Verslunarráðið gegn hagsmunum neytenda

"Í mín eyru hafa verslunareigendur viðurkennt að þeir myndu aldrei geta haft eins lága álagningu og ÁTVR nema þá hugsanlega með því að hafa aðeins í boði allra vinsælustu tegundirnar."

Eina ferðina enn er Verslunarráðið farið í krossferð til að grafa undan því fyrirkomulagi sem við búum við í sölu á áfengi. Markmiðið er að koma ÁTVR á kné svo áfengi verði selt í almennum verslunum. Reyndar hafa flutningsmenn þingmála í þessa veru jafnan viljað setja ýmis skilyrði fyrir leyfi til að versla með áfengi þannig að ljóst er að einvörðungu stærri keðjurnar réðu við verkefnið. Einokun stórverslana tæki þannig við af ÁTVR.
Í rauninni er skiljanlegt að hagsmunasamtök verslunarinnar vilji færa þá gríðarlegu veltu sem er í áfengissölunni inn í almennar matvöruverslanir. Þetta gæti vissulega styrkt stærstu keðjurnar en fullyrða má að þetta kæmi neytendum ekki til góða. En hvers vegna? Hér er fyrst og fremst að tvennu að hyggja, verðlagi og úrvali.

Áfengi yrði dýrara
Ekki leikur nokkur vafi á því að stærðarhagkvæmni veldur því að álagning ÁTVR er miklu minni en verslunin almennt gæti boðið upp á, eða á bilinu 7--13%. Þessu mega menn ekki rugla saman við áfengisgjaldið sem er skattur til ríkisins og veldur því að verð á áfengum drykkjum er eins hátt og raun ber vitni. Í mín eyru hafa verslunareigendur viðurkennt að þeir myndu aldrei geta haft eins lága álagningu og ÁTVR nema þá hugsanlega með því að hafa aðeins í boði allra vinsælustu tegundirnar.

Minna úrval
Þetta leiðir okkur að seinna atriðinu, vöruúrvalinu. Margir sjá það fyrir sér að með afnámi ÁTVR spryttu hér upp sérverslanir með meira úrvali en nú þekkist. Það myndi að öllum líkindum ekki gerast. Í mesta þéttbýlinu er nú að finna verslanir sem bjóða upp á meira úrval áfengra drykkja en þekkist jafnvel í stærstu borgum erlendis.
Ég efast stórlega að maður komi inn í margar verslanir í erlendum stórborgum sem hafa um tvö þúsund tegundir á boðstólum eins og hér gerist. Og þótt allar verslanir ÁTVR bjóði ekki upp á slíkt úrval hafa stærri verslanir 400--500 tegundir og þær allra smæstu að lágmarki 80 tegundir. Halda menn að þessi yrði raunin ef þetta væri gefið frjálst eins og kallað er? Síður en svo. Úrvalið myndi minnka og verðlag hækka, að sjálfsögðu mest í dreifbýli þar sem dreifingarkostnaður væri mestur.
Jafnt og þétt hefur ÁTVR fært út kvíarnar um land allt og hef ég verið í hópi þeirra sem hafa hvatt til þessa. Mér finnst rétt að aðgengi að áfengi sé fyrir hendi og sem mest jafnræði sé með landsmönnum í því efni. Þetta sjónarmið hafa sumir lagt út á þann veg að þeir sem haldi slíkum sjónarmiðum á loft hafi snúið baki við forvarnar- og heilsufarssjónarmiðum. Ekki á það við um undirritaðan.

Gróðasjónarmið í stað forvarna
Það er grundvallarmunur á því annars vegar að bjóða upp á gott úrval áfengra drykkja með aðgengi fyrir alla landsmenn og hins vegar að setja áfengið inn í matvöruverslanir og sjoppur með allri þeirri auglýsingamennsku sem því fylgir. Slíkt myndi margfalda áfengisneyslu, það sýna erlendar kannanir ótvírætt.
Niðurstaðan er þessi. Þröng sérhagsmuna- og gróðasjónarmið knýja Verslunarráðið áfram. Gegn slíku þarf mótvægi. Nú er auglýst eftir því að Neytendasamtökin standi vörð um hag neytenda, verðlag og úrval. Síðan sakar náttúrlega ekki að menn hafi einhverja heilbrigða skynsemi með í farteskinu og horfi til þjóðarhags.

Ögmundur Jónasson
alþingismaður og form. BSRB  

Fréttabréf