Til hvers fjárfesta menn í sjónvarpsstöð?

Birtist í Fréttablaðinu 03.09.2003
Um daginn birtist frétt í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Stórfiskar án starfa og mynd af sex valinkunnum fréttamönnum. Athygli vakti að engin kona var í hópnum. Hins vegar hefur verið staðfest, og var skilmerkilega greint frá því í þessari frétt, að nokkrar fréttakonur á Stöð tvö hefðu einnig misst vinnuna, Bryndís Hólm, Margrét Stefánsdóttir og Ólöf Rún Skúladóttir. Síðan kom frétt um það á mánudag að Hulda Gunnarsdóttir væri einnig í þessum hópi.

Hvers kyns eru stórfiskar?

Fleiri konur og karlar kunna að hafa látið af störfum hjá Stöð tvö en óneitanlega hefur verið sláandi hvernig körlunum hefur verið gert hærra undir höfði en kvenfólkinu í umfjöllun fjölmiðla og engu líkara en talið sé að meiri eftirsjá sé að körlum en konum. Þetta er hins vegar á misskilningi byggt því fiskar, jafnt stórir sem smáir, eru af báðum kynjum.

Ekki þekki ég hverjar ástæður liggja að baki öllum þessum uppsögnum en mjög óþægilegt hefur verið að hlusta á yfirlýsingar eigenda og forstöðumanna Stöðvar tvö að undanförnu því af þeirra hálfu hefur sterklega verið gefið í skyn, að alla vega í sumum tilvikum, hafi skoðanaágreiningur legið að baki því að fréttamönnum var sagt upp störfum.

Hagnaður eða völd?

Við þetta hafa vaknað spurningar um tengsl eigenda við fjölmiðla. Í umræðum í kjölfar þessara uppsagna hefur komið fram það sjónarmið að sú hætta væri raunverulega fyrir hendi að öflugir aðilar í viðskiptalífinu keyptu fjölmiðil til þess að halda sínum málstað fram ef þeir teldu þörf krefja. Fjölmiðill í augum slíkra aðila væri ekki fyrirtæki eða fjárfestingarkostur heldur valdatæki.

Við þessar aðstæður er rétt að varpa því inn í umræðuna hvort sú mynd sem við okkur blasir núna minni ekki á nauðsyn þess að reka í landinu öflugt ríkisútvarp, sem kjölfestu í frétta- og upplýsingamiðlun og sem menningarvettvang.

Í Kastljósþætti Sjónvarpsins um síðustu helgi virtist mér Árni Snævarr, brottrekinn fréttamaður af Stöð tvö, eins og frægt er orðið, hálfpartinn hafna þessu sjónarmiði. Á honum var að skilja að lítill munur væri á því að eigendur Stöðvar tvö kipptu í spotta vegna fréttaflutnings af laxveiðitúr og þeim möguleika að útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins reyndi að kaupa sér frið hjá ráðherrum þegar sú stofnun ætti í peningalegum þrengingum og ætti á hættu að fara fram úr fjárlagarammanum.

Ríkisútvarpið axlar ábyrgð

Í þessum umræðum virðist oft gleymast að Ríkisútvarpið er rekið með iðgjöldum og tekjum af auglýsingum en ekki beinum framlögum af fjárlögum. Ef Ríkisútvarpið fer fram úr áætlun þarf það að afla lánsfjár eða skera niður. Iðgjaldafyrirkomulagið tíðkast víða einmitt til þess að tengslin á milli hins pólitíska valds og fjölmiðilsins verði ekki náin. Það er mikill misskilningur sem ítrekað hefur komið fram í umræðu um Ríkisútvarpið að það geti eytt um efni fram, án þess að standa skil gerða sinna. Sem fyrrverandi starfsmaður og um langt skeið formaður Starfsmannafélags Sjónvarpsins get ég borið vitni um mörg samdráttarskeið og sparnaðarherferðir, sem ekki voru alltaf sársaukalausar.

Peningar í arð eða rekstur?

Það breytir hins vegar ekki því að uppsagnirnar á Stöð tvö nú eru orðnar fjöldauppsagnir og augljóslega erfiðar mörgu fólki. Ég skil þá mjög vel sem búa við þessar erfiðu aðstæður að þeir horfi jafnvel með nokkurri gremju til Ríkisútvarpsins þar sem starfsfólk býr óneitanlega við meira öryggi. Stjórnendur Stöðvar tvö hafa heldur ýtt undir þessa hugsun og talað niðrandi um Ríkisútvarpið eins og það hvíli ofalið í ríkisforsjá. Annað sé uppi á teningnum hjá einkafyrirtækinu Stöð tvö. Þar þurfi menn að berjast fyrir lífi sínu frá morgni til kvölds. Það kann að vera rétt. En gagnvart hverjum er það stríð háð? Í umfjöllun um Stöð tvö hefur margoft komið fram að miklar upphæðir hafa runnið í vasa eigenda stöðvarinnar í gegnum tíðina. Fróðlegt væri að gerð yrði grein fyrir því um hve háar upphæðir er að ræða. Ég hef grun um að þeir einir hafi ekki fláð feitan gölt sem voru frumherjar í þessu ævintýri. Hinir sem á eftir komu hafa hins vegar margir hagnast vel.

Ég hef nefnilega trú á því að þrátt fyrir allt hafi eigendur stöðvarinnar fyrst og fremst litið á hana sem góðan fjárfestingarkost en ekki sem valdatæki í stjórnmálum. En gæti verið að þar hafi orðið breyting á?

Fréttabréf