UM HALLAREKSTUR Á SJÚKRAHÚSUM
Birtist í Morgunblaðinu 30.12.06.
Það er áhyggjuefni að sjúkrahús landsins skuli rekin með halla.
Hvers vegna skyldi það vera áhyggjuefni? Þetta er verðug spurning í
ljósi þess hve ágengur hallarekstur sjúkrahúsa er orðinn í
þjóðfélagsumræðunni. Auðvitað er það svo að í rekstri sjúkrahúsa er
margt sem betur mætti fara, og hef ég ekki sagt mitt síðasta orð í
því efni. En hitt er þó staðreynd að hallareksturinn á Landspítala-
háskólasjúkrahúsi, svo dæmi sé tekið, er tilkominn vegna þess að
Jón Jónsson þurfti að láta gera að viðbeinsbroti og þó ekki síður
vegna hins að nýrnadeild spítalans er farin að vinna kraftaverk,
veita sífellt fleira fólki þá þjónustu, lækningu og stuðning sem
best gerist í heiminum! Er þetta áhyggjuefni? Nei. Þetta er að
sjálfsögðu fagnaðarefni. Hitt er áhyggjuefnið að menn skuli láta
niðurskurðarpólitíkusana ráða för í velferðarþjónustunni. Þeir hafa
m.a. fryst framlög til Landspítala- háskólasjúkrahúss að
raungildi frá aldamótum. Hvað hefur það þýtt? Eftir því sem
spítalinn hefur sinnt hlutverki sínu betur - læknað fleiri
viðbeinsbrotna og gert lífið bærilegra fyrir nýrnasjúka - þeim mun
meiri hefur hallinn orðið! Og þá væntanlega, því óábyrgari hefur
reksturinn verið talinn! Að sjálfsögðu er það ekki svo. Þegar
ríkisstjórnin "jók" framlög til LHS á síðustu metrum
fjárlagaumræðunnar urðum við vitni að pólitískum loddaraskap, sem
reyndar einkenndi alla fjárlagavinnuna. Skorið hafði verið við nögl
í upphafi, á nánast öllum sviðum. Síðan kom góða kosningavæna
ríkisstjórnin og greiddi götu allra þjakaðra. Þar á meðal
sjúkrahúsa sem rekin voru "með halla". Í mínum huga er halli
sjúkrahúsanna ekki stóra áhyggjuefnið - heldur stjórnmálamenn sem
búa hann til - og kannski líka, alla vega í sumum tilvikum,
fjölmiðlar sem leyfa þessu sjónarspili ríkisstjórnarinnar að
viðgangast átölulaust.