Fara í efni

HVERT STEFNIR HJÁ SAMTÖKUM LAUNAFÓLKS INNAN ALMANNAÞJÓNUSTUNNAR?

Erindi á morgunverðarráðstefnu Félags forstöðumanna ríkisstofnana ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ 9. nóvember 2005.

Yfirskrift ráðstefnunnar: Hlutverk stéttarfélaga í ljósi aukins sjálfstæðis ríkisstofnana. Er þörf á endurskoðun starfsmannalaga?

 Við lifum óneitanlega mikið umbrotaskeið, ekki síst innan þess geira – opinbera geirans -  sem er viðfangsefni okkar þessa morgunstund. Ég mun fara nokkrum orðum um hlutverk samtaka launafólks og ræða þær breytingar sem þau hafa tekið í starfi á undanförnum árum og áratugum og velta vöngum yfir því hvert líklegt megi heita að stefni í viðfangsefnum þeirra og áherslum á komandi tímum.
Framtíðin er um sumt fyrirsjáanleg þótt því fari fjarri að það sé einhlítt. Oftar en ekki hefur framvindan orðið á annan veg en menn ætluðu. Þannig gengur þróunin ekki alltaf eftir beinni línu, stundum tekur hún stóra sveiga eða fer jafnvel í hringi.

Sagan endurtekur sig

Þannig minntist ég gamalla tíma sem sjónvarpsstarfsmaður og formaður Starfsmannafélags Sjónvarps þegar farið var að semja um svokallaða stofnanasamninga nú undir aldamótin. Þegar ég kom til starfa hjá Ríkisútvarpinu  árið 1978 var BSRB nýbúið að öðlast verkfallsrétt en samningsrétturinn var nokkru eldri eða frá 1962. Á árunum upp úr 1980, sem var sá tími þegar ég fyrst kom að kjarasamningum var samið í svokölluðum aðalkjarasamningi undir forræði BSRB en að honum frágengnum tóku við sérkjarasamningar sem í tilviki Sjónvarpsins var í reynd stofnanasamningur því innan félagsins voru einvörðungu starfsmenn þeirrar stofnunar. Í aðalkjarasamningi BSRB var samið um hve mikið ætti að verða aflögu til ráðstöfunar í sérkjarasamningi starfsmannafélagsins. Þegar sérkjarasamningar voru í bígerð í Sjónvarpinu var þar mikið um að vera og tilfinningar forsvarsmanna hinna ýmsu starfshópa þar á bæ oftar en ekki á suðupunkti. Þetta var vel að merkja ekki stofnanasamningur í þeim skilningi að stjórnendur á Sjónvarpinu kæmu að samningsgerðinni, þar voru fulltrúar fjármálaráðherra að verki. Var stundum haft á orði að ekki væri það með öllu illt, þar sem því fjær sem samningsgerðin væri vinnustaðnum þeim mun líklegri væru menn til þess að sinna þeim verkum sem þar ætti að inna af hendi, það er að segja að búa til sjónvarpsefni.

Mikilvægur öryggisventill

Á þessum árum var á milli samninga starfandi samstarfsnefnd starfsmannafélagsins og fjármálaráðuneytisins. Hún var mjög virk, stöðugt að, og virkaði sem eins konar ventill í verðbólgu á milli samninga til að bregðast við launaskriði á almennum vinnumarkaði. Þannig var vinnustaðnum alla vega að einhverju leyti haldið samkeppnishæfum. Það fór síðan eftir árferði og pólitískum vilja hverju sinni, hvernig opinbera geiranum vegnaði. Þannig hófst, svo dæmi sé tekið frá þessum tíma, mikið niðurskurðar- og aðhaldstímabil með nýrri ríkisstjórn á vordögum 1983, sem endaði með miklum ósköpum, fyrst uppreisn húsnæðiskaupenda í Sigtúnshreyfingunni um haustið þetta sama ár og síðan með margra vikna harðvítugu verkfalli BSRB árið eftir. Þá hafði það gerst að ríkisstjórnin hafði hreinlega skrúfað fyrir öryggisventilinn og látið sig engu varða það launaskrið sem þá varð í ýmsum geirum atvinnulífsins, ekki síst í tækni og tölvugeira, sem þá var að vakna til lífsins. Þessu fundum við vel fyrir á Sjónvarpinu sem var í snertingu við þennan tækniheim. Ég man að þá ólgaði blóðið í mönnum.

