KRÖFTUGT FÓLK


Þúsundir skrá sig nú á http://orkuaudlindir.is/  þar sem hvatt er til þess að undið verði ofan af hinum ólöglega sölusamningi Magma fyrirtækisins á HS orku og að því verði beint til þjóðarinnar að taka afstöðu til þess hvaða framtíðarskipan eigi að gilda í þessum málum. Í dag birtist skýr og skelegg grein eftir Jón Þórisson, arkitekt og aðstoðarmann Evu Joly, í Fréttablaðinu sem ég hvet alla til að lesa. Hann er í hópi fólks sem gengið hefur fram fyrir skjöldu í baráttu fyrir samfélagslegu eignarhaldi á orkuiðnaðinum og ber að þakka honum, aðkomu okkar ástsælu  Bjarkar, Oddnýjar Eir Ævarsdóttur ber einnig að þakka og margra annarra að undanförnu. Það er ómetanlegt fyrir samfélagið að eiga þetta kröftuga fólk að og mætti nefna mörg fleiri nöfn, svo sem Láru Hönnu Einardóttur sem bloggar reglulega á Eyjuna og Sigrúnu Davíðsdóttur sem hefur verið með frábæra pistla í RÚV. Áfram mætti telja. Að vísu ekkert mjög lengi. Þeir eru nefnilega ekki óteljandi fréttamennirnir sem skilja mikilvægi þess að kafa í þessi mál. Það er umhugsunarvert að í tengslum við fréttamannafund Bjarkar og félaga mátti sjá umfjölllun á forsíðu Financial Times en halda þurfti á innsíður íslenskra blaða til að fá af fundinum fréttir. Á ljósvakanum var nokkuð liðið á fréttatímana þar til upplýst var um fundinn.
Sjá grein Jóns Þórissonar:  http://visir.is/nu-tharf-ad-stodva-hrunid-/article/2010925181364 

Fréttabréf