Fyrst skærin, þá tappatogarinn, nú tannkremstúpan

HVAÐ erum við tilbúin að láta leiða okkur langt í rugli og vitleysu? Hverjir eru það sem samþykkja fyrir okkar hönd að banna fólki að hafa með sér tannkrem um borð í flugvél eða sjampó? Spyr sá sem ekki veit.

Ég þekki vissulega röksemdirnar. Ég veit allt um fullyrðingar bresku leyniþjónustunnar að grunur leiki á að til hafi staðið að sprengja upp farþegaflugvél með því að umbreyta vökva í banvæna sprengju. Þessi grunsemd eða átylla (?) varð til þess að herða mjög á eftirliti með flugfarþegum í Bretlandi - og var vart á bætandi eftir kröfur Kana um eftirlit sem ganga allra þjóða lengst í þessu tilliti. Nú hefur reglum í Bretlandi verið breytt þannig að það má taka með sér 100 ml af vökva; sem dugir þá væntanlega bara í litlar sprengjur, eða hvað?

Þótt öllum sé annt um líf sjálfra sín og annarra, gegnir allt öðru um öryggiseftirlitið sem Bush, Blair og félagar eru að innleiða í heiminum, allt með tilvísan í hryðjuverkin í New York og Washington 11. september árið 2001. Nú er svo komið að hver einasti maður sem stígur upp í flugvél í heiminum er skoðaður og skráður í bak og fyrir. Svo er komið að naglaklippur eru taldar ógna öryggi mannkynsins og eigendur verða að láta þær af hendi umsvifalaust við brottför í flughöfnum heimsins ella verða kyrrsettir. En hvers vegna ekki að leita á leikhúsgestum, bíógestum, strætisvagna- og rútuferðalöngum, farþegum í neðanjarðarlestum (þar hefur meira en lítið verið sprengt), öllum þeim sem fara inn í byggingar eða mannvirki sem opin eru almenningi? Staðreyndin er nefnilega sú að varla er að finna þá gerð almenningsfarartækja, eða samkomustaða sem ekki hafa einhvern tímann, einhvers staðar, verið sprengdir í loft upp, og iðulega hefur fjöldi fólks farist í slíkum árásum. Innst inni vita hins vegar allir að þetta snýst ekki um öryggi borgaranna heldur um þau tæki, sem ráðandi öfl vilja fá í hendur til að öðlast alræðisvald yfir samfélögunum. Hrikaleg tilhugsun en sönn - að ég hygg.

Í stað þess að leysa mannréttindavanda, óréttlætið í Miðausturlöndum, yfirgang, koma í veg fyrir að heimska og hefndarþorsti vanhæfra stjórnenda á Vesturlöndum ráði ferðinni, er búin til óttatilfinning og síðan falskt öryggi. Hvað ætlum við að láta þetta viðgangast lengi? Rétta fulltrúar Íslands alltaf upp höndina þegar ákveðið er að leita í tannkremstúpunum, gera sjampóið upptækt að ógleymdum naglaklippunum. Mér er minnisstæður fréttamannafundur í Kaupmannahöfn, sem ég sótti sem fréttamaður RÚV, árið 1987 eða 1988. Olof Palme hafði nýlega verið myrtur. En þarna voru saman komnir, á þessum fréttmannafundi, allir forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna. Engin öryggisgæsla. "Er þetta hyggilegt?" spurði einhver fréttamaðurinn. "Já, það er bæði hyggilegt og eftirsóknarvert að búa í opnu lýðræðisþjóðfélagi," svaraði einhver ráðherrann að bragði. Þessu var ég hjartanlega sammála. Og ég er það enn. Þess vegna vil ég gera uppreisn gegn eftirlitssamfélaginu, andæfa hressilega gegn því. Það er kominn tími til að safna liði gegn ofríkinu í flughöfnum heimsins. Að sjálfsögðu er ekkert við þá að sakast sem við það starfa að framfylgja settum reglum. Við hljótum að beina orðum okkar og andófi gegn þeim sem setja hinar fáránlegu reglur og þeim sem ákveða fyrir okkar hönd að undirgangast þær.

Fyrst voru það skærin, síðan tappatogarinn og nú tannkremstúpan. Er ekki mál að linni? Er ekki kominn tími til að auglýsa eftir málsvörum skynseminnar?

Fréttabréf