 Frá bandalögum til félaga

Verkfallið 1984 vakti meiri væntingar en risið varð undir og varð afraksturinn af vinnudeilunni óásættanlegur stórum hópum. Krafa um að víkka út sérkjarasamningaleiðina og ganga alla leið til sjálfstæðs samningsréttar stéttarfélaganna innan opinbera geirans varð nú háværari og var undir hana tekið af háskólamönnum í BHM sem öðluðust samningsrétt miklu seinna en BSRB, eða 1973 enda höfðu þeir smám saman verið að kljúfa sig út úr BSRB, gömlu heildasamtökunum sem voru lengi einokandi um samningsgerðina sem áður segir. Árið 1986 litu dagsins ljós ný kjarasamningalög eftir samninga við opinbera starfsmenn og urðu þau að veruleika í ársbyrjun 1987. Aðildarfélögin innan bandalaganna öðluðust þar með samningsrétt og beið nú allra, einstakra félaga og bandalaga að fóta sig í nýrri tilveru. Eitt leiddi af öðru. Þannig var smám saman slakað á lögbundinni miðstýringu. Árið 1990 var, svo einn áfangi á þessari braut sé nefndur, fjármálaráðuneytinu veitt heimild til að framselja framkvæmd kjarasamninga til einstakra ríkisstofnana.
Fyrir BSRB var þetta geysileg breyting. Bandalagið hafði haft forræði yfir samningum um áratugaskeið - nú var það búið spil. Það var þó að sjálfsögðu ekki bannað að semja undir regnhlíf BSRB en einmitt það gerðist í kjarasamningunum sumarið 1989. Heildarsamtökin tóku þá forystu í viðræðunum við mjög erfiðar aðstæður á vinnumarkaði. Á vettvangi BSRB fóru félögin nú sameinuð að samningsborðinu – ekki vegna lögþvingunar einsog fram til þessa, heldur af fúsum og frjálsum vilja.

BSRB vendir sínu kvæði í kross

Þetta var undanfari Þjóðarsáttarsamninganna svokölluðu árið 1990, en þessir samningar frá vordögum 1989 voru merkilegir fyrir ýmissa hluta sakir. Alþýðusambandið hafði allan níunda áratuginn reynt að ná samningum á grundvelli þess að hemja verðlag og ná því niður en opinberir starfsmenn höfðu hins vegar fyrst og fremst reist kröfur um kauphækkanir. Í þessum samningum vendir BSRB hins vegar sínu kvæði í kross, leggur áherslu á jafnlaunasamninga einsog oft áður, með krónutöluhækkunum, en tekur nú jafnframt að horfa mjög stíft á verðlagið. Þessi skammtímasamningur sem gerður var í apríl og gilti fram á haustið var með uppsagnarákvæði tengt verðlagi á matvöru. Um sumarið brustu þessi bönd og minnast eflaust einhverjir geysilega fjölmenns útifundar verkalýðshreyfingarinnar í Reykjavík snemmsumars 1989 þar sem verðhækkunum á matvöru var mótmælt og krafist aðgerða. Þessu var fylgt eftir með margvíslegum þrýstiaðgerðum af hálfu BSRB og ASÍ. Var í þessu sambandi vísað í samningsforsendur BSRB sem voru enn strangari en verðlagsforsendur ASÍ sem gengið hafði frá skammtímasamningi í maíbyrjun. Ríkisstjórnin svaraði mótmælunum og brostnum samningsforsendum með niðurfærslu á matvöruverði.

