Það er verk að vinna í Reykjavík

Birtist í Mbl
Hver eru brýnustu úrlausnarefni í Reykjavík á komandi kjörtímabili? Að mínum dómi stendur tvennt upp úr. Annars vegar málefni aldraðra og hins vegar húsnæðismál. Í báðum þessum málaflokkum er þörf á stórátaki.

Í fyrsta lagi þarf að tryggja öldruðu fólki sem hefur vilja til að búa í eigin húsnæði aðstöðu til þess, bæði með réttlátu skattkerfi og viðeigandi þjónustu. Nokkrum erfiðleikum er háð að fjalla um þennan málaflokk með tilliti til ábyrgðar ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar því ábyrgðarsvið þessara aðila skarast. Þannig koma bæði ríki og sveitarfélög að fjármögnun dvalarheimila aldraðra. Hér þyrfti að efna til þjóðarátaks til þess að skera niður þá biðlista sem er að finna víða um landið, þar á meðal í höfuðborginni.

Stórátak í þágu aldraðra.

Það er gleðilegt að Reykjavíkurlistinn skuli hafa lýst því afdráttarlaust yfir að á komandi kjörtímabili muni baráttufáni þessa málaflokks blakta í Ráðhúsinu, enda löngu kominn tími til að efna til stórsóknar til að bæta kjör aldraðra. Næsta vor gefst kjósendum kostur á að tryggja að einnig í Stjórnarráðinu verði baráttufáni dreginn að húni. Vegna þess hve ábyrgðarsvið ríkis og sveitarfélaga skarast er einmitt þörf á mjög samstilltu átaki þessara aðila. Sumt er þó algerlega á valdi sveitarfélagsins að bæta. Þar má til dæmis nefna heimaþjónustuna. Margt fullorðið fólk sem nýtur heimaþjónustu kvartar yfir mikilli starfsmannaveltu og má eflaust rekja það til lágra launa. Það er mikilvægt að kjör starfsfólksins séu með þeim hætti að heimaþjónustunni haldist á góðu fólki.

Sókn í húsnæðismálum.

Það er staðreynd að eftir að ríkisstjórnin gerði grundvallarbreytingar á húsnæðiskerfinu fyrir fáeinum árum er mjög á brattann að sækja, sérstaklega fyrir fólk með lágar tekjur. Okurvextir eru að sliga margan einstaklinginn og fjölskylduna sem er að afla húsnæðis og leiguhúsnæði er af skornum skammti. Einnig á þessu sviði þarf að blása til stórsóknar. Að átakinu þurfa að koma ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir. Víða í Evrópu fjárfesta lífeyrissjóðirnir verulega í húsnæðiskerfinu, bæði vegna þess að það er talin örugg fjárfesting og einnig vegna hins að hún er þjóðhagslega uppbyggileg. Félagsmálaráðherrann hefur sýnt vilja til að stíga framfaraskref á þessu sviði og er það vel. Það hefur hins vegar ekki verið nein launung á því að félagslegir þætttir húsnæðiskerfisins hafa verið Sjálfstæðisflokknum eitur í beinum og hefur hann lagt ofurkapp á að keyra alla vexti í húsnæðiskerfinu upp í það sem markaðurinn býður. Hér er komin skýring á þeim mikla vanda sem félagasamtök sem sjá skjólstæðingum sínum fyrir leiguhúsnæði standa frammi fyrir.

Spurningar í kjörklefanum.

En stóra spurningin sem kjósendur í Reykjavík þurfa að spyrja sjálfa sig er eftirfarandi: Er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið afgerandi í ríkisstjórnum í rúman áratug um mótun stefnu gangnvart öldruðum og jafnframt sérstakur boðberi markaðsvaxta í húsnæðiskerfinu, muni kúvenda í þessum málaflokkum komist hann til valda í Reykjavík? Er ekki líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram við sama heygarðshornið, hygli efnafólki á kostnað hinna sem lakari hafa kjörin? Viljum við sjá það gerast í Reykjavík? Nú síðustu daga hefur Sjálfstæðisflokkurinn talað til aldraðra í höfuðborginni. Nokkur hundruð milljónir króna í Natófund kom sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn ekki úr jafnvægi en fjármögnun á öldrunarheimili olli meiriháttar uppnámi í þeirra röðum. Það ber að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir að tala skýrt. Nú á hann það skilið að fá skýr viðbrögð af hálfu kjósenda. Þeir sem vilja stórátak í húsnæðismálum og í málefnum aldraðra í Reykjavíkurborg svara með því að kjósa Reykjavíkurlistann.

Fréttabréf