Of margir þegja þegar þjóðin tapar

Birtist í Mbl
Að undanförnu hefur verið mikil umræða um tilraunir eigenda Frumafls hf. að selja Lyfjaverslun Íslands hf. eignarhlut sinn í elliheimili. Enginn deilir um að samningurinn sem var til sölu sé góður og ábatasamur. Hins vegar þótti mörgum manninum viðskiptasiðferðið ekki upp á marga fiska. Eigendur Frumafls hf. töldu sig nefnilega hafa meirihlutastöðu í Lyfjaverslun Íslands hf. og ætluðu að nýta sér meirihlutavald sitt þar til að knýja meðeigendur sína til að kaupa hlut sinn á uppsprengdu verði. Millifærslan átti að gefa þeim nokkur hundruð milljónir í vasann.

Þessu reiddust menn og rætt var um siðleysi. Upp á það skrifa ég og fagna því reyndar þegar menn neita að láta ganga yfir sig á skítugum skónum. Hitt þótti mér verra hve margir þögðu þegar skattborgarinn var beittur misrétti af fullkomnu siðleysi er samningurinn var gerður við Öldung hf. á sínum tíma, en það er í reyndinni sami samningur og nú gengur kaupum og sölum. Securitas hf. og Íslenskir aðalverktakar hf. stóðu upphaflega að samningnum. Aðalverktakar eru síðan að reisa Sóltúnsheimilið. Stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka hf. á sæti í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Hún hefur yfirumsjón með einkavæðingunni, þar á meðal einkavæðingu velferðarþjónustunnar.

Gróðaöflin hagnast á kostnað skattgreiðenda.

Samningurinn við Öldung hf. sem nú er að hluta til í höndum Frumafls hf. var undarlegur fyrir margra hluta sakir. Ríkisstuðningurinn er miklu meiri en við nokkra aðra öldrunarstofnun og allt vísitölubundið í bak og fyrir. Verði lyfjakostnaður meiri en gert er ráð fyrir í samningnum þá borgar ríkið, gagnstætt því sem gerist hjá öðrum stofnunum; allur byggingarkostnaður er greiddur gagnstætt því sem er hjá öðrum og sá fyrirsláttur að samningurinn sé hærri vegna þess að veikari sjúklingar komi inn á Sóltúnsheimilið en annars staðar er líka út í loftið því reynist þetta rétt hækka greiðslurnar að sama skapi.

Allt kynni þetta að vera gott og blessað ef ekki væri verið að mismuna gagnvart öðrum stofnunum og í þágu fjárfesta. Þessir fjárfestar eru nú sem betur fer að sýna sitt rétta andlit.

Í yfirlýsingu sem send var út í nafni Lyfjaverslunar Íslands hf. 10. júlí er fjallað um þau "viðskiptatækifæri" sem nú blasi við. Orðrétt segir m.a.: "Á næstu 10 árum þarf að byggja jafngildi 20 hjúkrunarheimila af sömu stærð og Sóltúnsheimilið, þ.e. 92 íbúðir. Þessi spá byggist á því að staðið verði við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett í heilbrigðisáætlun til 2010. Þetta grundvallast einnig á spá Þjóðhagsstofnunar um þriðjungs fjölgun 80 ára og eldri á næstu 10 árum, sem og upplýsingum um biðlista, búferlaflutninga og nauðsynlegum breytingum sem gera þarf á hjúkrunarheimilum hérlendis."

Í yfirlýsingunni sem er undirrituð af Grími Sæmundsen lækni er síðan vikið að gróðavoninni. Þar segir: "Núvirtur framtíðarhagnaður Frumafls hf. miðað við 20% ávöxtunarkröfu er áætlaður 2.067 milljónir króna. Þessi niðurstaða byggist í meginatriðum á því að Frumafl hf. komi að rekstri þriðjungs þeirra hjúkrunarheimila, sem byggja þarf á næstu 10 árum, og hasli sér einnig völl á sviði heimahjúkrunar og annarrar þjónustu við aldraða."

Hin gullnu tækifæri

Síðan segir í yfirlýsingunni að "veruleg tækifæri" felist í einkarekstri á heilbrigðissviði hérlendis og erlendis. "Í flestum nágrannalöndum hafa stjórnvöld leitað nýrra lausna með auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu, m.a. til að bæta þjónustu, lækka rekstrarkostnað og ná fram öðrum markmiðum á heilbrigðissviði ..."

Það kemur að sjálfsögðu úr hörðustu átt að þeir aðilar skuli tala um lækkaðan rekstrarkostnað sem hafa á hendi samning sem er miklu dýrari fyrir skattborgarann en allir aðrir samningar. Og varla komast menn lengra í ósvífninni en að tala í senn um bætta þjónustu annars vegar og ávöxtunarkröfu upp á 20% hins vegar. Þessir aðilar ætla að maka krókinn á kostnað skattborgarans og hagnaðarvonina finna þeir í öldruðum Íslendingum. Eitthvað af þessum mannskap mun vera búinn að skrá heimilisfang sitt í svokölluðum skattaparadísum erlendis til þess að komast hjá því að greiða skatta hér á landi. Er ekki mál að linni?  

Fréttabréf