Hlutur BSRB í þjóðarsáttinni vanmetinn

BSRB og ASÍ voru þarna komin í betra kallfæri en í langan tíma þótt segja megi að samningarnir 1986 hafi að nokkru leyti verið á sambærilegum forsendum. Nú voru það útgjöld heimilanna sem einblínt var á fremur en innkoman í launaumslagið. Á þessum tíma var samdráttur í efnahagslífinu, samhliða óðaverðbólgu, um 30% á árinu 1989 og sú stemning ríkjandi að allir þyrftu að leggjast á árarnar til að ná verðlagi niður. Þjóðarsáttin svonefnda, sem samið var um í ársbyrjun 1990 hefði aldrei orðið til án BSRB, og þeirrar stefnubreytingar sem þarna varð og hefur hlutur samtakanna í því efni verið stórlega vanmetin af flestum þeim sem skrifað hafa um þetta tímabil.
Á þessum tíma urðu erfið – en sem betur fer aðeins tímabundin - vinslit með BSRB og BHM – en síðarnefndu samtökin keyrðu á kröfu um launakerfi sem byggði á þremur þáttum, sem áttu að fá sérstakt vægi: Menntun, stjórnunarlegri ábyrgð og fjármálaábyrgð. Ríkið og BHM gerðu síðan með sér samning haustið 1989 sem byggði á því að háskólamenn skyldu fá allar þær hækkanir sem BSRB kæmi til með að semja um næsta hálfa áratuginn og launakerfistilfærslur á framangreindum forsendum í ofanálag. Þessum samningum var síðar rift – þeir sviknir – en það verður að segjast eins og er að þeir gengu þvert á stefnu BSRB á þessum tíma og féll það ekki í góðan jarðveg hjá félögum í BSRB þegar þáverandi fjármálaráðherra undirritaði samkomulagið við háskólamenn í Rúgbrauðsgerðinni, torgi lýðræðisins, sem hann nefndi svo á hinni stemningsþrungnu stundu.
Ég nefni þetta allt vegna þess að í þessari fortíð urðu til þræðir sem rekja má inn í samtímann. BSRB tók nú að fóta sig í nýju hlutverki. Í fyrsta lagi má tala um aukna áherslu á útgjaldapólitík.

 Áhersla á útgjöldin

Hugsunin fór nú að ganga út á að aðildarfélögin semdu um það sem færi inn í launaumslagið, áherslur bandalagsins kæmu hins vegar  til með að lúta fremur að því sem út úr umslaginu væri tekið: sköttum, húsnæðiskostnaði, vaxta- og öðrum fjármagnskostnaði, tilkostnaði í heilbrigðiskerfinu, leikskólagjöldum og þar fram eftir götunum. Vissulega er þetta þrengri aðkoma en samtökin höfðu áður haft að því leyti að allt er þetta samtvinnað, launin og útgjöldin, ekki síst hjá starfsmönnum hins opinbera. Það sem tekið er út á einum stað úr fjárhirslum ríkisins hefur áhrif á öðrum.

 Í leit að jafnvægi

En allt er þetta spurning um að finna rétt jafnvægi, nokkuð sem við eigum enn eftir að gera að mínu mati því ég held að þróunin eigi að verða sú, að á vettvangi heildarsamtaka verði samið um almennar launabreytingar með tilliti til verðlagsþróunar og aðstæðna í efnahagslífinu almennt en á vegum einstakra stéttarfélaga verði hins vegar samið við stofnanir og samningar lagaðir að sértækum aðstæðum. Þessi aðferðafræði hefur verið að þróast og hefur SFR haft þar forgöngu innan raða BSRB en verkaskipting á að mínu mati enn eftir að finna jafnvægi, bæði innan okkar vébanda og einnig af hálfu viðsemjenda okkar, ríkinu og einstökum stofnunum þess svo og sjálfseignarstofnunum og annarri starfsemi sem flokkast undir almannaþjónustu og er hluti af hinu opinbera samningsumhverfi.

