VIRÐINGARVERT FRAMTAK


Hinn 1. maí 2008 voru stofnuð Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum. Þessi samtök hafa haft það stefnumarkmið að sjá til þess að áfengissalar fari að landslögum og auglýsi ekki vöru sína. Til of mikils mælst? Nei. Þetta er sjálfssögð krafa og er framtak samtakanna virðingarvert.
Sjálfur er ég ekki fylgjandi áfengisbanni. Þar er heldur ekki baráttumarkmið umræddra samtaka heldur einvörðungu að draga úr áreiti sölumennskunnar í samræmi við það sem lög kveða á um - og þá sérstaklega gagnvart börnum og unglingum. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu með áskorun nú í aðdraganda Verslunamannahelgarinnar. Ég vil hérmeð vekja athygli á henni. Hrun íslenska bankakerfisins byggði á siðblindu. Hvorki skrifuð né óskrifuð lög voru virt. Í endurreisninni er vert að hyggja að þessu. Það er lágmarkskrafa að hin skrifuðu lög séu virt. Það gera margir áfengisaslar ekki - heldur fara á bak við þau með aðstoð fjölmiðla sem þannig hafa tekið að sér aumkunnarvert hlutverk. Þessu þarf að breyta með vitundarvakningu í anda Samtaka foreldra gegn áfengisauglýsingum og sameiginlegu átaki okkar allra.

Margoft hefur verið fjallað um þetta efni hér á síðunni. Hér eru nokkrar slóðir af handahófi:
http://www.ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3924/
http://www.ogmundur.is/samfelagsmal/nr/2369/
http://www.ogmundur.is/samfelagsmal/nr/2269/
http://www.ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1483/


Áskorun Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum:

"Núna í aðdraganda Verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum, fjölmörgum dómum og almennu siðferði.

Við foreldrar
, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir - Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Nei það er ekki við hæfi.

Foreldrar - forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi - Sýnum hug okkar í verki - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.
 
Áframsendum þessa áskorun til vina og vandamanna
 
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum"

Fréttabréf