BSRB með upplýsingar og afstöðu í deilunni um heimahjúkrun

Þjóðin fylgist nú agndofa með tilraunum Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að keyra í gegn breytingar á starfsfyrirkomulagi sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, sem felur í sér stórfellda kjaraskerðingu þvert á samkomulag sem hefur verið í gildi allar götur frá 1990, undirritað af hálfu BSRB fyrir hönd starfsmanna. Þessu samkomulagi hefur aldrei verið sagt upp og er ljóst að þessi deila leysist ekki fyrr en samkomulagið hefur verið endurnýjað með einum eða öðrum hætti. Forsvarsmenn Heilsugæslunnar lýstu undrun yfir því að einkafyrirtæki sem virtist ætla að freista þess að kaupa sig inn á starfsvettvang Heilsugæslunnar, með mjög vafasömum hætti, skyldi mæta andspyrnu af hálfu stéttarfélaganna. Við hverju bjuggust menn? Héldu menn að BSRB, Sjúkraliðafélag Íslands og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga myndu láta blása sig út af borði sem fjöður? Hélt einhver að þessir aðilar tækju sig ekki alvarlega sem gæsluaðilar kjara þess fólks sem óumdeilanlega gegnir einhverjum mikilvægustu störfum í þjóðfélaginu? Á vefsíðu BSRB er nú fjallað daglega um deiluna og koma þar fram ítarlegar gagnlegar upplýsingar um alla málavöxtu og eru þær runnar frá Sjúkraliðafélagi Íslands.
Sjá nánar: http://bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=609&menuid=

Fréttabréf