Aðkoma heildarsamtaka mikilvæg

Ég held að það sé mjög mikilvægt að gæta vel að því að viðhalda aðkomu heildarsamtaka að kjaramálum því eins og dæmin sanna hefur það reynst vel þegar á hefur þurft að halda og vísa ég þar í þjóðarátakið sem gert var í byrjun tíunda áratugarins við að kveða óðaverðbólguna í kútinn. Atvinnurekendahliðin sýndi að vísu litla ábyrgð í framhaldi þjóðarsáttarsamninganna og vildi aldrei viðurkenna að með þjóðarsáttinni átti að búa í haginn fyrir vaxandi kaupmátt á grundvelli jafnaðar. Sjúklingaskattar og margvísleg notendagjöld innan velferðarþjónustunnar sem fóru að líta dagsins ljós á þessum tíma skildi eftir óbragð í munni margra sem því miður tengdist þjóðarsáttinni auk þess sem að sjálfsöðgu samningsrofin gagnvart BHM sátu lengi í mönnum þar á bæ og spillti samstarfi á milli BSRB og BHM um langt skeið því háskólamenn litu lengi á alla aðstandendur þjóðarsáttarinnar sem tilræðismenn í sinn garð.
Sá þáttur í starfi BSRB þar sem við höfum náð að fóta okkur bærilega og hvað best á er á sviði réttindamála. Þar hafa bandalögin og Kennarasamband Íslands einnig náð mjög vel saman enda árangurinn eftir því. Afraksturinn er m.a. samkomulag um nýtt lífeyriskerfi árið 1996, Fjölskyldu – og styrktarsjóður árið 2000, auk þess sem við áttum drjúgan þátt í hugmyndavinnunni að baki nýjum fæðingarorlofslögum sem lögleidd voru á sama tíma.
Á vettvangi BSRB er lagt mikið upp úr starfi sem tengist réttindum og skyldum og horfum við þar til erlendra regluverka og tökum mjög virkan þátt í starfi sem tengist hinu evrópska efnahagssvæði. Í seinni tíð hafa kraftar okkar í vaxandi mæli beinst út fyrir landsteinana og þá mjög að alþjóðlegum hugmyndaverkstæðum svo sem hjá OECD og þá ekki síður Alþjóðaviðskiptastofnuninni og samningunum sem þar eru í smíðum en sem kunnugt er hafa fjölþjóðlegir samningar og skuldbindingar sífellt meiri áhrif á íslenska lagasmíð og þar með frelsi okkar til athafna.

BSRB í fararbroddi í alþjóða umræðu

BSRB hefur staðið í fararbroddi í hreyfingu launafólks á þessu sviði og leyfi ég mér að fullyrða að viðleitni samtakanna til að vekja athygli á samspili alþjóðlegra skuldbindinga og íslenskrar lagasetningar hefur þegar haft talsverð áhrif, til dæmis varðandi skuldbindingar okkar í GATS samningalotunni. Þarna er einmitt komið að veigamiklu hlutverki heildarsamtaka á borð við BSRB í lýðræðissamfélagi, að upplýsa, örva til umræðu og varpa ljósi á mál frá sjónarhóli launafólks. Eftir  að ég settist inn á Alþingi gerði ég mér betur grein fyrir þessu mikilvæga hlutverki verkalýðshreyfingar sem síst verður minna mikilvægt eftir því sem fjármagnsöflin styrkjast í þjóðfélaginu. Ef tryggja á jafnvægi á milli launafólks annars vegar og atvinnurekendavalds og fjármagns hins vegar –  er lífsnuðsynlegt að hafa sterka verkalýðshreyfingu. Réttindabarátta Alþýðusambands Íslands í þágu erlendra farandverkamanna nú um stundir og samhliða fyrir réttindum íslensks launafólks er áþreifanlegt dæmi um þetta. Sem þrýstiafl í þágu almannahagsmuna gæti ég  nefnt fjölmörg lög sem BSRB hefur haft áhrif á. Ég nefni núna þá áherslu sem við leggjum á að vatnsveitur verði í eigu og á forræði samfélagsins en ekki fengnar gróðaöflum til ráðstöfunar. Finnist einhverjum þessi barátta langsótt býð ég hinum sama til ráðstefnu á Hótel Loftleiðum á föstudag í næstu viku þar sem David Hall, prófessor frá Greenwich háskólanum í Englandi segir frá reynslu af einkavæðingu vatnsveitna fjær og einnig nær því þetta hefur verið að gerast alls staðar í kringum okkur með hrikalegum afleiðingum. Þá er þess að geta að við erum stöðugt með réttindamál launafólks hér heima til skoðunar, bæði mál einstaklinga og hópa auk þess sem við efnum til umræðu um málefni sem brenna á samfélaginu, svo sem þau sem tengjast tölvutækni og friðhelgi einkalífsins. Hvað réttindamálin áhrærir má nefna að þessa dagana eru að hefjast viðamiklar umræður BSRB og BHM við ríki og borg og Samband íslenskra sveitarfélaga um málefni vaktavinnufólks og er markmiðið að bæta kjör vaktavinnufólks með tilliti til launa, starfsumhverfis, heilbrigðis og fjölskyldulífs. 

