VANGAVELTUR UM VERÐLAG OG SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ


Gengissveiflur síðustu daga hafa veitt nokkra innsýn í verslun og viðskipti. Ekki að það þurfi að koma á óvart að gengi krónunnar hafi áhrif á vöruverð heldur er hitt umhugsunarvert með hvaða hætti það gerist. Ekki voru liðnir tveir dagar frá falli krónunnar en blöðin birtu flennifyrirsagnir um að holskefla hækkana væri skollin á þjóðinni. Okkur var sagt að þetta ætti ekki bara við um matvæli heldur líka bíla, tölvuleiki, nánast allan innfluttan varning. Hann ryki nú upp úr öllum valdi í verði.
Því minna vægi sem krónan hefur þeim mun fleiri krónur þarf til kaupanna. Fullkomlega rökrétt. En hvers vegna skyldi hið gagnstæða ekki gerast þegar þyngist í krónunni, þegar hún sækir í sig veðrið og styrkist gagnvart öðrum gjaldmiðlum? Skýringarnar hafa ekki látið á sér standa. Lagerar. Mikil birgðasöfnun. Við búum yfir miklum birgðum sem keyptar voru þegar gengið var óhagstæðara, hafa innflytjendur þá sagt þjóðinni. Þannig hefur eldsneyti til dæmis sjaldan fylgt verðsveiflum heimsmarkaðsverðs niður á við eða gengissveiflum okkar gjaldmiðils upp á við. Bensínverðið á Íslandi hefur alltaf haldist hátt við slíkar aðstæður, að sögn vegna mikilla birgða. Það verður að segjast einsog er, að rökin hætta að vera sannfærandi þegar þau eru alltaf neytandanum í óhag. Er til of mikils mælst að þeir sem annast innkaupin erlendis frá og stunda verslun og viðskipti sýni að nú sé tími til að draga ögn úr græðginni?  Slíkt myndi ég kalla samfélagslega ábyrgð. Á henni þurfum við nú að halda.

Fréttabréf