Fara í efni

MUELLER, HAARDE OG BJARNASON

Sæll Ögmundur.
Mogginn á það til að bregða sér í skemmtigallann og rífa sig upp úr gráu hversdagslegu farinu, sem einkennir hann enn, þótt tíminn hafi stungið þetta annars ágæta dagblað af. Fyrir okkur lesendur jafnast skemmtidagar Moggans á við að lesa ljóð, eða jafnvel frekar flókna glæpasögu, útlenda. Svona dagur var í dag. Bjartur, tær og spennandi. Síða tvö í Mogganum. Fyrst fréttin um að sími utanríkisráðherra hafi verið hleraður og efasemdir fyrrverandi samgönguráðherra um að það hafi verið svo. Síðan neðri fréttin á sömu síðu svo að segja í sama ramma: Samstarf á nýjum grunni fer vel af stað. Þarna standa þeir Bjarnason, Mueller og Haarde i höfuðstöðvum FBI, bandarísku ríkislögreglunnar sem Hoover gerði svo fræga, og þarna voru þeir samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherra vegna “plaggsins” sem valdhafar íslenskir og bandarískir settu stafina sína á daginn áður. Á forsætisráðherra hér við nýjan varnarsamning þjóðanna – hann kallaði samninginn “plaggið” húmoristinn Haarde, en þessi hugtakanotkun er bónus í málinu með litlu béi. Og Haarde bætti við að Mueller og Bjarnason hefðu með fundi sínum verið að fylgja eftir ákvæðum í “plagginu”. Bandarísku ríkislögreglusveitina höfum við séð í mörgum bíómyndum bæði með Brús Willis, og án hans. Við höfum séð myndir um drengilega lögreglumenn og iðna sem uppræta glæpi og standa vörð um gömlu góðu gildin. En við sáum á árum áður líka myndir af FBI skúrkum – mönnum sem komu óorði á sveitina með því að hlera síma ólöglega, fara inn á heimili til fólks, án heimildar, sem var þá íglidi dauðasyndar og jafnvel meiða það. Venjulega komu þá menn eins og Brús Willis og velgdu skúrknum undir uggum og settu gömlu góðu gildin í samband aftur. Nú er öldin önnur.
Nú heitir varnarsamningurinn “plagg” og Sjálfstæöisflokkurinn virðist hafa tekið upp samstarf við bandaríska stofnun sem fyrst og fremst er ætlað að starfa innan landamæra Bandaríkja Norður-Ameríku, eða má ekki skilja yfirlýsingu Bjarnasonar í frétt Moggans á þann hátt: “Íslensk stjórnvöld hafa átt samskipti við alríkislögregluna í áratugi og sá pólitíski grundvöllur sem nú er kominn verður bara til þess að treysta samstarfið enn frekar.” Bíddu nú hægur. Hvaða pólitíska grundvöll er maðurinn að tala um og í hverju hefur þetta áratuga langa samstarf við FBI verið fólgið og hvernig stendur til að treysta samstarfið enn frekar – er meiningin að treysta það á flokkspólitískum grundvelli? Hver var að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins? Er þetta samhengið sem Björn er að tala um – og Styrmir að ýja að með fréttauppsetningu sinni á síðu tvö. Það læðist að mér sá grunur. Til verður farsinn leyniþjónusta Sjálfstæðisfloksins og sjá, fram á völlinn, Kastljós ríkisins, stekkur seðlabankastjóri eftir að hafa beint og óbeint sett sig í samband við Pál, og starfsmenn hans leggja tvö kvöld undir til að reyna aö telja okkur trú um að þetta séu nú allt kjaftasögur um hleranirnar og Jón Baldvin. Ætli jafnaðarmenn fari nú ekki að sjá hve dýru verði útvarpsstjórastóllinn var keyptur og hvernig ritstýring ríkisútvarpsins verður þegar ríkisstjórnin fær þar formlegt æðsta vald. Og seðlabankastjórinn dugði ekki til. Teflt var fram síbrosandi starfsmanni Sjónvarpsins, drengnum sem fékk undir sig laugardagskvöld í ríkissjónvarpinu í hálft annað ár fyrir prófkjör til að kynna sig sem leiðtoga sjálfstæðismanna, en tapaði. Hann ku enn vera að stússa eitthvað fyrir stofnunina sem verktaki. Viðbrögðin við því sem sjálfstæðismenn segja nú á torgum og kaffihúsum, og í fjölmiðlum ríkisstjórnarinnar, að séu kjaftasögur
eru svo ofsakennd að ég hallast helst að því að sími utanríkisráðherra hafi verið hleraður og að það sé eitthvað til sem kalla mætti leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Að þetta sé ekki bara reykur heldur brenni líka eldar undir. Slökkviliðsmennirnir færu annars ekki af stað í stórútkall með vælandi sírenur og stöðvarstjórann í broddi fylkingar. En aftur að fundi Muellers, Haarde og Bjarnasonar og samstarfsins á grundvelli “plaggsins” sem
Haarde kallar varnarsamninginn hinn nýja. Fyrir fjórum mánuðum var áherslum bandarísku ríkislögreglunnar breytt og barátta gegn hryðjuverkum var sett sem forgangsmál. Gagnnjósnir voru settar í annað sæti. Valdheimildir FBI, ríkislögreglunnar bandarísku, voru auknar og þeim breytt í grundvallaratriðum með því sem kallað er vestra USA PATRIOT Act. Samkvæmt þessum heimildum hefur bandaríska ríkislögreglan nú rétt til að hlera síma, bæði fastlínusamtöl og farsíma, fylgjast með tölvupóstsendingum, netumferð og notkun. Umdeildastar eru heimildir bandarísku ríkislögreglunnar sem kalla má læðupoka- og gægjuheimildir sveitarinnar. Í þeim felst nefnilega að hún getur farið inn á heimili manna, ef henni dettur það í hug svo að segja – án þess einu sinni að láta íbúana vita af því. Friðhelgi einkalífsins er sem sé jafn afstæð og mannréttindin í Kína. Það sem var glæpur í Watergate byggingunni gæti nú verið daglegt brauð og Woodward og Bernstein horfins tíma sitja í þeim skilningi sem verklausir blaðamenn vestra og Brús Willis búinn að vera. Í ljósi yfirlýsinga utanríkisráðherra, ofsafenginna andsvara manna sem ættu að vera pollrólegir, og skilaboðanna sem Mogginn var að senda okkur á síðu tvö er kannski að koma í ljós, að vettvangur Woodwards og Bernsteins er alls ekki lengur vestra. Hann er hér – og nú. En eins og mál hafa þróast er greinilegt að þeir félagarnir eru ekki á ríkisstjórnarfjölmiðlunum, starfa ekki undir ritstjórn fyrrverandi dómsmálaráðherra á Fréttablaðinu, en spurningin er hvort Mogginn á nú ekki breik og sleppir ekki lausum “Woodward og Bernstein” sínum.  Það er nefnilega til maður sem gæti tekið að sér hlutverk W. Marks Felts í þessu spili öllu. Þeir sem ná upplýsingum úr þeim djúpa látúnsbarka gætu orðið það sem félagarnir fyrrnefndu urðu fyrir 35 árum og Mogginn færi fram úr tímanum sem stakk hann af. Gæti það gerst?
Kveðja
Ólína