HEILBRIGÐISRÁÐHERRA Á ÁHORFENDABEKK

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, birtist á sjónvapsskjá þegar RÚV kynnti "háar hugmyndir" um byggingu risavaxinnar einkarekinnar heilbrigðisstofnunar í Garðabæ. Lýsingin á framkvæmdinni var lýsing á einkareknu sjúkrahúsi. Ég fekk ekki annað skilið. Hver skyldi svo eiga að fjármagna fyrirbærið? Við. Skattborgarar þessa lands eiga að borga. En hver ákveður hvað við komum til með að fjármagna? Við eða fulltrúar okkar? Nei, það gera verktakar. Þeir ákveða. Í áhorfendastúkunni situr Guðlaugur heilbrigðisráðherra. Hann var óskaplega ánægður í sjónvarpsfréttum. Sagði að í þessu fælust mikil tækifæri. Hann talaði um viðskiptavini. Það eru þeir sem við hingað til höfum kallað kransæða- og krabbameinssjúklinga. Nú þurfa þeir að fara að venja sig við að tala bisnissmál. Kannski ekki alveg strax þótt heilbriðgðisráðherra vilji greinilega venja okkur við tungutakið; ekki alveg strax, því enn eigum við öll að borga brúsann. Skattborgsarinn á að borga fyrir einkasjúkrahúsið. En viljum við þá ekki líka ráða? Viljum við ekki ákveða hvar við reisum sjúkrahús og hvernig þau eigi að starfa? Sættum við okkur við metnaðarleysið í heilbrigðisráðherra, sem sjálfur hefur ekkert frumkvæði að uppbyggingu eins og honum þó ber og hann var kosinn til að gera? Sættum við okkur við ríkisstjórn sem ætlar að gerast stimpilpúði fyrir bisnissmenn?  Hvað segir þjóðin þegar það rennur upp fyrir henni að hún var að kjósa inn í Stjórnarráðið fólk sem er sátt við að sitja í stúku, vera áhorfendur en ekki þátttakendur; vera þjónar en ekki gerendur. Aumt ætlar hlutskipti ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að verða.

Fréttabréf