Fara í efni

ÞAÐ ER VERIÐ AÐ BREYTA ÍSLANDI

ÞINGVÖLLUR
ÞINGVÖLLUR


Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra, sagði i sjónvarpi fyrir fáeinum dögum að þeir eigi "að borga sem njóta" og var þar með að réttlæta gjaldtöku við ferðamannastaði og i kvöld sáum við í sónvarpsfréttum hvernig þau sem ekki voru tilbúin að borga við Geysi "nutu" i samræmi við það - utan girðingar.
Það var i senn sorglegt og niðurlægjandi að horfa á talsmann gjaldtökumanna réttlæta lögbrotin nánast hlæjandi. Það var sorglegt vegna þess að hann fer fyrir fólki sem er að breyta Íslandi til hins verra. Landið verður ekki samt aftur eftir að náttúran hefur verið gerð að söluvöru, fólk rukkað fyrir að njóta sameiginlegrar náttúru okkar. Og það var niðurlægjandi að horfa a lögbrjóta óáreitta hafa af fólki fé. Lögreglan virtist hvergi nærri enda svo að skilja að sýslumaður sé í liði með gjaldtökumönnum, ófáanlegur að verða við ósk um lögbann! Og lögreglan ekki sýnileg til að koma í veg fyrir þjófnað fyrir opnum tjöldum!
En aftur að ráðherranum. Hún sagði í sama sjónvarpsviðtali og vísað var til,  að 80 prósent þjóðarinnar vildu gjaldtöku i þágu náttúruverndar. Það er eflaust svo. Sjálfur er ég í þessum hópi. En ég vil ekki láta rukka mig á þennan hátt, hvorki með aðgangseyri að fossum og hverum eða náttúrupassa sem mér skilst að einhverjir vilji skylda okkur til að hafa á okkur jafnan þegar við förum á Þingvöll eða annað til að njóta íslenskrar náttúrufegurðar!
Ég er hins vegar tilbúinn að borga almennan skatt - og þá helst í tengslum við ferðir til og frá landinu - þar með tækju erlendir ferðamenn þátt í því að styrkja náttúruvernd.
Það breytir landinu að selja að því aðgang á þann hátt sem nú er byrjað að gera. Ef stjórnvöld eru ekki reiðubúin að standa vörð um almannahag, þá er fokið í flest skjól.
Mótmælt hefur verið verið af minna tilefni.