Fara í efni

Pólitískir prófessorar

Mig langar til að koma tillögu á framfæri við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands: Nemandi í framhaldsnámi fái sem rannsóknarverkefni fyrir doktorspróf að kortleggja samspilið á milli kosningabaráttu Samfylkingarinnar og yfirlýsinga kennara við félagsvísindadeildina. Mér virðist þetta jafnan smella sem flís við rass. Prófessorarnir eru iðulega fengnir til að tjá sig um kosnigabaráttuna og kosningar í fjölmiðlum í því augnamiði að varpa "fræðilegu" ljósi á það sem er að gerast.

Ég minnist þess úr síðustu kosningabaráttu hvernig Ólafur Harðarson prófessor nýtti jafnan gestrisni Ríkisútvarpsins til að tala Vinstrihreyfinguna grænt framboð niður í fylgi en hefja hins vegar Samfylkinguna til skýjanna. Prófessorarnir Svanur Kristjánsson og Gunnar Helgi Kristinsson hafa einnig reynst liðtækir í þessu efni. Nú er verkefnið greinilega að snúa íslenskum stjórnmálum upp í baráttu tveggja flokka og tala alla aðra út af borðinu. Í gær tjáðu þeir Svanur og Gunnar Helgi sig á forsíðu Fréttablaðisins um ölduganginn í tebolla þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Davíðs Oddssonar en augljóst er að Samfylkingin gerir nú allt sem í hennar valdi stendur til að beina íslenskri stjórnmálaumræðu niður í þennan bolla. Efnt er til fundahalda til að köpuryrðast og stofna til tveggja manna tals. Og ekki stendur á yfirlýsingum fræðimannanna, þeir taka bakföll: "Óvenju merkileg og hörð kosningabarátta", er yfirskriftin og í undirfyrirsögn er vitnað til þess að tveir prófessorar telji að yfirstandandi kosningabarátta feli í sér "stórfelld pólitísk tíðindi". Orðrétt er síðan haft eftir Gunnari Helga: "Það gneistar á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins... Þessi tveggja flokka kosningabarátta er ekki eitthvað sem við höfum átt að venjast hér á landi." Þá telur Gunnar Helgi að munurinn á stefnumálum flokkanna sé skýr og Svanur bætir í og vísar í kvótakerfið, utanríkismál og skatta: "Frjálslyndir og Samfylking vilja skattalækkanir sem koma fyrst og fremst þeim tekjulægri til góða."

En mér er spurn, Þarf ekki að rýna nánar í þessa hluti ef maður vill kalla sig fræðimann? Þykir þeim engin þörf á að vísa í skattatillögur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og hver skyldi vera munurinn á einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar, er hann alveg skýr? Og hver er munurinn á utanríkisstefnu stjórnar og stjórnandstöðu og einnig innbyrðis milli flokka í stjórn og stjórnarandstöðu? Er það svona sem prófessorarnir kenna stjórnmálafræðina, eða eru þessar yfirlýsingar bara hugsaðar sem innlegg í kosningabaráttuna? Ég vona það Háskóla Íslands vegna.

Mér finnst ágætt að menn séu pólitískir. Það á líka við um háskólaprófessora. Þegar þeir gerast hins vegar mjög borulegir í hugsun þá ættu þeir að láta ógert að tala í nafni fræða sinna heldur bara sem hreinir og beinir fylgismenn Samfylkingarinnar. Þetta ættu fjölmiðlamenn líka að hafa í huga og þá kalla fleiri til úr fræðimannaflórunni svo við þurfum ekki að sitja undir eintali þessara pólitísku prófessora Samfylkingarinnar.