HUGSUM UM ÁBENDINGAR HÖLLU


Halla Gunnarsdóttir, sem aðstoðar núverandi heilbrigiðsisráðherra, hittir naglann í höfuðið í tveimur prýðilegum blaðagreinum annars vegar í gær, hins vegar sl. sunnudag. Hún segir réttilega í Morgunblaðsgrein: "Velferðarmál eru atvinnumál og atvinnumál eru velferðarmál." Í grein í Fréttablaðinu botnar Halla hugsun sína og segir það myndi skjóta skökku við "ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjöldauppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni."
Höfum við ekki fengið að kynnast þessari mótsögn á undangengnum samdráttartímum? Vissulega á þetta við nú um stundir þótt ekki hafi enn komið til fjöldauppsagna innan velferðarþjónustunnar. Þó hafa einhverjir því miður misst vinnu sína í niðurskurðinum. Ef á komandi árum yrðu enn reistar harðar niðurkurðarkröfur á hendur heilbrigðiskerfinu myndum við fá að kynnast þeirri mótsögn sem Halla Gunnarsdóttir vísar hér til.
Helst viljum við vera án þeirrar kyninngar. Forðumst að segja fólki í mikilvægum og verðmætum störfum innan heilbrigðisþjónustunnar til þess eins að ráða það síðar í önnur störf sem þá hugsanlega koma samfélaginu ekki eins að gagni.
Hugsum! Hugsum!!

 Grein Höllu í Fréttablaðinu:

ÖFLUG HEILBRIGÐISÞJÓNUSTA SKIPTIR SKÖPUM

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi á morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins 19. mars sl. þar sem fram kom að starfsfólk heilbrigðisgeirans er líklegra til að glíma við streitu á vinnustað en aðrar starfsstéttir. Skýringarnar eru m.a. þær að umönnunarstörf geta tekið mjög á líkama og sál en einnig þær að álag er mikið og deildir oft undirmannaðar. Það er einkum þetta síðasta sem veldur áhyggjum nú þegar Íslendingar ganga í gegnum mikla samdráttartíma. Góðærið virðist nefnilega ekki hafa náð til stofnanna heilbrigðisþjónustunnar. Þvert á móti hafa þessar grunnstofnanir þurft að draga saman ár frá ári til langs tíma. Sparnaðarkröfur eru því ekki nýr veruleiki.

            Nú þarf að velta við hverjum steini og finna allar leiðir til að hagræða í rekstri. Á það við um heilbrigðisþjónustuna sem annað. Hins vegar verður að vara við því að niðurskurður leiði til stórfelldra uppsagna innan heilbrigðisþjónstunnar og velferðarkerfisins almennt. Ekki nóg um að þær myndu leiða til þess að öll þjónusta við fólk yrði lakari heldur getur það orðið mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef atvinnuleysi verður viðvarandi vandamál. Þess vegna skyti skökku við ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjölda uppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni. Eitt stærsta atvinnumálið er því að standa vörð um störf á vegum hins opinbera.

            Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar og eins og Guðbjörg Linda benti á í áðurnefndum fyrirlestri er það eingöngu læknastéttin sem er að meirihluta skipuð körlum. Uppsagnir í heilbrigðisþjónustunni myndu því koma illa niður á stórum kvennastéttum. Sé litið til reynslu annarra landa má sjá að tilhneigingin er sú á krepputímum að senda konur heim af vinnumarkaðinum og á sama tíma búa til störf fyrir karla, t.d. í þungaiðnaði og mannaflsfrekum framkvæmdum. Ekki þarf að fjölyrða um að þau störf krefjast oft kostnaðarsamra tækja og tóla og um mengandi starfsemi getur verið að ræða. Stærsta vinnutólið innan velferðakerfisins er hins vegar oftast manneskjan sjálf. Þannig mætti t.d. skapa atvinnu með því að fjölga stöðugildum í heimaþjónustu og heimahjúkrun, sem aftur myndi minnka álag á velferðarkerfið á erfiðum tímum.

            Staðan sem íslenskt þjóðfélag er í kallar á nýjar lausnir og ný viðhorf. Reynsla annarra landa sýnir að öflugt velferðakerfi skiptir sköpum á tímum sem þessum. Stöndum vörð um velferðarkerfið. Það borgar sig margfalt til lengri tíma litið. 

Grein Höllu í Morgunblaðinu:
STÖNDUM VÖRÐ UM HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNA

ÞAÐ ER sannarlega ekki með glöðu geði og bros á vör sem stjórnendur heilbrigðisstofnana taka ákvarðanir um hvar niðurskurðarhnífurinn eigi að lenda á þessu ári þegar fjárframlög til heilbrigðisþjónustu eru 6,7 milljörðum króna lægri en áætlað var. Þetta er erfitt verkefni sem þeim er falið og raunar ótrúlegur árangur sem hefur náðst í því að láta sparnaðinn koma sem minnst niður á þjónustu.

En á sama tíma og þess er krafist af heilbrigðisstofnunum að veita sömu þjónustu fyrir minna fé bendir allt til að álag á heilbrigðiskerfið aukist, enda koma efnahagsþrengingar oft illa við heilsu fólks, ekki síst þeirra sem missa vinnuna. Sigurður Thorlacius, dósent við læknadeild Háskóla Íslands, benti á það í fróðlegum fyrirlestri á opnum morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins 19. mars sl. að atvinnuleysi getur haft mjög slæm áhrif á heilsufar og dánartíðni hefur aukist í takti við meira atvinnuleysi í ýmsum löndum heims. Nú eru þetta að sjálfsögðu svartar upplýsingar. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum mikið að gert til að koma í veg fyrir að félagsleg og heilsufarsleg áhrif kreppunnar verði eins slæm og þau geta orðið. Gott og öflugt heilbrigðiskerfi er forsenda þess. Á öllum góðæristímanum var heilbrigðisstofnunum gert að spara fé. Þetta er því ekki nýr veruleiki innan heilbrigðisþjónustunnar en engu að síður ljóst að nú þarf að beita nýrri nálgun og nýrri hugsun. Hins vegar kemur í hlut stjórnvalda að senda skýr skilaboð.

Atvinnuátak og uppsagnir

Það skyti skökku við ef niðurskurður leiddi til fjölda uppsagna innan hins opinbera og á sama tíma þyrfti að ýta úr vör umfangsmiklu atvinnuátaki á vegum stjórnvalda. Atvinnuleysi getur verið mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið. Eitt mikilvægasta atvinnuátakið er því að verja störf á vegum hins opinbera. Velferðarmál eru atvinnumál og atvinnumál eru velferðarmál.

Höfundur er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Fréttabréf