PENINGAR EÐA MANNÚÐ?


Magnúsi Péturssyni, forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, var sem kunnugt er nýlega bolað úr starfi. Í upplýsandi viðtali við helgarblað Morgunblaðsins, undir fyrirsögninni Peningar og mannúð takast á,  kemur fram að Magnús leit svo á, að ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, að setja sérstaka tilsjónarnefnd undir formennsku Vilhjálms Egilssonar yfir stjórn spítalans, hafi verið gert sér til höfuðs: "Ég neita því ekki að hún hefur angrað mig töluvert þessi nefndaskipan. Mér fannst ekki sérstakt tilefni til að setja á fót nefnd sem vinnur eins og forstjóri og stjórnir spítalans gera. Mér finnst það eins og að setja frakka yfir yfirfrakka." ...

Ríkisstjórnin setur pólitískan kommissar á Landspítalann

Þess má geta að Vilhjálmur mætti í Sjónvarpsfréttir - sennilega vegna viðtalsins við MP - og varpaði þar ljósi á hlutverk sitt á Landspítalanum. Hann væri að kanna möguleika á nýjum rekstrarformum á göngum spítalans, sem á mannamáli þýðir einkavæðing/einkarekstur. Er það svo að þið séuð að skoða aukinn einkarekstur, spurði fréttamaður. Við erum opin fyrir öllu, sagði Vilhjálmur Egilsson, fulltrúi einkavæðingarráðherra heilbrigðismála, Guðlaugs Þórs. Sem kunnugt er þá gegnir Vilhjálmur nú starfi framkvæmdastjóra heildarsamtaka atvinnulífsins, SA, en fyrr á tíð var hann framkvæmdastjóri Viðskiptaráðsins, sem þá hét Verslunarráðið og var þá sem nú þau hagsmunasamtök á Íslandi sem ákafast börðust fyrir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Það er í þessi samhengi sem ber að skoða ummæli þessa pólitíska kommissars, heilbrigðisráðherrans á Landspítalanum þegar hann segist vera opinn fyrir öllu! 

Áhersla á samfélagsleg gildi

Einsog fram kemur í yfirskrift viðtalsins við Magnús Pétursson, þá hefur hann af því áhyggjur að mannúð sé smám saman að víkja fyrir peningahagsmunum við stjórn heilbrigðismála: "Það á að gera þá kröfu til þeirra sem fara með almannafé að þeir fari vel með. Það er skylda. En hins vegar er stundum erfitt að meta hvað er að fara vel með, það verður að meta afraksturinn. Það er ekki endilega víst að það sé að fara vel með að skera sem mest niður. Stundum þarf að fjárfesta. Það er kannski einn veikleikinn í umfjöllun um opinber fjármál að við gefum okkur ekki tíma til að setjast niður og skoða hvað við fáum fyrir það sem við leggjum út. Mér finnst stundum bæði í heilbrigðismálum og kannski menntamálum að við mættum leggja meira til og hugsa ekki bara um hvort krónan skilar sér til baka - fremur ætti að huga að hverju fjárfestingin skilar fyrir samfélagið...Breytingin á sl. tíu árum er mikil. Í upphafi þessa tímabils efuðumst við ekki um að heilbrigðisþjónusta væri félagslegt viðfangsefni sem ætti að þjóna öllum með sama hætti, rétt eins og menntun. Og þannig hefur þetta verið framundir þetta...

Mannúðarsjónarmiðið á að ráða

Magnús segir í viðtalinu við Morgunblaðið að ríkisstjórnin eigi eftir að skýra það betur út hvað fyrir henni vaki með kerfisbreytingum í heilbrigðiskerfinu: "Ég held að það eigi eftir að koma betur í ljós fyrir hvað ...stjórnarflokkarnir standa fyrir í heilbrigðismálum og hvernig þeir ætla að framkvæma það sem talað hefur verið um í stjórnarsáttmálanum. Mér finnst að það eigi eftir að koma í ljós hvað það allt merkir...Ef gengið er mjög hart að heilbrigðisþjónustunni þannig að biðlistar myndist og þörf fyrir forgangsröðun eykst þá rís upp einkaþjónusta. Því meira sem skorið er niður því meiri líkur eru á að einkaaðilar taki upp þráðinn. Þeir starfa þannig að þeir þurfa að fá greitt fyrir sína þjónustu. Smám saman kynni þetta að leiða til þess að fólk kaupi sér einkatryggingar eins og reyndin er sums staðar erlendis. Í Þýskalandi eru t.d. tvö kerfi í raun í gangi. Það hefur reynst vel fyrir þá sem hafa efni á að borga. Það þurfa ekki endilega að vera íslenskir einkaaðilar sem kæmu til sögunnar með þessum hætt... Annað dæmi er að nú eru hópar lækna farnir að starfa án nokkrar tengingar við Tryggingastofnun ríkisins, t.d. hjartalæknar. Þeir setja upp sína eigin gjaldskrá og svo er það sjúklingsins að fara og biðja um endurgreiðslu hjá TR. Maður spyr sig hvort þetta sé ekki dæmi um að leiðir séu að einhverju leyti að skilja milli þeirra sem veita þjónustu og þeirra sem veita tryggingu? Bæklunarlæknar eru með lausa samninga og þeir eru líka að velta fyrir sér hvaða leið þeir eigi að fara. Þarna sér maður að heildin er að leysast nokkuð upp. Menn vita ekkert hvert þetta er að þróast og mér finnst áleitin spurningin: "Viljum við að samfellan í kerfinu raskist?" Mér finnst að menn eigi að reyna að vera framsýnir og sjá fyrir sér hvert þeir eru að fara. Þetta á ekki að þróast handahófskennt, þarna eiga stjórnvöld að móta stefnuna. Mannúðarsjónarmiðið á að ráða, það þýðir ekki að láta peningana eina ráða í þessum efnum. Þetta eru í raun átök milli peninga og mannúðar."

"Jafnaðarmenn" fyrr og nú

Magnús Pétursson vekur hér máls á ýmsum þáttum sem verið hafa í umræðunni að undanförnu. Með sveltistefnu er búið í haginn fyrir einkavæðingu. Einkaðilarnir búa síðan við meira fjárhagslegt öryggi því þeir fá alltaf greitt fyrir sína þjónustu samkvæmt samningum  en opinberu sjúkrastofnununum er gert að forgangsraða og einkavæða undir handarjaðri framkvæmdastjóra SA! Um mannúðina annars vegar og peningahyggjuna mætti hafa mörg orð en hitt kemur róti á huga minn: Í viðtalinu lýsir Magnús Pétursson sér sem jafnaðarmanni. Má skilja það svo að hann sé að vísa til krata af gamla skólanum en faðir hans sat um skeið á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn. Magnús segir í Morgunblaðsviðtalinu að hann átti sig ekki á því hvert ríkisstjórnarflokkarnir séu að fara, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Sá síðari heitir víst líka á hátíðastundum Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Skyldi gömlu Alþýðuflokksmönnunum, sem Magnús Pétursson er kominn út af, finnast Jafnaðarmannaflokkur Íslands (einsog formaður og varaformaður, Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur skilgreina hann) rísa undir nafni?  

Fréttabréf