Það verður að hækka atvinnuleysisbætur

Birtist í DV 12.11.2202
Ástæða er til að vekja athygli á kjörum atvinnulausra. Færa má rök fyrir því að enginn hópur búi við eins slæm kjör og einmitt þeir. Atvinnulaus maður fær 73.765 krónur á mánuði.

Ekki er nóg með að atvinnuleysisbætur séu lágar heldur er svo komið að hinn atvinnulausi borgar nú einnig skatt af bótunum. Skattleysismörkin eru nú 70.279 krónur og greiðir hinn atvinnulausi  rúmlega þriðjunginn af öllum tekjum þar fyrir ofan eða 1.290 krónur. Þá eru eftir 72.475 krónur. Síðan er greitt í lífeyrissjóð og fyrir stéttarfélagsaðild, ef því er að skipta, og þegar upp er staðið fær hinn atvinnulausi útborgaðar rúmar 68 þúsund krónur. Af þeirri upphæð þarf að greiða húsnæðiskostnað, mat, klæði og annað sem þarf til lífsviðurværis. Hafi fólk verið með áhvílandi lán á herðunum við atvinnumissinn er ekki að sökum að spyrja. Nær öruggt má heita að fólki séu allar bjargir bannaðar enda missir atvinnulaust fólk meira en vinnuna; það missir eignir og iðulega heilsuna einnig vegna þess sálarlega álags sem á því hvílir.

Enda þótt lægstu laun á Íslandi séu alltof lág þá eru þau engu að síður talsvert hærri en atvinnuleysisbætur og þeir sem hafa meðaltekjur eða háar tekjur og missa vinnuna hrynja bókstaflega í tekjum við atvinnumissinn.

1700 fleiri atvinnulausir en í fyrra

Atvinnuleysi er nú 2,2% og hefur aukist frá síðasta ári en á sama tíma í fyrra nam atvinnuleysið 1,0% og árið þar áður var þessi hlutfallstala 0,9%. Þessar tölur sýnast meinleysislega lágar en að baki þeim er að finna margt fólk. 2,2% atvinnuleysi þýðir að 3178 einstaklingar eru án atvinnu og í fyrra þegar atvinnuleysið mældist 1,0% voru einstaklingarnir 1445 talsins. Með öðrum orðum - atvinnulausum hafði fjölgað um 1733 frá sama tíma í fyrra. Ástæða er til þess að hafa af þessu þungar áhyggjur.

Mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu en einnig berast fréttir af stórum vinnustöðum á landsbyggðinni sem hafa sagt fjölda manns upp störfum. Í því sambandi má nefna SR-Mjöl á Reyðarfirði. Þá er ljóst að einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar hefur leikið mörg byggðarlög grátt því hún hefur leitt til lokana og uppsagna starfsfólks. Enda þótt þetta síðastnefnda sé á valdi ríkisstjórnarinnar - atvinnuleysi af hennar völdum og á hennar ábyrgð - þá verður engan veginn sagt um allt atvinnuleysi að það verði rakið til gjörða ríkisstjórnarinnar einnar.

Tillögur um úrbætur

Hins vegar er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að atvinnulausu fólki skuli haldið á eins lágum kjörum og raun ber vitni. Mikilvægt er að við fjárlagagerðina í haust verði kjör atvinnulausra bætt verulega. Slíkt er á valdi ríkisstjórnarinnar og þess stjórnarmeirihluta sem hún styðst við á Alþingi. Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur til hækkun á atvinnuleysisbótum og væri það gæfuspor ef sú tillaga fengi brautargengi á Alþingi.                

Fréttabréf