Hvert leiðir uppstokkun í stjórnmálum?

Birtist í Mbl.
Nú er það að gerast í íslenskum stjórnmálum sem lengi hefur legið í loftinu: uppstokkun. Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Kvennalisti sameinaðir í eina sæng og líkur á nýju vinstra framboði. Þótt þessir flokkar verði sameinaðir er ljóst að kjósendurnir munu engan veginn allir fylgja enda eiga flokkar ekki fólk. Á dögunum var sagt að best væri að leggja alla flokka niður og menn skipuðu sér í sveit þar sem hugur þeirra og áherslur lægju. Ef þetta væri gert og menn losaðir undan byrðum vanans myndi margt án efa breytast í pólitíkinni. Sennilega yrði breytingin mest fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hann myndi margklofna, enda fyrst og fremst um hugsjónalaust valdabandalag að ræða. Svipaða sögu er að segja um Framsóknarflokkinn. Mér segir svo hugur að mjög mörgum kjósendum Framsóknar líki illa það sem flokkurinn er að gera í slagtogi með Sjálfstæðisflokknum.

Hvert fara vinstri sinnaðir kjósendur Alþýðuflokks?

Sennilega hefur þó fáum liðið eins illa með flokkinn sinn á undanförnum árum og Alþýðuflokksmönnum úr röðum launafólks. Ekki leikur á því minnsti vafi að þegar ráðist var á velferðarþjónustuna af sem mestum móð í Viðeyjarstjórn þeirra Davíðs og Jóns Baldvins hefur farið um margan Alþýðuflokksmanninn. En engu að síður létu menn sig hafa það, þetta var jú þeirra flokkur. Svona verður fólk að hætta að hugsa. Stjórnmál eru ekki trúarbrögð og flokkar ekki kirkjur og fólk á að fylgja sannfæringu sinni en ekki lúta forsjá stjórnmálaflokka. Mér býður í grun að í kjósendahópi Alþýðuflokksins sé umtalsverður fjöldi vinstri sinna sem aldrei hafi átt samleið með markaðshyggju flokksforystunnar. Spurningin er hvort þessi hópur þarf ekki að hugsa sinn gang eins og við öll. Það er mín sannfæring að margir alþýðuflokksmenn muni kjósa að stilla sér upp vinstra megin við nýja krataflokkinn.

Og framsóknarmenn og kvennalistakonur?

Spurningin er nú sú hvort þetta fólk eigi ekki betur heima í vinstra framboði en nýjum flokki sem flokksforystur Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista eru að sjóða saman. Sama gildir um alþýðubandalagsfólk, fyrrverandi kvennalistakonur og að sjálfsögðu einnig framsóknarmenn. Og ég leyfi mér að ganga svo langt að fullyrða að í röðum sjálfstæðismanna sé að finna róttæka vinstri menn. Sakir ættartengsla eða tilviljana í lífinu hafa þeir hins vegar hafnað í Sjálfstæðisflokknum og ekki haft döngun í sér til að brjótast þaðan út. Jafnvel úr þessari átt gætu komið kjósendur sem færu annað hvort til kratanna eða yfir í nýtt vinstra framboð sem kynni að verða til.

Hver á heima hvar?

Ég hvet til þess að allir skoði hug sinn og spyrji fordómalust: Hvar á ég heima? Ef fólk finnur að sannfæring og flokkur fari ekki saman þurfa menn að hugsa sér til hreyfings hvert sem svo leiðin liggur í nýja krataframboðið, flokk þar til vinstri eða til nýrra flokka sem án efa myndu spretta upp ef sjálfstæðismenn gæfu ímyndunaraflinu lausan tauminn og létu sannfæringu sína ráða för.

Fréttabréf