Fara í efni

SA TIL HNEISU

Birtist í Morgunblaðinu 13.11.05.
INGIMUNDUR Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, hélt makalausa ræðu á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann beindi spjótum sínum að sveitarfélögunum og starfsmönnum þeirra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kveður við slíkan tón úr þessum herbúðum. Formaður SA gekk þó skrefinu lengra en áður. Ekki var nóg með að Ingimundi þætti rétt að sveitarfélögin yrðu nískari á kjara- og réttindabætur í samningum við starfsmenn sína en þau hafa verið, heldur var svo á honum að skilja að skerða beri þessi kjör og réttindi.

Vill samræma niður á við

 

Formaður SA sagði mikilvægt að afnema tvískiptingu á íslenskum vinnumarkaði: "Opinberir starfsmenn hafa ýmis réttindi umfram fólk á almennum vinnumarkaði, til dæmis á sviðum lífeyris-, orlofs- og veikindaréttar, auk uppsagnarverndar. Þetta gildir jafnt um starfsmenn sveitarfélaga sem ríkisstarfsmenn. Lengi vel voru sérréttindi opinberra starfsmanna skýrð með því, að laun væru almennt hærri á almennum vinnumarkaði. Þau rök eiga ekki lengur við..." Hér er formaður SA að knýja á um samræmingu niður á við. Aldrei hefur staðið á BSRB að styðja samræmingu á kjörum á vinnumarkaði. Við munum hins vegar aldrei samþykkja kröfur atvinnurekenda um að þetta verði gert samkvæmt kröfu SA með því að hafa kjör af fólki! Þessi málflutningur er ekki sæmandi.

Ingimundur tjái sig um kjörin

 

Ingimundur Sigurpálsson nefnir sérstaklega kennara og leikskólakennara sem dæmi um ofhaldnar stéttir. Það væri fróðlegt að hann gæfi kjörum annarra starfshópa einnig umsögn sína, til dæmis gæti hann staðnæmst við kjör starfsfólks í heimaaðhlynningu, á dvalarheimilum aldraðra, strætisvagnastjóra, slökkviliðsmanna svo einhverjar stéttir séu nefndar. Ég fullyrði að þessar stéttir eru allar of illa launaðar og fráleitt annað en að kjör þeirra verði bætt. Tal um niðurskurð er móðgun við þetta fólk og Samtökum atvinnulífsins til skammar að hafa í frammi slíkan málflutning.
Skjólstæðingar formanns SA, atvinnurekendur þessa lands, eru almennt séð ekki vanhaldnasti hluti þjóðfélagsins. Ingimundur Sigurpálsson hefur litlar áhyggjur yfir því að sá hópur, forstjórar og þeirra hirð, fái fullmikið í sinn hlut.
Ræða formanns SA er makalaus fyrir margra hluta sakir. Hann ræðst á sveitarfélögin fyrir að "axla ekki hagstjórnarábyrgð með viðeigandi hætti" og varar við því að "auka vægi þeirra í þjóðarbúskapnum". Ekki orð um hlut ríkisins og hvort stefna þess varðandi fjárstreymi til sveitarfélaga samhliða ákvörðunum um að hlaða á þau verkefni hafi verið ábyrg.
Síðan er lofsöngur um einkavæðingu og einkaframkvæmd "sem leið til bætts árangurs". Já, væri ekki tilvalið, Ingimundur, að ræða þetta á málefnalegan hátt með upplýsingum og rökum, hvort reyndin hafi orðið sú að einkaframkvæmd hafi verið árangursrík? Við gætum til dæmis byrjað að ræða nýútkomna rannsóknarskýrslu í Bretlandi um þetta efni.

Undarlegt skipulag á ráðstefnu

 

En hvernig í ósköpunum stendur á því að Samband íslenskra sveitarfélaga skipuleggur ráðstefnu með þessum hætti. Það er eðlilegt að fulltrúi ríkisstjórnarinnar ávarpi ráðstefnuna eins og forsætisráðherra var boðið að gera. En hvers vegna formaður SA, fulltrúi atvinnurekenda á almennum markaði, en ekki fulltrúi eða fulltrúar launafólks komi honum þá til mótvægis, er illskiljanlegt. Auðvitað hefði verið eðlilegt í ljósi þeirrar umræðu sem þarna fór fram að fulltrúa viðsemjenda Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefði verið boðið að ávarpa ráðstefnuna.