Hvers vegna fáum við ekki að heyra sannleikann?

  Í mánudagsblaði Morgunblaðsins er viðtal við Eamonn Butler, framkvæmdastjóra Adam Smith Institute í London. Hann var hér í boði Verslunarráðs Íslands til að sýna fram á ágæti einkavæðingar. Málflutningur Eamonns Butlers virtist harla mótsagnakenndur. Hann sagði að með einkavæðingu batnaði þjónusta og einnig var svo að skilja að launakjör og starfsskilyrði á vinnustað stórbötnuðu. Eamonn Butler fór mörgum orðum um lág laun opinberra starfsmanna í Bretlandi og mátti skilja að ríkisrekstur héldi launakjörum þeirra niðri. Hann tilgreindi sérstaklega dæmi um hve erfitt reyndist að fá fólk til starfa vegna bágra launakjara í mennta- og heilbrigðiskerfi og bætti því við að eftir því sem hann þekkti til hér á landi ættum við einmitt "talsvert verk óunnið á sviði heilbrigðis- og menntamála."
En það væri þó hægara sagt en gert að einkavæða á þessum sviðum. Þessir málaflokkar eru að sögn Butlers "erfiðir vegna þess hve nátengdir fólki þeir eru." Framleiðslufyrirtæki séu til að mynda fremur fjarlæg fólki og þar starfi tiltölulega fáir. Heilbrigðisþjónustan sé aftur á móti mjög nærri fólki, því það viti að það muni þurfa á henni að halda. Sömu sögu sé að segja um menntun, sérstaklega á Íslandi vegna þess að þjóðin sé ung og börn mörg. Af þessum ástæðum þurfi að vanda sérstaklega vel til verka þegar farið sé út í einkavæðingu á þessum sviðum.

Mótsagnakenndur málflutningur

Nú er mér spurn. Ef hægt er að sýna fram á að einkavæðing tryggi betri þjónustu, hvers vegna ætti þá að vera erfitt að innleiða hana á þeim sviðum sem snertir marga? Ætti það ekki að vera auðveldara? Og ef staðreyndin er sú að launakjör og starfsskilyrði batna með einkavæðingu, ætti einkavæðingu þá ekki að vera tekið fagnandi af starfsfólkinu? Þetta hljómar óneitanlega mótsagnakennt.
Gæti verið að veruleikinn sé allt annar en Eamonn Butler vill vera láta? Það vakti sérstaka athygli mína að í viðtalinu við Morgunblaðið nefnir  Eamonn Butler fangelsi sem sérstaklega vel heppnaða einkaframkvæmd í Bretlandi, þar hafi náðst "bestur árangur".
Í rannsóknarskýrslu sem gerð var á vegum bresku verkalýðssamtakanna Unison um reynsluna af einkavæðingu í almannaþjónustu kom fram að þjónusta þótti almennt hafa versnað jafnframt því sem hún reyndist greiðendum hennar miklu þyngri baggi en reiknað hafði verið með. Á þessu var þó ein undantekning. Í nokkrum fangelsum hafði tekist að ná kostnaði verulega niður. Ástæðan var stórfelld fækkun í starfsliði og rýrnun launakjara!

Reynslan önnur en látið er í veðri vaka

Þetta kemur heim og saman við reynsluna annars staðar frá. Lakari starfskjör hafa yfirleitt verið fylgifiskur einkavæðingarinnar nema þá fyrir æðstu toppana og þeirra hirð.  Gestafyrirlesari Verslunarráðsins segir að árangurinn í einkavæddum fangelsum megi skýra í ljósi þess að þau séu á vegum einkaaðila að öllu leyti. Vandinn í sjúkrahúsunum og skólunum sé sá, að aðeins afmarkaðir þættir séu einkavæddir "svo sem viðhald eða ræstingar." Þetta þekkjum við hér á landi einnig. Í skólum og sjúkrahúsum hefur ræstingin verið boðin út í sívaxandi mæli.  Þeir sem til þekkja vita að ekki hefur þetta haft í för með sér kjarabætur fyrir þá starfshópa sem þarna eiga í hlut nema síður sé. Enda er það svo að einhvern veginn þarf Eamonn Butler að ná kostnaði niður um 20%-40% sem hann fullyrðir að einkavæðingin hafi í för með sér. Við skulum ekki gleyma því heldur að fjárfestarnir í einkavæddri þjónustu ætla sér vel útilátinn arð.

Ósannfærandi málflutningur

Það væri fróðlegt að heyra Eamonn Butler og félaga hjá Adam Smith Institute, útlista hvernig þeir ætla að stórhækka laun en jafnframt ná 20%-40% sparnaði í starfsemi þar sem launin vega 70% af rekstrarkostnaði. Í Morgunblaðsviðtalinu vísar Eamonn Butler á stjórnunarvanda í þessu samhengi, þetta snúist um að taka á honum. Þetta er ósannfærandi málflutningur. Og nú þarf aftur að spyrja. Á að bera þetta á borð fyrir starfsmenn íslensku heilbrigðisþjónustunnar? Heldur dr. Eamonn Butler að starfsfólk íslenskra sjúkrastofnana sé að snyrta á sér neglurnar í vinnunni? Staðreyndin er sú að einkavæðing innan almannaþjónustunnar í Bretlandi hefur haft í för með sér verri þjónustu fyrir þá sem hennar eiga að njóta, kostnaðarsamari fyrir þá sem borga brúsann og lakari kjör fyrir starfsfólk.
Verslunarráð Íslands er hagsmunaaðili og baráttuvettvangur fyrirtækja sem vilja hasla sér völl innan almannaþjónustunnar. Þar er að hafa mikla fjármuni og því mikið í húfi að sannfæra okkur um ágæti einkavæðingarinnar. Það er hins vegar lágmarkskrafa að áróðursmenn fyrir einkavæðingu segi satt og rétt frá og dragi upp sanna og trúverðuga mynd máli sínu til stuðnings. Góður málstaður þolir allan sannleikann. Hvers vegna fengum við ekki að heyra hann hjá gestafyrirlesara Verslunarráðs Íslands?                                                                     

Fréttabréf