Það verður kosið um heilbrigðismál

Birtist í Mbl. 10.05.2003
Í aðdraganda kosninganna hefur verið horft mjög til skattamála. Því miður hafa stjórnarflokkarnir og Samfylkingin sem boða minni tekjur ríkisins með skattatillögum sínum ekki verið krafðir nægilega svara um hvar þeir ætli að skera niður eða að hvaða marki þeir ætli að mæta niðurskurðinum með auknum þjónustugjöldum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hótar því að skera niður skatta sem nema rekstrarkostnaði Landspítalans og öllum lyfjaútgjöldum ríkisins og öllum greiðslum til sérfræðinga, þá er því ósvarað hverjir eigi að borga. Því um þetta hlýtur málið að snúast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður boðað þjónustugjöld. Það gerði hann meðal annars í bæklingi sem gefinn var út af fjármálaráðuneytinu árið 1998 sem eins konar leiðarvísir um framkvæmd einkavæðingar. Þar segir að leggja beri "áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum". Í heilbrigðiskerfinu er hér átt við sjúklingagjöld og í skólakerfinu er átt við skólagjöld.

Þessi stefna hefur mætt talsverðri andstöðu og í seinni tíð hefur Sjálfstæðisflokkurinn reynt að tóna þessa umræðu niður og látið í veðri vaka að flokkurinn hafi alls ekki á stefnuskrá sinni að auka útgjöld sjúklingsins eða skólanemans. Þetta snúist hreint ekki um einkavæðingu heldur einkarekstur! Lítum nánar á þetta. Hér er verið að svara kalli Verslunarráðsins sem um nokkurt skeið hefur talað fyrir einakavæðingu heilbrigðisgeirans. Þar á bæ vita menn sem er að við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda um ókominn tíma, þar verði um mikla peninga að tefla, og þá vilja þeir fá í sinn vasa. Verslunarráðinu þykir ekkert verra að ríkið ábyrgist greiðslurnar. Haft var eftir Jóhanni Óla eins aðaleiganda Öldungs hf að hægt væri að þéna vel á öldruðum. Þar væri "gífurlegan fjárhagsávining" að hafa.

Í þessu kristallast sú stefnubreyting sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar, að gera heilbrigðisþjónustuna að atvinnurekstri sem gefur fjárfestum arð í eigin vasa. Þegar ég gagnrýndi það á sínum tíma harðlega að Öldungur hf fengi miklu hærri greiðslur frá skattborgaranum en allar aðrar öldrunarstofnanir landsins þá svaraði Ríkisendurskoðun á þessa leið: Síðarnefndu stofnanirnar "eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf.. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi félagsins". 

Hvers eiga dvalarheimili aldraðra að gjalda?

Þetta er ástæðan fyrir því að einkarekstur er svona miklu dýrari en ríkisrekstur eða rekstur sjálfseignarstofnana sem ekki eru reknar með arðgreiðslur til eiganda að leiðarljósi. Vinstrihreyfingin grænt framboð telur algerlega ótækt að mismuna öldrunarstofnunum svona gróflega. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að ef elliheimilið Grund fengi greitt samkvæmt sama mælikvarða og Öldungur hf - að teknu tilliti til hjúkrunarþyngdar - þá væru greiðslur úr ríkissjóði 285 milljónum krónum hærri á ári en þær eru nú! Hvers á Grund að gjalda, eða Hrafnista eða allar aðrar sambærilegar stofnanir? Um þetta segir yfirlæknirinn á Skjóli í ársskýrslu sem birt var 14. mars 2003: " Það er hins vegar mikið undrunarefni, hve mismunur milli heimila og vistmanna þeirra vex." Skýringin er augljós segir hann ennfremur, "sá  óhjákvæmilegi munur hlýtur að vera augljós á verktakakostnaði aðila sem annars vegar reiknar sér og hluthöfum sínum15% arð af starfseminni og hins vegar sjálfseignarfélögum sem hafa það eitt á stefnuskrá að skrimta hallalaus frá ári til árs."

Í sjónvarpsþætti á dögunum lét Geir H. Haarde fjármálaráðherra að því liggja að ég væri andvígur hvers kyns einkavæðingu og einkaframkvæmd. Þetta er ekki rétt. Ég er hins vegar andvígur einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar. Það er mikið rétt. En gleymum því ekki að það hefur sýnt sig að einkaframkvæmdin er dýrari en bein fjárfesting ríkis og sveitarfélaga. Ef til stendur að skattborgarinn borgi brúsann á endanum ber þá ekki að leita hagkvæmustu kjara fyrir hann? Það þykir mér. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum vera framandi hugsun, eða hefur verið gerð úttekt á því hvort einkarekstur innan Lanspítalans háskólasjúkrahúss sé ódýrari en hinn reksturinn? Eftir því sem ég best veit hefur það ekki verið kannað.

Því miður má ætla að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki heyra niðurstöðuna. Hann rekur marksvæðingarstefnuna í þágu Verslunarráðsins og í anda trúarkreddu. Á meðan hyglað er hinum einkareknu eykst álagið á aðra starfsmenn og þrengt er að annarri starfsemi. Þessu þarf að snúa við. Það gerum við í kosningunum 10.maí.

Ef kjósendur grípa ekki í taumana gagnvart Sjálfstæðisflokknum munum við þurfa að heyja mjög erfiða varnarbaráttu á næstu fjórum árum. Fyrir fólk sem á við heilsubrest að stríða, fyrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar og fyrir skattborgarann er hér mikið alvörumál á ferð.

Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur verið blanda af ríkisreknum sjúkrahúsum og einkareknum stofum sérfræðinga. Þetta er viðkvæm blanda sem hefur verið þannig samansettt að hún hefur þegar á heildina er litið farið vel ofan í þjóðina. Nú stendur til að raska þessu hlutfalli og færa alla heilbrigðisþjónustuna nær markaðstorginu. Viljum við það?  


  

 

Fréttabréf