 Fjármálaráðherra vill báknið burt

En hverfum aftur til upphafsára tíunda áratugarins þegar Friðrik Sophusson kemur til sögunnar í stól fjármálaráðherra með æskudrauma sína og hugsjónir um báknið burt í farteskinu. Tíðarandinn var honum eins hagstæður og hugsast gat, einkavæðing alls staðar á dagskrá, nánast hvar sem litið var, innan Evrópusambandsins, OECD og þess skammt að bíða að stærsta einkavæðingarátaki allra tíma, GATS-samningshrinunni, General Agreement on Trade in Services –, yrði hrint af stokkunum. Það gerðist í ársbyrjun 1994.
Í ræðu sem Friðrik flutti á ráðstefnu um stefnu í launa- og starfsmannamálum ríkisins á Hótel Loftleiðum í október það ár, sagði hann að nú lægi á að stokka upp opinbera kerfið því í hönd færu tímar einkavæðingar og samkeppni. Nefndi hann 6 atriði sem þyrfti að breyta.
1. að auka og skerpa ábyrgð stjórnenda og afnema æviráðningar
2. hverfa frá lagalegri sérstöðu sem ríkti um ríkisstarfsmenn
3. að horfið yrði frá áherslu á starfsaldur en þess í stað horft til frammistöðu, framleiðni og ábyrgðar hvers einstaklings fyrir sig. <
4. að lífeyrimál ríkistarfsmanna yrðu samræmd því sem gerðist á almennum markaði
5. að starfsmannahald ríkisins yrði samkeppnisfært við einkamarkaðinn
6. ...og í sjötta lagi, að umsýsla um launa- og starfmannamál færðist út í stofnanir.

 Aftur flytur Friðrik Sophusson ræðu, að þessu sinni um nýskipan í ríkisrekstri, á Hótel Sögu í nóvember árið 1996. Nú kvað við enn harðari einkavæðingartón enda höfðu þá verið lögfest ný lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og ný lífeyrislög í burðarliðnum þar sem umgjörðin um hugmyndafræði einkavæðingarinnar var komin á koppinn og byrjað að samræma lífeyrisréttindin – það er að segja að forminu til,  því ekki hafði ríkisvaldinu heppnast að skerða réttindi opnberra starfsmanna til jafns við lífeyrisréttindi Sal sjóðanna eins og til hafði staðið.

