EFNT TIL UMRÆÐU UM EINKAREKSTUR Í HEILBRIGÐISKERFINU


Sicko, kvikmynd  Michaels Moores, um bandaríska heilbrigðiskerfið hefur verið sýnd á Íslandi að undanförnu. Niðurstaða nánast allra sem myndina sjá: Ekki bandarískt heilbrigðiskerfi hingað til lands. Nú er úr vöndu að ráða fyrir aðdáendur einkaframtaksins. Svar þeirra er að fullvissa okkur um að þótt íslenska heilbrigðiskerfið verði sett í hendur einkaaðila þá sé engin hætta á ferðum.

Heilbrigði forsenda velgengni

Í Viðskiptablaðinu hafa birst nokkrar greinar um þetta efni. Ég nefni tvær. Önnur er eftir Kenneth Rogoff. Hin er eftir Auðbjörgu Ólafsdóttur, annan af tveimur fréttastjórum Viðskiptablaðsins. Ég fagna þessari umræðu og hvet til framhalds. Æskilegt væri þó að málin yrðu skoðuð frá sem flestum sjónarhornum.
Grein Kenneths Rogoffs birtist 29. ágúst. Þar segir hann  að sumar þjóðir líti á heilsugæslu sem "réttindi en ekki munað." Svolítið erfitt er að átta sig á því hvert Rogoff þessi er að fara en niðurstaða hans virðist mér vera sú að samasemmerki megi setja á milli kapítalisma og hagræðis. En þrátt fyrir ágæti markaðslögmálanna megi engu að síður ætla að útgjöld til heilbrigðismála fari vaxandi þegar til langs tíma sé litið og að fórnarkostnaðurinn yrði þá "stór sneið af efnahagslífinu."
Nokkuð þykir mér skorta á dýptina í röksemdafærslu Rogoffs. Þannig má spyrja hvort tilkostnaður sem hlýst af því að veita öllum aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi í för með sér fórnarkosntað fyrir atvinnulífið? Eða er heilbrigði þjóðar ekki forsenda velgengni hennar? Síðan leyfi ég mér að efast um þá staðhæfingu að markaðslögmál stuðli að hagkvæmni og sparnaði þegar heilbrigðiskerfið er annars vegar. Hinn óhefti markaður í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna hefur þannig getið af sér dýrustu og óhagkvæmustu heilbrigðisþjónustu heimsins.

Er einkarekstur lausnarorðið?

Ekki sýnist mér Auðbjörg Ólafsdóttir, fréttastjóri á Viðskiptablaðinu hafa efasemdir um þetta (Viðskiptabl 28.ágúst). En lausnarorðið í hennar huga er engu að síður einkarekstur; en einkarekstur fjármagnaður með skattfé. Þetta er formúla Sjálfstæðisflokks (síðustu árin) og einnig Samfylkingar nú um stundir: Skattgreiðandinn borgar, einkafyrirtæki framkvæma. Auðbjörg segir að heilbrigðisútgjöld fari vaxandi, og nefnir tölur máli sínu til stuðnings, starfsfólk kvarti undan lágum launum og miklu álagi. "Samkvæmt úttekt frá  OECD þá borga skattgreiðendur hvergi meira fyrir heilbrigðisþjónustu en hér á landi. Á sama tíma heyrast kvartanir sjúklinga...biðlistar eru langir, skammarlegt er hvernig við hugsum um gamla fólkið...þá kvartar starfsfólk í hjúkrunargeiranum sáran undan miklu álagi og lágum launum. Þetta er óásættanlegt ástand..."
En hvað er til ráða? Gefum fréttastjóra Viðskiptablaðsins aftur orðið:
"Margir vilja meina að lausnin við þessum vanda felist í að nýta þá möguleika sem felast í nýjum rekstraformum í heilbrigðiskerfinu. Nauðsynlegt er að taka skýrt fram að ekki er um einkavæðingu að ræða heldur að ríkið kaupir heilbrigðisþjónustu af einkafyrirtækjum. Eftir sem áður væri hins vegar sjúkratryggingar á könnu hins opinbera og þannig myndi kostnaðurinn við heilbrigðisþjónustuna borgast úr sameiginlegum sjóðum eins og nú er. Með þessu móti væri hægt að auka skilvirkni og hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu en allt eftirlit og heildarumsjón væru í verkahring ríkisins. Slíkt myndi einnig leysa úr læðingi krafta þess mannauðs sem starfar innan heilbrigðisgeirans. Auðvitað á markmiðið að vera að hér verði besta heilbrigðiskerfi í heimi, sættum okkur ekki við neitt minna."

