Fara í efni

Tillaga um nýtt form á kosningaumræðunni

Ég held að flestum beri saman um að kosningaumræðan í ljósvakafjölmiðlunum sé komin í öngstræti. Efstu menn á listum í hverju kjördæmi eru boðaðir í færibandaþætti og garnirnar eru raktar úr formönnum flokkanna í fjölda spjallþátta. Útkoman er óttaleg flatneskja; umræða sem hvorki er fugl né fiskur. Frammistaða einstakra frambjóðenda ræðst vissulega að nokkru leyti af því hve vel þeir koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Yfirleitt eiga þeir þó allt sitt undir duttlungum stjórnenda þáttanna um hvort pólitísk hugðarefni þeirra eru yfirleitt rædd.

Formið framkallar ekki markvissa umræðu

Nú er ég ekki með þessu að deila á fagmennsku allra stjórnenda í pólitískum umræðuþáttum. Margir þeirra rækja hlutverk sitt með prýði. Formið býður hins vegar ekki upp á djúpa umræðu. Þetta kann að vera skýringin á því að nánast ekkert var rætt um utanríkismál í aðdraganda nýafstaðinna Alþingiskosninga, og voru þó ærin tilefni til. Sama gildir um ýmsa aðra málaflokka.

Tillaga mín er þessi. Í aðdraganda næstu Alþingiskosninga verði efnt til umræðuþátta um málefni í stað þess að beina sjónum að einstökum kjördæmum. Ef vilji væri til þess að kynna efstu frambjóðendur sérstaklega má gera það á annan hátt en í hringborðsumræðum. Spurning hvort hafa ætti sérstaka kynningu á þeim frambjóðendum sem ekki hafa setið á þingi. Hinum er þjóðin hvort eð er búin að kynnast – ef hún þá er ekki búin að fá upp í háls.

Með þessu móti yrðu sérstakir þættir um: Byggða- og atvinnumál, fiskveiðistjórnunarkerfið, heilbrigðis- og tryggingamál, utanríkismál, jafnréttismál, umhverfismál, menntamál, menningu og rannsóknir. Þessa málaflokka nefni ég sem dæmi og mætti hugsa sér að allt málefnasviðið yrði meira og minna skannað en útvarp og sjónvarp gætu skipt með sér verkum.

Gaman væri að fá viðbrögð við þessari hugmynd 

Er þetta ekki líklegra til að stuðla að málefnalegri umræðu en það fyrirkomulag sem við búum við? Hver veit nema talsmenn flokkanna yrðu þá á markvisari hátt krafðir svara um stefnu þeirra? Væri ekki til nokkurs unnið? Fróðlegt væri að fá viðbrögð við þessari fyrirspurn.