Takmarkalaus stjórnendahyggja

Það sem er sláandi í ræðu fjármálaráherrans fyrrverandi frá þessum tíma og einnig í greinargerð með fyrrnefndu frumvarpi, er annars vegar löngunin til að innleiða markaðslaunakerfi hjá hinu opinbera og hins vegar nær takmarkalaus stjórnendahyggja. Hún byggði á ofurtrú á skipulagi: skipulagi sem átti að færa stjórnandanum völd í hendur og gera allt umhverfi hans sveigjanlegra, að einskonar leir í höndum hans. Forstöðumaðurinn eða forstjórinn skyldi vissulega gerður ábyrgur gerða sinna, ráðinn tímabundið, til fimm ára og hugsunin þar að baki sú, að stæði hann sig ekki yrði hann látinn fara.
Til marks um þessa stjórnendahyggju í frumvarpinu þá sagði í greinargerð sem fylgdi því að starfsfólki skyldi gerð grein fyrir því til hvers ætlast væri af því. Með öðrum orðum, ekki var litið á starfsmanninn sem sjálfstæðan og skapandi einstakling heldur tæki eða verkfæri sem stjórnandinn beitir. Hluti af þessari hugsun er sú þráhyggja sem annað veifið skýtur upp kollinum að nema beri úr gildi þau ákvæði laga sem skylda forstöðumann til þess að veita starfsmanni áminningu eða gefa honum færi á að leiðrétta sig eða einfaldlega skýra sitt mál ef til þess kemur að segja eigi honum upp störfum. Við sögðum hins vegar og segjum enn að ef reka á mann úr starfi vegna þess að hann veldur ekki hlutverki sínu verður stjórnadinn að hafa uppburð í sér til þess að ræða málin opinskátt og gefa viðkomandi starfsmanni færi á að koma við vörnum. Sú afstaða að vilja nema brott áminningarskylduna hefur ekkert með nútíma stjórnum að gera. Þetta er hugsun sem hvílir á gamaldags húsbóndavaldi og gagnast fyrst og fremst veikum stjórnendum sem ekki valda sínu hlutverki. Þessi hugsun er hins vegar fullkomlega í anda laganna frá 1996 um stjórnandann og verkfæri hans. Ef stjórnandanum líkar ekki tiltekið verkfæri þá hendir hann því. En þegar allt kemur til alls þá erum við að tala um fólk og það er líka þannig að í starfsemi sem kostuð er af almanna fé verður að ætlast til þess að farið sé að almennum reglum þar sem allir hlutaðeigandi hafi rétt á því að komið sé fram við þá sem manneskjur. Það eru nefnilega fleiri menn en yfirmenn. Stundum þarf hins vegar að minna á það og lítum við svo á að það sé hlutverk stéttarfélaganna.