Vangaveltur og spurningar

Þetta er að sjálfsögðu góður tónn þótt ég hafi miklar efasemdir um að lausnin á of lágum launum og miklu álagi á meðal starfsfólks í heilbrigðiskerfinu sé að fela einkfyrirtækjum reksturinn. En þetta er engu að síður virðingarverð  tilraun til þess að efna til umræðu.
Ég vil af þessu tilefni setja fram eftirfarandi vangaveltur og spurningar.
Í fyrsta lagi hefði ég áhuga á að sjá þá skýrslu OECD sem sögð er sýna fram á að hvergi á byggðu bóli greiði skattgreiðendur meira fyrir heilbrigðisþjónustu en hér. Sjálfur las ég fyrir nokkrum árum skýrslu sem sýndi að hvergi fengju skattgreiðendur meira fyrir framlag sitt en hér, með örðum orðum, þrátt fyrir alla skafanka væri vandfundið skilvirkara heilbrigðiskerfi en hér.
Í öðru lagi telur Auðbjörg að með einkarekstri náist þrennt, að því er ég fæ best skilið: a) koma böndum á sívaxandi útgjöld til heilbrigðismála, b) stórbæta þjónustu og c) draga úr álagi starfsmanna og hækka laun þeirra.
Varðandi síðasta atriðið vil ég benda á að 75-80% af rekstrarkostnaði sjúkrahúsa eru laun og ef á að gera það tvennt í senn, að draga úr útgjöldum og hækka launin verður úr vöndu að ráða. Að vísu hefur tekist með einkarekstri í ræstingu og ýmsum þáttum þar sem láglaunafólk starfar í heilbrigðislkerfinu að ná fram sparnaði en hann hefur verið á kostnað starfsfólksins, lægri laun, rýrari réttindi og meira álag. Vel má vera að einkarekstur geti komið hærri launahópunum til góða en yrðu útgjöldin minni fyrir bragðið?
Í þriðja lagi er mikilvægt að fá svör við eftirfarandi: Samkvæmt hvaða reglum eiga skattfínanseraðar einkastofur eða einkaspítalar að starfa? Mega þeir keppa á markaðsforsendum, með því að bjóða mismunandi verðlag fyrir þjónustu sína (einsog sumir læknar hafa krafist) eða verður þeim gert skylt að starfa samkvæmt töxtum Tryggingastofnunar (einsog nú tíðkast að undanskildum tannlæknum)? Markaðssinnaðir læknar segja, að eigi að nýta kosti markaðslögmálanna verði þeir að geta keppt sín í milli á grundvelli verðlags. Aðrir og þá einkum samfélagslega sinnaðir læknar, segja að með þessu móti yrði þess skammt að bíða að hér yrði tveggja þrepa kerfi þar sem efnameira fólk gæti keypt sig framfyrir í röðinni. Þessir aðilar segja að forsenda þess að skattborgarinn fjármagni heilbrigðisþjónustuna sé að eitt sé látið yfir alla ganga hvað verðlagið snertir. Aðhaldið eigi þannig ekki að koma frá markaðnum á grundvelli verðlags fyrir veitta þjónustu heldur með eftirliti hins opinbera. Hið opinbera geri skýra samninga við einkarekin sjúkrahús og hafi síðan strangt eftirlit með því að þeim sé framfylgt. Þetta sýnist mér vera afstaða Auðbjargar Ólafsdóttur, fréttastjóra Viðskiptablaðsins, þótt ekki sé það fulljóst. Í þessu samhengi væri fróðlegt að fá umræður um kosti og galla eftirlitsþjóðfélagsins sem nú er að ryðja sér til rúms á öllum sviðum. Í stað innra eftirlits sem við nú búum við t.d. í heilbrigðiskerfinu, yrði um að ræða ytra eftirlit. Yrði þetta eftirlitsþjóðfélag ódýrara í rekstri og yrði það betra? Ég held ekki.

Framlag erlendis frá

Eitthvert besta innlegg í umræðuna um heilbrigðismálin hér á undanförnum árum er að finna í erindi sænska fræðimannsins Göran Dahlgren sem hingað kom á vegum BSRB en erindi hans er að finna HÉR.
Ég hef vísað í fyrirlestur Dahlgrens oftar en einu sinni og læt fylgja eftirfarandi slóðir: HÉR og HÉR og HÉR og HÉR og HÉR.
Fyrir nokkrum árum kom hingað fyrirlesari á vegum Viðskiptaráðsins sem áður hét Verslunarráðið, en sá maður taldi að einkavæðing heilbrigðiskerfisins væri allra meina bót. Þessi maður hét Eamonn Butler og var - og er hugsanlega enn - framkvæmdastjóri Adam Smith Institute í London. Ég skrifaði nokkrar blaðagreinar og pistla um þessa heimsókn og læt ég slóðir á einhverja þeirra  og tengt efni fylgja hér: HÉR og HÉR og HÉR og HÉR.

Fréttabréf