Fara í efni

ER ÓRÉTTLÆTI FORSENDA FRAMFARA?

Í ársskýrslu Landsbankans kemur fram að launagreiðslur til Halldórs J. Kristjánssonar bankastjóra námu 149 milljónum króna á síðasta ári, en hluti þeirrar upphæðar tengdist að vísu uppgjöri á kaupréttarsamningum. Greiðslur til Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra námu 83 milljónum króna samkvæmt ársskýrslunni og alls fengu 16 framkvæmdastjórar sviða og dótturfélaga greiddar samtals 598 milljónir í laun og hlunnindi eða hver um sig að meðaltali 37,4 milljónir. Halldór var sem sagt með 12,4 milljónir á mánuði, Sigurjón með litlar 6,9 milljónir og 16 framkvæmdastjórar fengu að jafnaði 3,1 milljón á mánuði í sinn hlut.

Út af fyrir sig geta þetta ekki kallast dónalegar upphæðir. Þær eru á hinn bóginn í meira lagi ósvífnar þegar þær eru settar í samhengi við launakjör almennings, að ekki sé nú talað um kjör þeirra sem minnst bera úr býtum. En svona hefur samfélagið þróast á seinni árum undir handarjaðri ríkisstjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Og í þeim herbúðum ríkir almenn og mikil gleði með vaxandi misrétti og stéttaskiptingu. Þar er óréttlætið nefnilega talið forsenda allra framfara og í því eru framfarirnar einmitt taldar felast. Með hliðsjón af þessari framfarasýn, sem reist er á blindri ofstækistrú á hinn óhefta kapítalisma, er ekki úr vegi að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort meirihluti þjóðarinnar sé kannski sömu skoðunar og ríkisstjórnarflokkarnir? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Þess vegna ríður á að afhjúpa með skipulegum hætti þá ójafnaðarstefnu sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa haft að leiðarljósi svo koma megi þeim frá völdum við fyrsta tækifæri.
Þjóðólfur