Varnaðarorð við dreifstýringu og stofnanasamningum

Efasemdir sem fram komu af hálfu BSRB gagnvart hinum nýju kerfum voru helstar þessar:
a) Einstaklingsbundnir samningar eins og vilji var til að innleiða – og hér skulum við ekki gleyma því að okkur var sagt í samningaviðræðum í aðdraganda samninga í ársbyrjun 1997, að stéttarfélögin ættu að sitja á áhorfendabekkjum þegar samið væri innanbúðar – sköpuðu að okkar dómi óeðlileg og óástættanleg völd hjá launagreiðanda gagnvart viðsemjanda hans, hættu á mismunun og jafnvel spillingu.
b) Þá bentum við á að rannsóknir sýndu að því meira sem samningar væru færðir inn á stofnanir og í fyrirtæki þeim mun meiri yrði launamunurinn. Miðstýrt launakerfi tryggði ekki hið gagnstæða en það virtist hins vegar vera forsenda til að draga úr launamun.
Í rauninni liggur þetta í augum uppi. Forstjóri sem ætlar að beita tækjum markaðarins til þess að ráða fólk í vinnu leggur fyrst áherslu á að ráða til sín svokallaða lykilmenn. Hann er reiðubúinn að greiða fyrir þá samkvæmt því sem markaðsaðstæður segja til um. Sjálfur myndi hann segja að þetta væri í samræmi við stjórnunarlegar skyldur sínar og hagsmuni stofnunarinnar. Aðra starfsmenn myndi hann væntanlega einnig ráða samkvæmt markaðslögmálum. Því fjær sem þeir stæðu honum og því minna sem hann þyrfti á sérþekkingu þeirra að halda, að ekki sé á það minnst þegar umframframboð er á vinnumarkaði, því minna myndi hann greiða þeim. Einnig þeim myndi hann greiða það kaup sem markaðurinn byði. Og við bentum á að staðreyndin væri sú að á markaði væri miklu meiri launamunur en í hinu opinbera kerfi.
Aðalatriðið væri þetta: Sú umræða sem fram færi inni í einstökum stofnunum væri líklegri til að taka mið af þörfum stofnunarinnar sem slíkrar eins og stjórnendur mætu það hverju sinni, sem hlyti að vera ótvíræður kostur frá sjónarhóli stjórnanda. Í miðstýrðum samningum væru áherlsur hins vegar almennari, síður væri fjallað um einstaklingana sem slíka heldur hvað það kostaði að framfleyta sér, hver væri kostnaður við fiskinn og kartöflurnar, húsaleiguna, veikindin og lyfin, tómstundirnar og fríið. Inn í slíka umræðu, bentum við á, ættu hin almennu sjónarmið um jöfnuð, stöðu karla og kvenna greiðari leið en í stofnanamiðuðum samningum.
Við viðurkenndum að þarna vægjust á stjórnunarlegir þættir og hagsmunir þeirra sem væru á lægstu laununum, og þá einnig þeirra sem þættu ekkert sérstaklega frábærir og eftirsóknarverðir. Við erum nefnilega líka og alls ekkert síður að semja fyrir það fólk, hina gömlu og þreyttu og vanmáttugu en hinn unga frábæra afburðamann!
c) Þá höfðum við efasemdir um að mikilvægi launa sem stjórnunartækis væri eins mikið og af væri látið.
d) Við spurðum líka hvort með strangri samningsstjórun – þar sem ríkið gerði þjónustusamninga fyrir tiltekna upphæð til ráðstöfunar í innan stofnana á forsendum stjórnenda væri verið að byggja inn í kerfið tilhneigingu til að fækka störfum. Líkur væru fyrir því að reynt yrði að auka framleiðni með því að deila launagreiðslum á eins fáa starfsmenn og kostur væri; um þetta myndi að öllum líkindum ríkja samstaða á vinnustaðnum. Hins vegar vaknaði spurningin um hve hagstætt þetta væri þjóðhagslega með tilliti til atvinnuleysis og einnig hins ef slík samtrygging myndaðist á vinnustaðanum, fyrir gæði þjónustunnar og þar með notendur hennar.
e) Þá var varað við því að ríkið sem atvinnurekandi afvopnaði sig í samkeppni sinni við aðra atvinnurekendur. Forsenda þess að ríkið sem atvinnurekandi geti keppt um starfsmenn væri annað tveggja að gera það á grundvelli markaðslauna eða annarra þátta svo sem atvinnuöryggis og tryggra réttinda. Hagsmunir hins opinbera atvinnurekanda gætu legið í því að efla tiltekin réttindi í stað þess að draga úr þeim eða afnema þau til þess að treysta betur stöðu sína sem atvinnurekandi.
f) Þá var BSRB óþreytandi að minna á að hið nýja kerfi þjónustusamninga ogdreifstýringar væru í og með hugsaðir til þess að spara útgjöld - skera niður. Hugsunin væri sú að næðu stjórnendur ekki endum saman yrðu þeir einfaldlega að fækka fólki eða skera niður með öðrum hætti. Sum stéttarfélög sem fögnuðu þessu kerfi viðurkenndu aldrei þessa hugsun og knúðu fram umframhækkanir að afloknum samningum með ólöglegum uppsögnum; nokkuð sem ég hef oft verið hugsi yfir.

