Fara í efni

RÁÐLEGGINGAR PETYU

24 stundir
24 stundir

Birtist í 24 stundum 08.07.08
Ekki hef ég nokkurn skapaðan hlut á móti henni  Petyu Koeva. Það væri ekkert annað en ánægjuefni að fá hana til Íslands  ef ekki væri fyrir árásir hennar á láglaunafólk, aldraða og öryrkja.
Þannig er að Petya er formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hélt hér fréttamannafund fyrir nokkrum dögum til að segja Íslendingum fyrir verkum við efnahagsstjórnina.
Þar tók sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins undir gamalkunna  kröfu fjármálafyrirtækja og fjárfesta að aðgreina þurfi almennar lánveitingar Íbúðalánasjóðs  frá félagslegum úrræðum; að ekki megi hækka laun ríkis- og bæjarstarfsmanna og alls ekki bætur almannatrygginga.  Stjórnvöld yrðu í þessu efni að „standast þrýsting"  einsog það mun hafa verið orðað á fréttamannafundinum.

Alþjóðagjaldeyrissjóður gegn almenningi
Þetta þýðir á mannamáli að stjórnvöldum beri að sjá til þess að bankarnir fái að mjólka almenna markaðinn á meðan skattborgarinn verði látinn um „félagslegu úrræðin";  nokkuð sem er hagstætt fyrir fjármálafyrirtækin, óhagstætt fyrir almenning því þetta er ávísun á hærri vexti á húsnæðislánum og hærri skatta.
Petya Koeva kvað sendinefnd sína óánægða með nýlega ákvörðun um að rýmka veðheimildir Íbúðalánasjóðs og hækka þakið fyrir lánveitingar úr sjóðnum. Með öðrum orðum, okkur beri að takmarka aðgang húsnæðiskaupenda að lánum Íbúðalánasjóðs sem hafa heldur lægri vexti en bankarnir.

Á hverju þurfum við helst að halda?
Yfirlýsingar sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru fyrirsjáanlegar því þetta er rulla sem sendinefndir á hans vegum hafa ætíð yfir á yfirreiðum sínum. Í þessum yfirlýsingum örlar aldrei á neinum áhyggjum yfir því sem snertir félagslegt réttlæti. Gæti það til dæmis verið að Íslendingar þurfi nú helst á því að halda að jafna kjörin í landinu, auðvelda fólki að eignast íbúðarhúsnæði, bæta launakjör þeirra sem búa við lökust kjör, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hjá ríki og sveitarfélögum að ógleymdum þeim sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að félagslegt réttlæti sé ekki aðeins eftirsóknarvert í sjálfu sér heldur sé það beinlínis forsenda öflugs atvinnulífs og stöðugleika þegar til lengri tíma er litið.

Á okkar ábyrgð
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn starfar á ábyrgð þeirra ríkja sem að honum standa. Þar á meðal okkar Íslendinga. Honum er markvisst og grímulaust beitt í þágu fjármagnsafla. Sendinefndir á vegum Alþjóðagjaldeyrisjóðsins fara um heiminn og efna til fundahalda af þessu tagi til að tala máli fjármagnsins. Verst er þegar gengið er enn lengra en gert er gagnvart okkur og fátækum ríkjum settur stóllinn fyrir dyrnar um aðgang að alþjóðlegu lánsfjármagni nema þær undirgangist að einkavæða almannaeignir þar á meðal auðlindir sínar svo fjölþjóðafjármagnið geti komist yfir þær.

Dettifossar í þriðja heiminum
Bæði Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sætt mikilli gangrýni fyrir yfirgang sinn. Allt hefur komið fyrir ekki. Endrum og eins er reynt að hressa upp á ýmindina. Til dæmis var hætt að tala um kröfur um gagngerar samfélagsbreytingar (structural adjustements) sem skilyrði fyrir lánveitingum og þess í stað sömu kröfur kynntar sem aðgerðir til að útrýma fátækt (poverty reduction programs). Kröfurnar voru hinar sömu: Að afhenda Ríó Tintó Dettifossa fátækra landa.

Viljum betra samfélag
Íslenskum stjórnvöldum ber að beita sér af alefli fyrir því að Aljóðagjaldeyrissjóðnum verði beitt á annan hátt en gert er. Ég legg ég til að næst þegar Petya Koeva og félagar hennar koma hingað til lands afþökkum við áróðurskenndar alhæfingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á hinn bóginn skulum við  með ánægju taka þátt í málefnalegri umræðu um hvernig hægt er að stuðla að skynsamlegum efnahagsráðstöfunum til að stuðla að réttlátara samfélagi.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður