska þingið en fyrri samningur frá 2021 rann fyrirstöðulítið þar í gegn (fyrir Úkraínustríð) svo varla er von á öðru nú. Merkilegra er samt að nánast algjör þögn ríkir um málið í meginstraumsfjölmiðlunum norsku. Fá norsk dagblöð nefndu samninginn yfir höfuð þann 2. febrúar.

Næst kom röðin að Finnlandi – fimmtán stykki

 
Næst kom bandaríska stórsóknin að Finnum. Finnland lét af hlutleysi sínu og gekk í NATO í apríl 2023. Í beinu og snöggu framhaldi bönkuðu Bandaríkin á dyr til að fara fram á herstöðvar. Rétt fyrir síðustu jól, 18. desember, skrifaði Finnland undir samning um varnarmálasamstarf við Bandaríkin, sem gefur Bandaríkjunum aðgang að 15 herstöðvum í Finnlandi – landi sem á 800 km landamæri sameiginleg með Rússlandi. https://news.antiwar.com/2023/12/18/us-granted-access-to-15-military-bases-in-finland-under-new-deal/

„Þetta gerir Finnland öruggara og NATO sterkara“ sagði Stoltenberg kampakátur. Finnland öruggara? Það fer dálítið eftir hvernig Moskva lítur á málið. Og Moskva lýsti yfir strax í október 2022 að brugðist yrði við þessari nýju ógn vestan frá. Með orðum Gerasimov Shoigu varnarmálaráðherra:

“Vegna óska NATO um að byggja upp hernaðarmátt nærri rússnesku landamærunum og að þenja út Atlantshafsbandalagið til Finnlands og Svíþjóðar eru gagnaðgerðir nauðsynlegar í þá veru að búa til viðeigandi uppstillingu herja í Norðvestur-Rússlandi.“

Það er erfitt að halda því fram að 15 bandarískar herstöðvar í Finnlandi gefi Rússum ekki tilefni til eins né neins. Enda gerði Pútín kunnugt einmitt í vikunni sem Finnar undirrituðu samninginn um bandarísku herstöðvarnar í landi sínu (desember 2023) að Rússland myndi í framhaldinu stofna sérstakt herstjórnarsvæði miðað á Norðurlönd. «Við áttum aldrei í neinum vanda varðandi Finnland áður en landið gekk í NATO… En við fáum það núna.“ https://derimot.no/har-han-ingenting-laert-av-finlands-historiepresidenten-i-finland-usas-atomvapen-vil-beskytte-oss/

Að innganga Finna styrki NATO má örugglega rökstyðja. Að hún „geri Finnland öruggara“ er miklu, miklu vafasamara. Eða Norðurlönd sem heild. Ofanskráð ummæli Rússanna benda hreint ekki til þess, svo dæmi sé tekið. Að verndarinn skuli einmitt vera Bandaríkin sem Jimmy Carter kallar «herskáustu þjóð mannkynssögunnar» (sem staðfestist nú um stundir t.d. í Úkraínu og á Gaza) fyllir fólk varla af öryggistilfinningu heldur. Þegar Bandaríkin meta hvaða peðum eigi að fórna hafa þau þann vana að horfa á eigin hagsmuni, ekki hagsmuni peðanna.

(framhaldið – um Svíþjóð, Danmörku og Ísland kemur innan skamms)