Fara í efni

SÁTT ER BETRI EN ÞVINGUN

MBL  - Logo
MBL - Logo
Sum lög eldast hraðar en önnur. Árið 2003 setti Alþingi ný barnalög en aðeins fimm árum síðar hófst endurskoðun laganna sem nú sér fyrir endann á. Tímarnir hafa kallað á breytingar. Réttindi barna hafa verið sett í forgrunn, a.m.k. í umræðu, en ekki endilega alltaf í framkvæmd.

Ein stærsta áskorun sem löggjafi, framkvæmdavald og dómsvald standa frammi fyrir í þessum efnum er staða barna við skilnað eða sambúðarslit foreldra, þegar foreldrar deila. Blessunarlega er það undantekning fremur en regla. Langflestir foreldrar ná samkomulagi um forsjá, umgengni og lögheimilisskráningu, stundum með aðstoð sérfræðiráðgjafar á vegum sýslumanna eða annarra, stundum án slíkrar ráðgjafar.

Með því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi og bíður þriðju umræðu og afgreiðslu er gert ráð fyrir að stórauka sáttameðferð á vegum hins opinbera fyrir foreldra sem deila um forsjá og umgengni og gera hana að beinni skyldu áður en ráðist er í málaferli eða úrskurða krafist. Með þessum hætti geta fagaðilar aðstoðað foreldra við að ná sátt, enda er sátt foreldra barni ávallt fyrir bestu.

Með breytingum sem frumvarpið kveður á um er einnig lögð ríkari skylda á herðar hins opinbera að líta til þess við ákvarðanir hvort barn eða einhver á heimili barns hafi orðið eða kunni að verða fyrir ofbeldi. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Í framkvæmd hefur börnum stundum verið komið fyrir hjá ofbeldisfullu foreldri án nokkurs eftirlits, á þeirri forsendu að foreldrið hafi ekki að því er vitað er beitt barnið ofbeldi, þótt vitað sé um ofbeldi gagnvart öðru fjölskyldufólki! Þessi breyting leiðir vonandi til farsælli og skjótvirkari ákvarðana í erfiðum forsjárdeilum sem má rekja til heimilisofbeldis.

Lögregla geti náð í börn

Alþingi hefur að frumkvæði velferðarnefndar gert veigamiklar breytingar á frumvarpinu frá því sem var þegar ég lagði það fram. Þannig hefur Alþingi ákveðið að heimila eigi dómurum að dæma sameiginlega forsjá og að ekki sé ástæða til að fella heimild til aðfarar úr barnalögum, þ.e. að hægt sé að senda lögreglu inn á heimili barns til að koma á ákvarðaðri umgengni við foreldri sem ekki hefur notið hennar. Sjálfum hefur mér alla tíð fundist óréttlætanleg með öllu að taka barn út af heimili með lögregluvaldi af þessu tilefni. En meginástæða þess að ég gerði að tillögu minni að taka þessa heimild úr lögum var sú að mannréttindasamtök og samtök um réttindi barna höfðu gert alvarlega athugasemd við þessa heimild og framkvæmd hennar. Íslensk stjórnvöld þurftu að svara fyrir þetta á vettvangi barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna í fyrirtöku á barnasáttmálanum og áréttað var að gæta ætti í hvívetna að hagsmunum barna. Þá vaknar sú spurning: Getur það einhvern tímann verið barni fyrir bestu að það sé tekið út af heimili sínu með lögregluvaldi?

Svar Alþingis er já. Svar mitt er nei. Ég tel að þvingunarráðstöfunum sé hægt að beina gegn foreldrum en aldrei gegn barni. Í barnaverndarlögum eru þó eftir sem áður heimildir til aðgerða til verndar börnum, verði þau fyrir ofbeldi eða vanrækslu á heimilum sínum. Slíkar aðgerðir tel ég réttlætanlegar.

Varnaðarorð um dómaraheimild

Ástæða þess að ég lagði ekki til að farin yrði sú leið að heimila dómurum að dæma sameiginlega forsjá er sú að ég taldi rétt að láta reyna á hina stórauknu sáttameðferð sem boðuð er í frumvarpinu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sátt er betri en þvingun.

Staðreyndin er sú að afar fá forsjárdeilumál enda fyrir dómi. Í flestum þeirra næst sátt á einhverju stigi. Sameiginleg forsjá á að sjálfsögðu að vera meginreglan. Barn á að geta notið beggja foreldra sinna og bæði foreldri eiga að geta notið barna sinna. En sameiginleg forsjá krefst ríkrar samvinnu, sem má spyrja hvort geti yfirleitt átt sér stað ef deilur foreldra eru svo hatrammar að á endanum þurfi dómari að taka ákvörðun um forsjá barns. Hættan er sú að dómstólar hér á landi falli í sömu gryfju og dæmi sýna annars staðar frá og dæmi sameiginlega forsjá í málum þar sem góð samvinna er ólíkleg. Við þessu hef ég varað og vona sannarlega að þau varnaðarorð nái eyrum sem flestra nú þegar Alþingi er í þann mun að heimila dómurum að dæma sameiginlega forsjá.

Hann er góður pabbi

Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Danmörku í kjölfar setningar laga, sem heimila dómara að dæma sameiginlega forsjá, hafa um 28% foreldra, sem hafa verið dæmd til að fara saman með forsjá barns síns, alls ekkert samband sín á milli og 43% þeirra ræða ekki saman um málefni sem tengjast daglegum foreldraskyldum - sem hlýtur að vekja spurningar um líðan barns í slíkri stöðu.

Sú sáttmeðferð sem teflt hefur verið fram sem valkosti við dómstólaleiðina er hins vegar að mínum dómi, raunverulegt úrræði til bóta. Það á að forðast það sem heitan eldinn að barn verði sett í þá stöðu að lögmenn hvors foreldris um sig keppist við að finna veika bletti á hinu. Sáttameðferðin byggir á því gagnstæða, að finna jákvæðan grunn til að byggja á.

Einhvern tímann var mér sagt frá foreldrum í öðru landi sem deildu um forsjá yfir barni sínu og höfðu fundið hvort öðru allt til foráttu frammi fyrir dómara. Síðan voru þau spurð hvort í sínu lagi hvort þau gætu sagt eitthvað jákvætt um hitt. Faðirinn sagði eftir nokkra umhugsun að hann gæti sagt það jákvætt um barnsmóður sína að hún væri góð móðir. Og þegar móðirin var spurð svaraði hún: „Jú, hann er góður pabbi."