 Barist fyrir félagslegri aðkomu - farið bil beggja

En hvað um það, til að gera langa sögu stutta þá var hart tekist á um hver skyldi verða aðkoman að kjarasamningum. Áttu þeir að fara fram á forsendum forstöðumanna gangvart einstaklingnum þar sem stéttarfélagið sæti á hliðarlínunni, fylgdist með, ráðlegði hugsanlega um klæðaburð og varalit fyrir forstjóraviðtölin eins og við þekkjum hjá sumum ónefndum félögum á almennum vinnumarkaði eða með félagslegri aðkomu stéttarfélaganna.
BSRB varð samnefnari félaganna í baráttu fyrir hinni félagslegu aðkomu, síðan drógu heildarsamtökin sig í hlé og einstök aðildarfélög gengu til verksins.
Þar hefur margt ágætt áunnist. Félögin hafa náð að bæta laun stórra hópa, efla starfsmenntun og ýmis réttindi starfsfólksins. Í ljósi þeirrar vitneskju sem menn höfðu um hætturnar í dreifstýrðu stofnanaumhverfi hefur markvisst verið reynt að taka á málum á borð við kynjamisrétti og fylgjast menn nú spenntir með tilraunum SFR á því sviði.

Of snemmt að leggja mat á kerfið

En virkar kerfið? Það er of snemmt að segja til um það. Í fyrsta lagi þyrfti að fara fram á því rannsókn hvaða áhrif það hefur haft á kjaramismun innan hins opinbera. Kerfi sem leiðir til aukinnar mismununar er óásættanlegt. Í öðru lagi hefur þegar á heildina er litið verið kaupmáttaraukning í landinu mestan hluta þess tímabils sem kerfið hefur verið við lýði. Þá fyrst reynir á kerfið þegar samdráttur verður. Minni ég þar á launaskriðstímabilið 1986 og ‘87 þegar gamla miðstýringarkerfið virtist færa hverjum manni gull og græna skóga. Ári síðar fundu menn sama kerfi allt til foráttu. Eins og sakir standa virðist hins vegar ekkert vera til fyrirstöðu að kerfið geti gengið upp eftir allar þær lagfæringar sem gerðar hafa verið á því frá fyrstu tíð. Allt er þetta hins vegar háð fjármagninu sem veitt er inn í mekanisma kerfisins og minni ég þar á hinn opna öryggisventil - ventil sem ég vísaði til í upphafi máls míns. Á meðan ventlinum var haldið opnum lék allt í lyndi. Þegar fyrir hann var skrúfað sprakk kerfið.

Ríkisvaldið verður að taka ábyrgð á eigin verkum

Ég vara ríkisvaldið við því að horfa ekki til þess launaskriðs sem nú er að verða á markaði. Fólk er hætt að fást til mikilvægra starfa innan almannaþjónustunnar, svo sem í heilbrigðiskerfinu. Ef ekki er tekið mið af þessu í fjárveitingum til stofnanasamninga sem gerðir verða á samningstímabilinu mun illa fara, ekki einvörðungu fyrir starfsfólkinu heldur fyrir þeirri þjónustu sem á að veita. Og því mega stjórnvöld ekki gleyma að hætta sem steðjar að hinu niðurnjörvaða opinbera vinnuumhverfi er mikil núna vegna þenslu í þjóðfélaginu og samkeppni um vinnuafl. Þenslan er á ábyrgð stjórnvalda og það er þeirra að bregðast við.
Að lokum þetta: Vörpum frá okkur hugmyndafræði verkfæratöskunnar. Hefjum til vegs og virðingar þá hugsun að nýta beri krafta og sjálfstætt sköpunarafls hvers og eins. Eflum frumkvæði manna og virkjum hvern og einn til að standa sína vakt. Það verður ekki gert með því að gera starfsmanninn að leir í höndum forstjórans, tæki eða tóli í verkfæratösku hans heldur að jafningja í sameiginlegu verkefni.

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast tvö erindi sem ég hef flutt um sama efni:

HVERT Á RÍKIÐ AÐ STEFNA Í LAUNA  OG STARFSMANNAMÁLUM? Erindi flutt á ráðstefnu á vegum Fjármálaráðuneytis að Hótel Loftleiðum 21/10 1994

Upp með kaupið - burt með baksleikjuviðbitið: Erindi flutt á ráðstefnu fjármálaráðherra um Nýskipan í ríkisrekstri 26. nóvember 1996