ÁVARP Á ÁRSFUNDI ASÍ


Ræða flutt á Ársfundi Allþýðusambands Íslands 23.10.08.
Forseti ASÍ,  góðir þingfulltrúar, ráðherra og aðrir gestir.
Ég færi ykkur kveðjur samtaka launafólks innan almannaþjónustunnar: BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands, en í framhaldi vil ég segja þetta:
Við stöndum öll á tímamótum, ögurstundu í sögu lands vors og þjóðar. Á undanförnum hálfum öðrum áratug hefur óheft markaðshyggja  leikið lausum hala um nær gervalla heimsbyggðina.
Á sínum tíma talaði Margrét Thatcher  um að nýta græðgi mannskepnunnar sem hreyfiafl  en í íslenskri  útgáfu Davíðs Oddssonar hét það að virkja eignagleðina.  Á Íslandi hefur eignagleðin verið virkjuð undanfarin ár af meira kappi en víðast hvar í heiminum. Þjóð sem lungann úr tuttugustu öldinni hafði sett traust sitt á samstarf og samvinnu og unnið sig þannig út úr örbyrgð og til bjargálna vildi nú sjá hve langt mætti komast með því að beita græðginni fyrir vagninn. Sú vegferð er nú á enda.
 
Forsætisráðherra þjóðarinnar sagði okkur í sjónvarpsviðtali í gær að sem betur fer væri ríkissjóður skuldlítill til að taka á sig byrðar. Þjóðina setti hljóða yfir þessum súrrealísku yfirlýsingum oddvita  ríkisstjórnar sem er í þann veginn að skrifa á almenning hærri skuldir en áður hafa þekkst í Íslandssögunni. Á alþýðu manna á Íslandi er ætlunin að hlaða skuldaklyfjum sem eru meiri að vöxtum en nokkur þjóð fær risið undir. Út á það ganga kröfur heimslögreglu kapítalismans sem mætt er til leiks undir merkjum Aljóðagjaldeyrissjóðsins. Sú  lögregla veit hvað keisarans er og að skuldin við hann skuli goldin áður en slakað verði á þumalskrúfum gagnvart íslensku launaþjóðinni.

Það er mikilvægt að taka á markvissan og fumlausan hátt á bráðavanda Íslendinga. En þegar langtímavandinn er annars vegar - bliknar sá skammtímavandi að koma gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar í eðlilegt horf í samanburði. Langtímavandinn teygir sig nefnilega langt inn í framtíðina. Það krefst  úthalds og við verðum að vera tilbúin að verða fyrir skammtíma tjóni til að afstýra honum eftir því sem nokkur kostur er.

Við verðum að gera þá afdráttarlausu kröfu til þeirra sem semja fyrir okkar hönd að þeir skrifi ekki upp á nauðung sem skuldsetur og veðsetur börnin okkar og barnabörn um ókomna tíð samkvæmt fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 
Íslendingar eiga vissulega að standa við lögbundnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar - en þá verða stjórnvöldin í landinu að leggja það niður fyrir sér hverjar þær eru og lýsa því afdráttarlaust yfir að frekar viljum við þola þrengingar en sæta afarkostum sem kæmu til með að fylgja okkur inn í ókominn tíma með verri afleiðingum en flestir gera sér grein fyrir.

Þá er það hin megin krafan og hún er þessi: Þeir sem komu okkur út í þetta fen eiga að axla ábyrgðina, þeir eiga að borga.
Þá fyrst opni almenningur pyngjur sínar að,
allar hallirnar,
allar snekkjurnar,
öll fótboltaliðin,
og allar þoturnar hafa verið seldar og allir felureikningarnir á Cayman eyjum, Kýpur  og á Ermasundi  hafa verið tæmdir
og að S-hópar einkavinavæðingarinnar  hafa skilað ránsfeng sínum tilbaka.
Þetta hlýtur að verða krafa verkalýðshreyfingar og forsenda þess að gengið verði til einhvers sem kalla megi þjóðarsátt.
Og er ég þá ekki byrjaður að ræða hina pólitíska ábyrgð. Einnig hún kallar á uppgjör. Uppgjör á milli stjórnmálaflokka og innan stjórnmálaflokka.

Það er líka margt í okkar ranni sem við í verkalýðshreyfingunni þurfum að endurmeta og skoða í nýju ljósi. Með lögum var okkur þröngvað inn á markaðstogið með fjárfestingar lífeyrissjóðanna, gert að leita jafnan eftir hæstu "ávöxtun" mesta arði. Og sjálf töldum við okkur trú um að við ættum besta lífeyriskerfi í heimi. Og kannski eigum við það. Það er hins vegar misskilningur að halda að lífeyrissparnaður feli það í sér að leggja fyrir í sparibauk og að gengið verði að þeim eyri vísum á elliárum.
Þetta er ekki svo. það verður alltaf komið undir afkomu efnahagslífsins hverju sinni hvert verðgildi geymds eyris er í reynd. Og reynsla undangenginna ára kennir að vel notaður eyrir er vel geymdur en illa notuðum eyri er á glæ kastað.  Þess vegna hljótum við að spyrja forsætisráðherrann sem fagnaði því sérstaklega að eiga skuldlausan ríkissjóð en er nú í þann veginn að drukkna í skuldum skjólstæðinga sinna, fjármálaspekúlantanna, hvort ekki hefði verið nær að nýta fjármuni lífeyirssjóðanna til að styrkja innviði samfélags okkar, bæta heilsugæsluna, þjónustu við aldraða og stuðning við fatlaða í stað þess að þeir væru notaðir til að kaupa leikfangabúð  við Oxford Circus London, tryggingafélag í Noregi að ekki sé minnst á allar fínu afmælisveislurnar, sem Aljþóðagjaldeyrissjóðurinn vill nú að við borgum.
 
