Fara í efni

Hjálmar og ogmundur.is

Birtist í Mbl. 5. febrúar 2003
Ekki veit ég hve margir lásu grein sem birtist í Morgunblaðinu s.l. laugardag eftir Hjálmar Árnason alþingismann. Ég las þessa grein og að öllum líkindum hafa margir starfsmenn Barnaspítala Hringsins lesið greinina því hún bar yfirskriftina Ögmundur og barnaspítalinn. Ekki verður beinlínis sagt að mér séu vandaðar kveðjurnar í þessari grein. Tildrögin eru þau að ég vék lítillega að opnun barnaspítalans á heimasíðu minni ogmundur.is daginn eftir að hann var opnaður. Hjálmari Árnasyni fannst ég gera það á svo svívirðilegan hátt að ég "skuldi Hringskonum afsökunarbeiðni fyrir að gera önuga tilraun að ræna þær þessum mikilvæga degi. Og viti hann það ekki þá skal hann upplýstur um að án Hringsins væri BSP ekki orðinn að veruleika." Ekki nægir að mati Hjálmars að ég biðji Hringskonur afsökunar heldur einnig alla sem komið hafa að því að barnaspítalinn varð að veruleika. Það er best að gefa höfundi orðið um þetta efni: "framsetning Ögmundar er skammarleg gagnvart öllu því frábæra fólki sem lagt hefur á sig mikla vinnu á síðustu misserum til að láta drauminn rætast. Þar hafa menn einungis hugsað um þetta eina markmið: Að búa veikum börnum sem best skilyrði. Framsetning Ögmundar gagnvart þessu fólki er honum til minnkunar." En víkjum nú nánar að meintum glæp mínum. Þannig var að daginn fyrir vígsluna birtust miklar myndir af Hjálmari Árnasyni í fjölmiðlum og varð mér þá hugsað til samsvarandi athafna fyrir kosningar eins langt aftur og mig rekur minni til. Á heimasíðu minni er lítill dálkur sem ber yfirskriftina Í Brennidepli. Þar birtust eftirfarandi línur af þessu tilefni: 

"Hjálmar Árnason alþingismaður tók sig einstaklega vel út við opnun Barnaspítala Hringsins í gær og var Framsóknarflokknum til mikils sóma. Hjálmar var formaður byggingarnefndar og því eðlilegt að hann kæmi fram við þessi tímamót fyrir hönd skattborgaranna. Einstaklega vel var til fundið að draga opnunarhátíðina á langinn. Þannig var á laugardegi eins konar forsýning fyrir fjölmiðla þar sem Hjálmar sýndi starfsmönnum lykla sjúkrahússins. Ljósmyndarar blaðanna náðu að fanga augnablikið þannig að þegar komið var á hina einu og sönnu opnun daginn eftir vissu menn hvers mátti vænta. Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er að hefja kosningabaráttuna í hefðbundnum stíl ríkisstjórnarflokks og má vænta þess að mikið verði um dýrðir við opnanir og borðaklippingar þegar líður að vori." 

Svo mörg voru þau orð. Þetta þykir Hjálmari Árnasyni skammarleg aðför að öllum sem komið hafa að Barnaspítala Hringsins og eiga sér það eitt markmið að búa veikum börnum sem best skilyrði. Nú eigi ég að biðja allt þetta fólk afsökunar. 

En nú er mér spurn, hvers vegna á ég að biðja þetta fólk afsökunar? Ég halla hvergi á það orði. Ég hef reyndar alltaf talið það vera mikilvægasta hagsmunamál samfélagsins að hafa sem allra besta heilbrigðisþjónustu og því jafnan verið andvígur niðurskurði en stutt uppbyggingarstarf – hver sem í hlut á. Sérstaklega mikilvægt hefur mér þótt að búa betur að langveikum börnum og aðstandendum þeirra. Opnun þessa nýja spítala er því ekki síður mér en öðrum landsmönnum fagnaðarefni. Ekki efast ég heldur um góðan hug Hjálmars Árnasonar hvað þetta snertir. En þegar kemur að frekari útleggingum hans gildir öðru máli. 

Hjálmar segir að ég megi "agnúast" út í sig og flokksfélaga sína en heldur "langt sé seilst í pólitískum ákafa að draga BSP inn í samsæriskenningar sem enga stoð eiga í raunveruleikanum." Mér muni hins vegar "ekki takast að svipta þá er vilja BSP allt hið besta gleði yfir þessum skemmtilega áfanga."

En má “agnúast” út í framsóknarmenn og eins og Hjálmar fullyrðir? Ef marka má reiði og rangtúlkanir hans bendir fátt til þess. Bent var á að Framsóknarflokkurinn væri nú að hefja kosningabaráttuna á venjubundinn hátt stjórnarflokks og hefðum við nú dæmi um slíkt hjá Hjálmari Árnasyni þingmanni flokksins; samkvæmt venju væri von á miklum dýrðum við opnanir og borðaklippingar er nær drægi kosningum í vor. Ef þetta er rangt er sjálfsagt mál að Hjálmar mótmæli – þess vegna harðlega og gagnrýni mig fyrir ómaklega aðför að Framsóknarflokknum og eigin persónu. 

En þetta vakti hins vegar ekki fyrir þingmanninum þegar hann settist niður við skriftir. Í grein sinni snýr hann þvert á móti meðvitað út úr orðum mínum og gefur í skyn að ég sé sérstakur óvildarmaður sjúkra barna og Kvenfélagsins Hringsins. Dæmi nú hver fyrir sig. Þegar allt kemur til alls er engu líkara en Hjálmar Árnason gæti vel hugsað sér að draga hátíðahöldin á langinn enn um sinn. Ef sú er raunin finnst mér það ekki gert á sérlega smekklegan hátt.