LÍFEYRISSJÓÐIRNIR HEIM - EN AÐEINS GULLTRYGGÐIR

Lífeyrissjóðirnir hafa svarað kalli ríkisstjórnarinnar um að
þeir flytji hluta af eignum sínum, sem vistaðar eru í útlöndum heim
til Íslands. Þetta yrði til að styrkja gjaldeyrisforðann og
auðvelda ríkinu að standa við skuldbindingar sínar. Ákvörðun
lífeyrissjóðanna er ekki án skilyrða. Þau eru reyndar mjög
ströng.
Í fyrsta lagi yrðu fjármunir lífeyrissjóðanna því aðeins
fluttir heim að fyrir þá fengjust ríkistryggð skuldabréf.
Í annan stað vilja forsvarsmenn lífeyrissjóðanna vita hvernig
bankar og fjármálafyrirtæki ætli að axla sína ábyrgð. Ætla þau að
flytja fjármuni heim , selja eignir og beina sjóðum sem þau kunna
að ráða yfir til Íslands?
Í þriðja lagi viljum við vita hvernig fjármununum yrði
ráðstafað, til að tryggja að ríkið geti staðið við skuldbindingar
sínar . Rynnu þessir peningar inn í almenna púlíu til að lengja
dauðastríð fjármálafyrirtækja um nokkrar vikur, eða yrði skilyrt að
þeir færu til að standa straum af kostnaði við skuldbindingar hins
opinbera?
Þessum spurningum verður ríkisstjórnin að svara í dag ella á að
láta það ógert að flytja lífeyrissparnaðinn heim.