Fara í efni

Morgunblaðið á lof skilið fyrir umfjöllun um spilafíkn

Allt frá því á laugardag hefur verið mjög athyglisverð umfjöllun í Morgunblaðinu um spilafíkn. Á laugardag birti blaðið bréf frá Ólafi M. Ólafssyni þar sem hann auglýsir eftir lögfræðingi til að taka mál sitt til Evrópudómstólsins. Ólafur tapaði öllum eigum sínu vegna þess að náinn venslamaður, sem hafði aðgang að bókhaldi hans, var haldinn spilafíkn. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins var ítarlegt viðtal Skapta Hallgrímssonar við Ólaf ásamt almennri umfjöllun Morgunblaðsins um spilafíknina. Þar var komið víða við, rætt við sérfræðinga og kafað í rannsóknarskýrslur. Í leiðara Morgunblaðsins í morgun segir síðan m.a.: “Hér er fjárhættuspil tekjulind ýmissa stofnana sem allajafna njóta mikillar virðingar í samfélaginu. Undir merkjum Íslandsspils reka SÁÁ, Rauði kross Íslands og Landsbjörg spilakassa um allt land og slíkt hið sama gerir Happdrætti Háskóla Íslands ... sú spurning gerist áleitin hvernig hægt er að réttlæta það að byggja rekstur (þessara stofnana og samtaka) á starfsemi sem getur lagt líf fólks í rúst. Í þjóðfélagi allsnægta hljóta að vera til aðrar leiðir til að fjármagna slíka grundvallarstarfsemi.”
Undir þetta skal hjartanlega tekið. Fjárhættuspilakassa á að banna!
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Morgunblaðið fjallar um hörmungar spilafíknarinnar og á blaðið lof skilið fyrir vandaða og ábyrga umfjöllun bæði fyrr og nú um þetta alvarlega þjóðfélagsmein.