Fara í efni

Mælikvarði á gæði?

Það var athyglisvert að hlusta á þá Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins og Björgólf Guðmundsson fjármálamann í morgunútvarpi RÚV glóðvolga af þingi Samfylkingarinnar. Ekki svo að skilja að þeir séu Samfylkingarmenn heldur voru þeir fengnir á þing Samfylkingarinnar sem sérstakir gestir til að örva þar umræðu. Samfylkingin vill greinlega stækka sig til hægri og voru þessir ágætu fyrirlesarar og debatörar án efa fengnir til þess að hjálpa til við að færa landamæri Samfylkingarinnar í þá átt. Reyndar hljómar Styrmir jafnan eins og varfærinn hægri krati; hans tónn er hinn sami og var ríkjandi í Sjálfstæðisflokknum þar til grimm markaðsviðhorf fóru að ryðja sér til rúms í flokknum í sívaxandi mæli á tíunda áratugnum. Björgólfur virtist hafa haldið landsföðurlega hægri messu yfir þingfulltrúum Samfylkingarinnar við góðar undirtektir. Ekki heyrði ég betur en að í þessari umræðu hafi viðhorfin öll snúið  til hægri. Athyglisvert var að heyra Björgólf skýra hvers vegna gott væri að fá erlendan banka til landsins. Það væri vegna þess að þá fengjum við samanburð og gætum metið hvort við værum að gera vel. En þá leyfi ég mér að spyrja: Hversu góður mælikvarði væri þetta á hve vel bankarnir stæðu sig, hvað væri það sem mældist? Samkeppnismælikvarði gæti vissulega sagt okkur til um arðsemi og einnig þjónustu við fjölmennustu viðskiptavinahópana. En hvað myndi tilkoma erlends banka segja okkur um hversu vel bankarnir stæðu sig við að þjóna fámennum byggðarlögunum? Myndi hann setja upp útibú þar, sem íslenskir bankar gætu síðan borið sig saman við? Hingað til höfum við metið gæði þjónustunnar, alla vega að hluta til, einmitt á grundvelli þessa. Við höfum horft til þjóðarinnar allrar. Hvað þetta snertir hafa ríkisbankarnir staðið sig vel í tímans rás. Þeir hafa reynt að þjóna landsmönnum öllum. Reyndar held ég að íslenskir bankar standist vel alþjóðlegan samanburð hvað alla þjónustu snertir. Ég held hins vegar að sú markaðs- og arðsemishugsun, sem nú er ríkjandi, komi til með að þrengja hugmyndir manna um þjónustuhlutverk bankanna – ég er ekki sannfærður um að það komi til með að spanna landið allt og þjóðina alla. Eitt er víst að erlendur banki sem hingað kæmi væri fyrst og fremst á höttunum eftir pottþéttum arði. Þjónusta við kúnna sem gæfu lítið af sér væri ekki inni í myndinni. Ekki er enn fyllilega komið í ljós hver afstaða hinna nýju eigenda gömlu ríkisbankanna er að þessu leyti. Ekki virðist samfélagsleg ábyrgð fjármálakerfisins hafa komið til umræðu á landsfundi Samfylkingarinnar.