ÁHRIFARÍK HEIMSÓKN

Osló Dómsmálaráðh Norðurlanda jun 12
Dómsmálaráðherrar Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Finnlands, Íslands, Færeyja og Grænlands.

Það var áhrifarík stund að koma á stjórnarráðs svæðið í Osló þar sem Anders Breivik framdi hryðjuverk hinn 22. júlí í fyrra með þeim afleiðingum að átta einstaklingar létu lífið og fjöldi slasaðist. Sama dag framdi sami maður fjöldamorð á eyjunni  Utöya úti fyrir Osló. Þar drap hann 69 einstaklinga.

Sá hluti stjórnarráðs-svæðisins sem varð fyrir sprengingunni er enn lokaður og er unnið að viðgerðum.

Á staðnum rann það upp fyrir okkur sem þarna vorum hve hrikaleg sprengingin og þetta hryllilega ódæði  var. Morðinginn er sagður hafa tafist þennan örlagaríka föstudag. Starfsdegi lauk klukkan þrjú en sprengjan sprakk undir hálf fjögur. Hálftíminn sem þarna leið er talinn hafa skipt sköpum.

Ég átti fróðlegt samtal við norska dómsmálaráðherrann, Grete Faremo,  um þessa atburði. Ég sagði henni hve mjög ég dáðist að Norðmönnum fyrir hvernig þeir tóku á þessu máli, opnuðu samfélagið en lokuðu ekki, allt hugsað með það í huga að voðaverkið yrði ekki til að veikja lýðræðið heldur þvert á móti til að styrkja það.

Ég sagðist þó hafa efasemdir um einn hlut og það væru sjálf réttarhöldin. Hefði ekki verið nær að hafa manninn nánast ósýnilegan - hinn ákærða í stað þess að sjá hann ávarpaðan með fullu nafni, sperrtan og drýgindalegan. Grete Faremo sagði að þetta hefði verið mikið rætt í Noregi. Niðurstaða sín væri að þegar upp væri staðið, væri þetta til góðs. Þarna stæði Breivik, handjárnaður, ósköp smár í öllu tilliti, innan um fjölda lögreglumanna, sem gættu hans og fylgdust með hverri hreyfingu hans.
 
Á þennan hátt væri morðinginn raunveruleikagerður og hætti fyrir vikið að vera sú huglæga ógn sem hann hugsanlega ella hefði orðið sem hinn óþekkti maður, ófreskjan ósýnilega. Þetta fundust mér vera góð rök og sannfærandi.

Tilefni veru minnar í Osló var árlegur fundur  dómsmálaráðherra Norðurlandanna, sjá:  http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28130

Fréttabréf