Fara í efni

REYKJAVÍK SEM EKKI VARÐ

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.01.24.
Þessi fyrirsögn er heiti á bók eftir þau Önnu Dröfn Ágústsdóttur og Guðna Valberg sem ég hef verið að fletta og glugga í yfir hátíðarnar. Flettibækur eru sérstök gerð bóka. Þær þarf ekki nauðsynlega að lesa í einum rykk heldur smám saman. Þessar bækur eiga eiginlega ekki heima sem lóðréttur kjölur í bókahillu heldur fer best á því að þær liggi láráttar í allra augsýn og öllum aðgengilegar; þær einfaldlega bíði eftir að þeim sé flett. Skemmtilegum flettibókum er flett aftur og aftur eða þar til ný bók er komin ofan á þá eldri. Þá fækkar flettingum nema nýir flettarar komi til sögunnar, og ef ekki þá verða örlögin lóðréttur kjölur í hillu sem í sjálfu sér er virðingarvert hlutskipti bókar á tímum þegar bókin á undir högg að sækja, jafnvel talin vera einnota. Því er ég hins vegar ekki sammála og það á alls ekki við um Reykjavík sem ekki varð.

Og þá að efni þessarar skemmtilegu og umhugsunarverðu bókar. Hún segir í máli og myndum frá nánast ævintýralegum vendingum í þróunarsögu Reykjavíkur - hvers vegna Alþingishúsinu hafði verið ætlaður staður I Bankastræti, Háskóla Íslands á Skólavörðuholti, Þjóðleikhúsinu á Arnarhóli – og hvers vegna horfið var frá þessum áformum.

Merkilegt þykir mér hve stórhuga margir arkitektar voru á öldinni sem leið, í sumum tilvikum svo stórhuga að við megum prísa okkur sæl að tillögur þeirra náðu ekki fram að ganga. En ekki má heldur gleyma því að eftir þá liggja frábærar byggingar og nefni ég þar til dæmis Þjóðelikhúsið, Melaskólann, Heilsuverndarstöðina, Háskóla Íslands, Sjómannaskólann, Sundhöll Reykjavíkur, Þjóðminjasafnið, Safnahúsið við Hverfisgötu og margar fleiri.

Stórhuga áformin - þau þeirra sem við prísum okkur sæl fyrir að hafa sloppið við - komust sum hver reyndar ekki lengra en að verða annar eða þriðji valkostur. Þannig hafnaði í þriðja sæti, í samkeppni árið 1951, tillaga að nýskipan við Tjarnargötuna í Reykjavík. Samkvæmt henni stóð til að rífa öll reisulegu aldamótahúsin við vestanverða tjörnina og reisa í þeirra stað átta hæða íbúðarhús. Þessar blokkir, sem voru turnlaga, áttu vel að merkja ekki að standa mjög þétt svo að sæist upp brekkuna að gamla kirkjugarðinum. Þar átti að lofta um.

Þetta sjónarmið um gott andrými átti fylgi að fagna um miðja tuttugustu öldina. Til marks um það er tilvitnun í bókinni í skrif Einars Sveinssonar, húsameistara Reykjavíkurborgar 1934 til 1973, þar sem hann sagði að mikilvægt væri að skipuleggja miðbæ höfuðborgarinnar þannig að hann yrði “bjartur og sólríkur.” Sólar og birtu væri þörf í staðinn fyrir “þrengsli, skugga og dapurleika.”

Þetta var þá. En nú er öldin önnur. Byggingarmagn þykir eftirsóknarvert umfram allt annað, áhyggjur út af þrengslum, skugga og dapurleika eru foknar út í veður of vind.

Þessa dagana berast fréttir af því að knattspyrnufélagið Valur muni hagnast um gríðarháar upphæðir fáist frekari leyfi til bygginga á eignarlandi félagsins; leyfi sem eru fúslega veitt af hálfu Reykjavíkurborgar sem fær fasteignagjöldin, og því þéttar sem byggt er þeim mun meira hagnast Valur og þeim mun meira berst til borgarinnar af fasteignagjöldum.

Þannig verður ný hamraborg til, þó ekki sú sem Davíð Stefánsson kvað óð sinn til, heldur sú sem heillar peningamenn fremur en ljóðskáld.

Umhugsunarvert er við lestur þessarar bókar hverjir það voru sem tjáðu sig um skipulagsmálin fyrr á tíð. Það voru arkitektar og húsameistarar og svo stjórnmálamenn með miklar skoðanir sem hófu umræðuna sem síðan gat orðið bísna almenn. Það síðastnefnda er lykilatriði.

Smám saman komu skipulagsfræðingar og landslagsarkitektar inn í þess umræðu. Nú þykir mér minna fara fyrir því að faglegum og ígrunduðum sjónarmiðum úr þeirri átt sé gert nægilega hátt undir höfði.Það þarf að hlusta á fólk sem hefur lært að hugsa í þrívídd og sér lengra nefi sínu.

Gæti verið að við ættum á nýjan leik að gefa því betur gaum hvað kunnáttufólk hefur fram að færa? Að sjónarmið þess verði látin vega meira en hve mikið borgarsjóður fær í vasann þá stundina? Því þegar allt kemur til alls þá eru hagnaðarsjónarmið til skamms tíma gefandi en svo oft eyðileggjandi þegar til lengri tíma er litið.

Það er ekki gott að láta hlutina gerast nær umræðulaust eða með umræðu í röngum farvegi. Þannig er augljóst að eitthvað mikið vantaði í umærðuna um nýjan Landspitala. Hann er hins vegar að rísa, sem varla fer framhjá nokkrum manni af augljósum ástæðum, og hefur það sína kosti að þar skuli nú bætt úr bráðri þörf.

En hvernig væri til tilbreytingr að hugsa langt fram í tímann? Klára það sem klára verður en endurskoða ráðstöfun nýrra svæða hvort sem er við Vífilstaði eða jafnvel enn fremur í Keldnalandinu þar sem mætast samgönguæðar Vesturlands og Suðurlands við fjölmennestu byggðir höfuðborgarsvæðisins. Þar þyrfti að leggja til hliðar áform um fyrirhugaða bíllausa byggð fyrir íslenska útgáfu af Amisfólki, og byggja þess í stað framtíðarsjúkrahús upp í loftið eins og Guðjón heitinn Magnússon, aðstoðarlandæknir lagði til. Hraðskreiðar lyftur styttu sporin og auðvelduðu verkin sagði hann.

Þetta ætti að sjálfsögðu ekki að gera að bragði en hefja hins vegar þegar í stað undirbúning að þeirri Reykjavík sem við gjarnan viljum að verði.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.