SKYLDI EAMONN HAFA EITTHVAÐ LÆRT?


Ég hef alltaf fagnað því þegar kröftugir boðberar stjórnmálahugmynda koma hingað til lands með sinn boðskap; fólk sem örvar hugann og efnir til gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni samtímans.
Gildir þá einu þótt þeir séu á öndverðum meiði við mínar skoðanir. Þess vegna fagnaði ég á sínum tíma þegar Hólmsteinn og félagar í Frjálshyggjufélaginu fluttu þá inn í kippum, Freedman, Hayek, Buchannan og alla hina, brennandi í andanum, í þann veginn að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd - illu heilli. Á þessum tíma var ég fréttamaður og þáttastjórnandi  í Sjónvarpinu og tók öllu þessu liði opnum örmum og fagnandi. Í raun og sann dáðist ég að eldmóði frjálshyggjunnar og harmaði hve linur vinstri vængurinn var á þessum tíma.

Nú eru breyttir tímar. Vinstri pólitík í sókn og leikur ekki vafi á því að frjálshyggjan er komin í bullandi vörn. Það sem sagt var fyrir 25 árum af hálfu ofangreindra manna virkar hjákátlega nú eftir að reynslan hefur talað.

Hvað með það, enn eru þessir síðbúnu kraftaverkaboðarar á ferðinni. En þótt við leggjum mikið upp úr umburðarlyndi  hljótum við engu að síður að gera lágmarkskröfur um gæði, ekki síst þegar taka höndum saman rannsóknarsetrið RSE, Viðskiptablaðið, Viðskiptaráð og Háskóli Reykjavíkur en allir þessir aðilar standa að komu Eamonns Butlers, forstöðumanns Adam Smith Institute í London. Hann flytur fyrirlestur í boði þessara aðila í vikulok.  

Eamonn þessi Butler kom hingað til lands í ágúst árið 2003 til fyrirlestrahalds. Hann lofsöng einkavæðingu sem mest hann mátti, sagði hana hafa tekist með miklum ágætum í Bretlandi  og hvatti Íslendinga óspart til að halda inn á þessa braut ekki síst í heilbrigðiskerfinu; sagði að með einkavæðingu þar væri hægt að stórhækka laun og jafnframt ná 20-40% sparnaði!

Við þessar yfirlýsingar sperrtu margir heilbrigðisstarfsmenn eyrun enda eru laun þar 70% af rekstrarkostnaði . Eamonn Butler fór í mörg viðtöl en svo undarlega brá við að enginn fjölmiðill spurði þennan meinta kraftaverkamann hvernig hann ætlaði að koma fyrirheitum sínum í framkvæmd, jafnframt því sem hann myndi tryggja fjárfestum í einkavæddri heilbrigðisþjónustu góðan arð eins og hann fullyrti að myndi gerast. Vonandi spyrja gestgjafarnir og þá einnig fjölmiðlamenn Eamonn Butler út í þessa sálma.

Kannski hefur Eamonn Butler lært eitthvað á síðustu fimm árum. Um það leyfi ég mér þó að efast því ef dæma skal af málflutningi hans eru reynsluvísindi honum lítt að skapi. Verst er að það virðist eiga við gestgjafana einnig.

Sjá fyrri umfjöllun:
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1291/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1292/
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3458/
http://ogmundur.is/stjornmal/nr/3766/

Fréttabréf