Fara í efni

Með réttlátum sköttum­ gegn ranglátum

Birtist í Mbl
Í tengslum við komandi alþingiskosningar hefur verið gengið eftir því við stjórnmálaflokka hverjar fyrirætlanir þeir hafi í helstu málaflokkum sem koma til kasta Alþingis. Fyrir sitt leyti hafa stjórnmálaflokkar og einstakir alþingismenn reynt að kynna sína stefnu og áherslur. Í skattamálum hafa tveir áhrifamiklir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Pétur Blöndal, þingmaður Reykjavíkur, og Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra, gengið fram fyrir skjöldu. Í grein sem Pétur Blöndal ritar í DV sl. fimmtudag segir hann m.a.: „Ég hef ásamt Vilhjálmi Egilssyni lagt fram á Alþingi frumvarp sem gengur út á að staðgreiðsla skatta verði 20%. Felldar verði niður alls konar bætur sem og persónufrádráttur. Þessi 20% gæfu sömu tekjur til velferðarmála að öllu óbreyttu.“

Sérfræðingar Sjálfstæðisflokksins opna sig

Það er mikilvægt að kjósendur geri sér grein fyrir því hvað þessir helstu sérfræðingar Sjálfstæðisflokksins í peninga- og skattamálum eru að segja. Þeir leggja til breytta dreifingu á skattbyrðinni en staðhæfa að ríkissjóður muni ekki verða fyrir tekjutapi. Með öðrum orðum, einhverjir eiga að borga meira í skatta en þeir hafa gert hingað til, aðrir minna. Nú er spurningin hvaða hópar þetta eru. Við núverandi aðstæður eru skattleysismörkin um 60 þúsund krónur. Skattleysismörkin hafa það í för með sér að þrátt fyrir að skatthlutfallið sé 38,34% þá greiðir enginn einstaklingur sem hefur tekjur undir 120 þúsundum meira en 20% skatt. Það er ekki fyrr en einstaklingurinn er kominn með 120 þúsund krónur á mánuði í tekjur eða hjón 240 þúsund, að þau ná 20% markinu þeirra Péturs og Vilhjálms. Með afnámi persónufrádráttar og lækkun skattprósentunnar eru þeir í raun að leggja til skattahækkun á lágtekjufólk sem hefur innan við 120 þúsund krónur á mánuði. Allir þeir sem eru þar fyrir ofan myndu hins vegar njóta skattalækkunar.

Viðhorf Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs

En finnst mönnum siðlegt að láta lágtekjufólk niðurgreiða skattalækkanir þeirra sem betur eru stæðir? Ekki finnst okkur það í Vinstrihreyfingunni ­ grænu framboði. Við höfum lagt til endurskoðun á skattkerfinu með fjölþrepa skatta í huga. Fyrir okkur vakir að færa skattbyrðina til, þannig að lágtekjufólki og millitekjufólki, einkum barnafólki, verði ívilnað en þeir sem eru aflögufærir taki meira á sig. Reyndar gera tillögur okkar á tekjuskattskerfinu ekki ráð fyrir miklum tilfærslum á fjármagni. Þar höfum við aðrar skattkerfisbreytingar í huga ásamt uppstokkun á barnabótakerfinu og almannatryggingakerfinu. Tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar slæm tíðindi fyrir lágtekju- og millitekjuhópa og verða án efa ábyrgu og félagslega sinnuðu fólki í hátekjukantinum umhugsunarefni. Það væri ekki verra að kjósendur leiddu hugann að því hvaða viðhorf þeir vilja að verði ríkjandi á Alþingi og í Stjórnarráðinu næstu fjögur árin. Þetta er verðugt umhugsunarefni þegar gengið er inn í kjörklefann í vikulok.