Fara í efni

SMITANDI KRAFTUR

Klúbburinn Geysir
Klúbburinn Geysir

Við þóttum ólíklegt tvíeyki og sumir ráku upp stór augu þegar við Styrmir Gunnarsson birtumst á biðstofum borgarstjóra og bæjarstjóra á suðvesturhorninu, rétt undir aldamótin. Undirritaður og ritstjóri Morgunblaðsins voru á þessum tíma ekki beinlínis þekktir fyrir að stunda sameiginlegan erindrekstur gagnvart pólitíkinni. En erindið að þessu sinni sameinaði okkur.
Sem einn maður vorum við mættir til að tala máli Klúbbsins Geysis við bæjaryfirvöldin en áður hafði málefnið verið kynnt landsyfirvöldunum.
Við komum færandi þann boðskap að til stæði að efna til átaks til að virkja fólk til sjálfshjálpar eftir veikindi og gera á ný að virkum  þjóðfélagþegnum með atvinnuþátttöku, eða námi, samhliða endurhæfingu.
Allur stuðningur væri vel þeginn en það mættu stjórnvöldin vita að átakið myndi ekki aðeins koma sér vel fyrir þá einstaklinga sem starfseminni væri ætlað að þjóna, heldur samfélaginu öllu hvort sem væri í félagslegu eða fjárhagslegu tilliti.  

Styrmir Gunnarsson hafði þá um áratugaskeið verið ötull talsmaður fólks sem átti við geðraskanir að stríða og þótti því kjörinn liðsmaður við að ryðja brautina. Ég vildi gjarnan fá að vera með en á þessum tíma gegndi ég formennsku í BSRB. Á vettvangi þeirra samtaka lagði ég alla tíð áherslu á að kjarabaráttan ætti fyrst og fremst að ganga út að styrkja innviði samfélagsins þannig að þeir sem þyrftu á stuðningi að halda fengju hann.

Stofnár Klúbbsins Geysis var 1999. Fyrirmyndin var Fountain House, sem eru alþjóðasamtök með starfsemi í 30 þjóðlöndum, með hátt í 60.000 félögum.

Það voru nokkrir eldhugar - þar á meðal fólk sem hafði átt við geðsjúkdóm að stríða og aðstandendur þeirra - sem fluttu hugmyndir Fountain House hingað til lands og löguðu að íslenskum veruleika. Í fararbroddi voru iðjuþjálfarnir Anna Guðrún Arnardóttir og Anna Valdimarsdóttir. Drifkraftur þeirra var með ólíkindum og skemmtilega smitandi. Í stjórn Geysis valdist frá fyrstu tíð áhugafólk um markmið klúbbsins og til starfa fyrir hann hefur jafnan fengist jákvætt fólk sem býr yfir ríkri hugsjón.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Nú eru félagar 432 og fer fjölgandi. Virknin er mikil og vaxandi. Klúbburinn býður upp á atvinnuúrræði og aðstoð við að komast í nám við hæfi en jafnframt er haldið úti öflugu félagsstarfi.

Til marks um árangurinn má nefna að á árinu 2012 voru 44% félaga í vinnu og/eða í námi!

Það hefur sýnt sig að þau úrræði sem Klúbburinn Geysir býður upp á eru hagkvæm og leiða til umtalsverðs sparnaðar. En mikilvægast er þó að í Klúbbnum Geysi fá félagar hvatningu, og stuðning til að ná sér á strik eftir veikindi og endurheimta þá reisn og hamingju sem fylgir því að verða sjálfbjarga og geta séð fyrir sér af eigin rammleik að miklu eða öllu leyti.