Fara í efni

BASÚR UM MARGT FRÁBRUGÐIN BAKÚR

 

Á kúrdísku er Basúr heiti á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak en svæðin í Tyrklandi þar sem Kúrdar eru í meirihluta nefna þeir Bakúr. Basúr þýðir suður og Bakúr norður. Rojava, sem er heiti Kúrdabyggða Norður-Sýrlands, þýðir svo vestur og Rojhilat austur (þar sem sólin rís)  og er heiti Kúrdabyggða Írans.  

Að því marki sem við getum leyft okkur að alhæfa er samfélagsskipan í Kúrdabyggðum Íraks mjög frábrugðin því sem gerist í byggðum Kúrda innan landamæra Tyrklands. Það sem einkum greinir þarna á milli er vægi ættarvelda. Það er afgerandi innan Íraks.

Ættarveldin ráða nánst öllu í Írak sem á langt í land með lýðræðislega stjórnarhætti. Helstu ættirnar eru Barzani ættin annars vegar og Talabani ættin hins vegar. Barzani stýrir landinu vestanverðu og kallast stjórnarflokkurinn KDP. Á áhrifasvæði Barzanis er höfuðborgin Erbil. Talabani ættin stýrir austurhlutanum og er PUK stjórnarflokkurinn þar. Sulaymani er helsta borgin í austurhlutanum en báðar eru þessar borgir, Erbil og Sulaymani, með yfir milljón íbúa.

Á milli áhrifasvæða Barzani ættarinnar og Talabani ættarinnar eru landamæri þar sem vegfarendur eru iðulega stöðvaðir og beðnir að framvísa skilríkjum.

Þess má geta að Erlendur heitinn Haraldsson, prófessor, sem var einn helsti talsmaður Kúrda í Þýskalandi á sjöunda áratug síðustu aldar var í vinfengi við Barzani, afa núverandi forseta og forsætisráðherra. Ferðaðist Erlendur á þessum árum til Kúrdahéraða Íraks og gaf út bók, að ferð sinni lokinni, þar sem hann lýsir því sem fyrir augu hafði borið í kompaníi með skæruliðum Barzanis. Bók þessi er skemmtileg og skýrir meðal annars hve margir af minni kynslóð, sem voru að komast til vits og ára á þessum tíma, vita margt um Kúrda.



Á öldinni sem leið var allt pólitíska litrófið að finna í íslenskri áhugasveit um málefni Kúrda og nefni ég þar Dag Þorleifssn, þáverandi blaðamann Þjóðviljans, afabróður minn Pál Kolka lækni að ógleymdum Erlendi Haraldssyni. Sá síðastnefndi sagði mér skömmu fyrir andlát sitt, þá tiltölulega nýkominn frá Erbil, að sér hefði verið tekið sem þjóðhöfðingja af hálfu Barzani ættarinnar. Þessu trúi ég vel því þannig hef ég oft heyrt talað um Erlend að augljóst væri að framlag hans á árum áður var geymt en ekki gleymt. Ég minntist á þetta í löngu sjónvarpsviðtali sem haft var við mig í ríkissjónvarpinu í Basúr og sagði ég þá að óháð pólitískum skoðunum okkar Erlendar hefði ég verið einn þerra sem bar kistu hans þegar hann var borinn til grafar og hefði það verið táknrænt um samstöðu okkar um málstað Kúrda.

Annars er vandmeðfarið eins og víðar að nefna einn en ekki annan og gættum við þess mjög við Jürgen Klute ferðafélagi minn í Basúr ferðinni að ræða við fulltrúa allra stjórnmálaflokka og hópa og taka þar hvergi afstöðu í deilum þeirra í millum. Markmið okkar væri það eitt að vinna því fylgi að þrýst yrði á tyrknesk stjórnvöld að hefja viðræður við Kúrda í Tyrklandi með þátttöku hins fangelsaða leiðtoga þeirra Abdullah Öcalans og að Tyrkir láti jafnframt af hernaðarofbeldi í landamærahéruðum Tyrklands.

Til gamans sýni ég mynd hér að neðan af sætum sem okkur voru boðin í fundarherbergi eins höfðingjans á landsbyggðinni. Þetta var óvenju stór viðræðusalur en sætin dæmigerð fyrir móttökuherbergi allra stjórnmálalflokka.
Ég hafði á orði að heimkomnum yrði erfitt að bjóða mér til sætis.