Hvort viltu samtryggingu eða einkatryggingu?

Birtist í Fréttablaðinu 30.09.2003
Fyrir fáeinum dögum birtist mjög athyglisverð frétt í fjömiðlum. Í ljós kom að meira en helmingur þjóðarinnar á aldrinum 16 til 75 ára hefur keypt líftryggingu og um 40% hafa keypt sjúkdómatryggingu. Það fylgdi sögunni að hver tryggingarþegi væri  metinn sérstaklega og þá horft til sjúkdómssögu viðkomandi.
Tryggingafyrirtækið sem hefur haft sig mest í frammi á þessu sviði heitir Samlíf og hefur annað veifið gengist fyrir kynningu og markaðsátaki til að koma "vöru" sinni á framfæri. Markaðsstjóri Samlífs var spurður í fréttum Sjónvarps hvort það væri ekki rétt skilið að ekki gætu allir fengið líftryggingu hjá fyrirtækinu. "Það er rétt", sagði markaðsstjórinn, "engu að síður eru velflestir sem geta nálgast þessa vöru og nýtt sér hana."

Hverjir eiga rétt á "vörunni"?

Þeir sem ekki geta nálgast "vöruna" eru væntanlega hinir sömu og undanskildir voru í Sumargjöf Samlífs 2002 Þá kom inn um bréfalúguna tilboð um hvort ég vildi "aðstoða einhvern sem mér þykir vænt um við að stíga fyrsta skrefið að mikilvægri tryggingavernd." Þeim sem vildu hafa viðskipti við fyrirtækið bauðst "að gefa einhverjum á aldrinum 22 til 26 ára sjúkdómstryggingu..." Vátryggingarupphæðin var 2 milljónir króna. En til þess að geta þegið gjöfina þurfti viðkomandi að uppfylla skilyrði sem m.a. voru eftirfarandi:

 " Ég hef ekki nú eða áður haft alvarlega sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni eins og t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, heila- og taugasjúkdóma, krabbamein, sykursýki, MS, MND, HIV-smit, nýrnasjúkdóma, geðsjúkdóma, Parkinsonsjúkdóm eða Alzheimersjúkdóm.

Ekki er mér kunnugt um að foreldrar mínir eða systkini hafi haft alvarlega hjarta- eða æðasjúkdóma, nýrnasjúkdóma, heila- og taugasjúkdóma, sykursýki, brjóstakrabbamein eða maga-/ristilkrabbamein."

Hér á landi  höfum búið við samtryggingarkerfi sem að grunni til er gott þótt margt megi þar bæta. Kerfið hvílir á almannatryggingum, lífeyrissjóðum og ýmsum þáttum velferðarþjónustunnar og vegur heilbrigðiskerfið þar þyngst. Í lífeyrissjóðunum er ekki spurt um það hvort foreldrar hafi haft heila- eða taugasjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem getið er í skilmálum tryggingafélagsins. Inni á heilsugæslustofnunum og á sjúkrahúsum hafa allir þeir sem eru sjúkir eða illa á sig komnir fengið aðhlynningu og lækningu. Hlúð hefur verið að fólki ef það hefur verið sjúkt og einu látið gilda hvort það sjálft eða aðstandendur hafi haft sykursýki, krabbamein, nýrnasjúkdóm eða aðra sjúkdóma sem tryggingafélagið setur fyrir sig samkvæmt ofangreindum skilmálum.
Nú ætla ég ekki að fella neinn áfellisdóm yfir tryggingafélaginu Samlíf, síður en svo. Fyrirtækið er einfaldlega að gera það sama og tryggingafyrirtæki af þessu tagi gera um heim allan. Spurningin sem við hins vegar stöndum frammi fyrir sem þjóð er áleitin. Ef við veikjum stoðir þess samhjálaparkerfis sem lýst er hér að framan þá höfum við fengið sterka vísbendingu um hvað tekur við.

Ekki spurt um réttlæti

Þeir sem helst þyrftu á aðstoð að halda og eru í áhættuhópi, annaðhvort vegna eigin sjúkdómasögu eða aðstandenda, yrðu einmitt þeir sem annaðhvort yrðu útilokaðir frá tryggingu eða fengju hana á afarkjörum.
Fram til þessa hefur yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar verið á þeirri skoðun að okkur bæri að standa sameiginlega að kostnaði við velferðarþjónustuna til að fyrirbyggja mismunun.
Markaðsþjóðfélagið gerist sífellt ýtnara og ágengara og sækir stöðugt inn í velferðarþjónustuna. Talsmenn þessara aðila segjast síður en svo vilja ógna grunnþáttum þeirrar þjónustu, sem fyrir hendi er. Þeirra "vara" sé einfaldlega viðbót. Ekki ætla ég að efast um góðan vilja þessara aðila, en þó benda á að þegar heilsan og trygging hennar er orðin "vara" á markaði þá mun það jafnframt gerast, að lögmál markaðarins taka yfir. Velviljaðir menn fá þar engu ráðið um. Þar verður ekki spurt um réttlæti heldur fyrst og fremst um arðsemi. Hagsmunir tryggingafélags verða þeir að tryggja ekki gallaða vöru.                                                            

Fréttabréf