Fara í efni

KRAFAN ER: ÖLL SPILIN Á BORÐIÐ !

Sæll Ögmundur...
Ég var að lesa pistil Óínu á vefsíðunni þinni, og finnst hún afbragð, eitthvað finnst mér ég kannast við ritstíl hennar, sem er góður.  En það veltist fyrir mér hvort almennir lesendur geri sér grein fyrir hversu alvarlegt þetta mál er. Framsetningin er flókin og ekki er talað tæpitungulaust um kjarna málsins. Ritstílsflúrið kann með öðrum orðum að byrgja mönnum sýn. Það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér, og að íslenskir lesendur skilji allt þetta vel!
Það er ekkert grínmál að verið sé að hlera fólk og skerða persónufrelsi þess, hvað þá ef það er gert að geðþótta einstaklinga, ólöglega, að ástæðulausu.  Að það skuli hafa verið njósnað um sjálfan utanríkisráðherrann, og hann hleraður, finnst mér ganga útf yfir allan þjófabálk!
Það gengur algerlega fram af mér að menn skuli voga sér að fara erlendis og semja við erlent ríki fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og undirrita, að sögn forsætisrráðherrans “nýjan varnarsamning”  við Bandaríkin.  Þessi samningaferð Geirs Haarde, Björns Bjarnasonar og Valgerður Sverrisdóttur til að undirrita nýjan varnarsamning við Bandaríkin er gerð án umfjöllunar á háttvirtu Alþingi Lýðveldisins, án umræðu og samþykkis utanríkimálanefndar, og að mér skilst án leyfis forseta Íslands, sem skal vera allavega í samráði í samningsgerðum stjórnvalda við útlönd og verður að samþykkja þá, svo ég vísi aðeins til 21. greinar stjórnarskrárinnar.
Að umræddir ráðherrar skuli vera í tygjum við hina bandarísku FBI, sem er innanríkislögregla Bandaríkjanna, er furðulegt. Getur verið að litið sé svo á, að þjóðfélag Íslendinga sé talið vera innanbúðarmál Bandaríkjanna?  Að sögn Ólínu er í frétt Morgunblaðsins haft eftir Birni Bjarnasyni að “Íslensk stjórnvöld hafi haft “samskipti” við FBI (´og hver veit nema CIA líka´) í ára tugi og að þeir séu bara að treysta það pólitíska samstarf.”   Hvaða pólitíska samstarf er maðurinn að ræða um? 
Eru virkilega einstaklingar á Íslandi sem telja sig vera að starfa fyrir FBI og jafnvel CIA á Íslandi, þá fyrir hönd Bandaríkjanna?  Hverjir eru þessir einstaklingar og hverjir greiða þeim fyrir ómakið og eru því húsbændur þeirra?   Því hefur hvorki háttvirt Alþingi né almenningur vitað um þessa starfsemi FBI, og jafnvel CIA á Íslandi, en þessar leyniþjónustur hafa mjög náið samstarf?  
Það má auðvita vel vera að íslensk lögregla þurfi að hafa eðlilega samvinnu við FBI, eins og INTERPOL og fleiri lögreglustofnannir, en hvernig blandast þetta pólitík og varnarmálum, og hvernig tengjast almenn lögreglumál “pólitík” og stjórnvöldum Íslands?
Það er ekki að undra að Ólína spyrji: “Björn segir, að Íslensk stjórnvöld hafa átt samskipti við alríkislögregluna í áratugi og sá pólitíski grundvöllur sem nú er kominn verður bara til þess að treysta samstarfið.  Hvaða pólitíska grundvöll er Björn Bjarnason að tala um og í hverju hefur þetta áratuga langa samstarf við FBI verið fólgið og hvernig stendur til að treysta samstarfið enn frekar – er meiningin að treysta það á flokkspólitískum grundvelli? Hver var að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins? Er þetta samhengið sem Björn er að tala um – og Styrmir að ýja að með fréttauppsetningu sinni á síðu tvö.”

Málið er Ögmundur, að um er að ræða um mjög alvarleg mál, fyllilega á borð við að gera íslensku þjóðina að samsærisþjóð Bandaríkjanna í ólöglegri og siðlausri innrás þeirra í Írak og ofbeldishersetu þeirra þar nú!
Verðu þessu ekki mótmælt í alvöru af stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni, og verður ekki gengið á fund forseta Íslands, eða hvað?  Mun háttvirt Alþingi ekki setja á stofn nefnd til þess að rannsaka öll þessi mál niður í kjöl?  Munu þeir sem virðast hafa gerst sekir um lögbrot, ekki vera kærðir?
Ef um er að ræða stjórnarskrárbrot, þá gæti verið um landráð að ræða!
Það má svosem vel vera að menn beiti fyrir sig “viðskiptaleynd” í þessu tilviki eins og með Kárahnjúka og ALCOA og á þeim grundvelli megi ekki ræða málið. Því skyldu þau ekki reyna þetta fyrst þau á annað borð komast upp með háttalag af þessu tagi! Ögmundur, þess vegna er kjörorð þitt “ÖLL SPILIN Á BORÐIÐ – EKKERT LEYNIMAKK GAGNVART ÞJÓÐINNI” svo áhrifaríkt!
Eða hvað Ögmundur? Á bara snúa málinu upp í umræður um þjóðarsátt pólitíkusanna? Kveðja,
Helgi