Í mínum huga eru lífeyrisréttindi einhver mikilvægustu réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur tryggt sínu fólki í tímans rás. Ég er þeirrar skoðunar að stefna skuli að því að lífeyrisrétturinn sé fasti - föst stærð sem hægt er að ganga að en kaupið þá hreyfanlegri breyta. Þær raddir eru vissulega til innan raða verkalýðshreyfingar að þetta sé röng forgangsröðun - að við verjum jafnvel of miklum fjármunum í lífeyrisréttindi - ættum að setja meira í kaupgjaldið, til að bæta lífskjörin  á meðan við erum vinnandi en verja þá  minna til efri áranna. Um þetta getum við verið sammála eða ósammála eftir atvikum.

En látum það aldrei henda okkur að níða réttindin hvert af öðru. Ég frábið að illa fengin lífeyrisréttindi alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins séu sett í eina spyrðu með lífeyrisréttindum sjúkraliðans, löggæslumannsins og gangavarðarins hjá hinu opinbera eins og gert var í Morgunblaðinu í gær og tekið upp í leiðara í dag. Slíkt kann að vera til stundarvinsælda fallið og skemmta einhverjum skröttum en ekki þjónar það réttindabaráttu launafólks. Opinberir starfsmenn hafa staðið blífast á sínum lífeyrisréttindum í áratuga langri baráttu og ávinningur hennar hefur skilað sér til alls launafólks - því skulum við aldrei gleyma.
Lífeyriskerfið  innan almannaþjónustunnar hefur hinsvegar verið lagað að því fyrirkomulagi sem  þekkist á almennum markaði og er sjóðunum nú gert að rísa undir sjálfum sér. Það er hins vegar rétt að réttindin eru föst en iðgjaldið breytilegt. Það er fyrirkomulag  sem ég tel að eigi að vísa veginn inn í framtíðina fyrir alla lífeyrisþega úr röðum verkalýðshreyfingarinnar og frábið ég að undan þeirri réttmætu kröfu verði grafið.

Góðir félagar.
Nú þurfum við að standa vaktina  sem aldrei fyrr.

Sú hætta er raunverulega  fyrir hendi að þrengingartíminn framundan verði notaður til að hafa réttindi af fólki, til þess að þrengja að velferðarþjónustunni í stað þess að efla hana og bæta. En gerum okkur grein fyrir því að aldrei er eins mikil þörf á þéttriðnu öryggisneti og þegar að þrengir og ekkert sveiflujöfnunartæki  skilar betri árangri en góð velferðarþjónusta.  Eða hvort skyldi vera betra þegar lítið er til skiptanna að hækka launin við alla þannig að þeir séu í stakk búnir til að standa straum af kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu eða falla frá gjaldtöku í heilbrigðskerfinu fyrir þá sem þangað þurfa að leita?

Okkur var sagt að græðgin gæfi af sér peninga. Að hinir gráðugu einstaklingar væru eins og vakrir gæðingar sem geystust um og sköpuðu auð í hverju spori. Og við skyldum njóta þess að vera á harðastökki og finna þaninn vöðva gæðingsins hnyklast undir okkur. En hverjum datt hug að fara á bak hesti án þess að setja í hann beisli. Hverjum datt í hug að taumlaust náttúruafl ætti að ráða ferðinni. Nú er það okkar að setja stefnuna; að leggja upp í ótemjuna mél skynsemi og hnakk samúðar og tillitssemi.

Góðir félagar.
Síðast þegar við Grétar Þorsteinsson forseti Alþýðusambands Íslands hittumst þá var ekki laust við að hann  ávítaði mig - alla vega þóttist ég finna fyrir ávítunartón. Eflaust voru ávíturnar  réttmætar - yfirleitt eru þær það úr hans munni. Reyndar skammar Grétar Þorsteinsson sjaldan fólk. Hann beitir fortölum og vinnur það á sitt band með hógværð  og  sanngirni. Grétar Þorsteinsson hefur i forsetatíð sinni ekki aðeins verið góður talsmaður ASÍ hann hefur verið góður talsmaður okkar allra, íslensku launamannasamtakanna og  sem slíkur hefur hann áunnið sér traust og virðingu og líka væntumþykju. Hún er líka miklivæg. Væntumþykjan.

Að vera félagi Grétars Þorsteinssonar er gott hlutskipti.  Ég þakka  honum samstarfið nú þegar hann hefur ákveðið að gefa ekki frekar kost á sér til forystustarfs.
Kæri félagi, megi þér vegna vel og megi þinn góði andi jafnan fylgja okkur öllum.
Íslensku launamannasamtökin eru ekki alltaf sammála. En þegar á heildina er litið eru þau samstiga og saman skulum við stilla saman strengi og vinna íslensku launafólki og þar með íslenskri þjóð gagn á erfiðleikatímum.
Ég óska þingfulltrúm velfarnaðar í starfi og Alþýðusambandi Íslands færi ég baráttukveðjur.
sJÁ: http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1404/
http://www.visir.is/article/20081023/FRETTIR01/900631148&SearchID=73333879416682

Fréttabréf