Fara í efni

Góður Landsfundur VG

Um helgina hélt Vinstrihreyfingin grænt framboð einstaklega vel heppnaðan landsfund. Ályktað var um aðskiljanleg efni og var mikil áhersla á velferðarmál, umhverfismál og alþjóðamál. Umræða um jafnrétti kynjanna setti einnig mjög svip á fundinn. Hann var góður að mjög mörgu leyti. Eftir hann liggur afrakstur mikillar stefnumótunarvinnu og frá fundinum komu mjög jákvæð skilaboð út í þjóðfélagið. Þessi skilaboð um baráttuglaðan vinstrisinnaðan félagshyggjuflokk voru mörgum mjög kærkomin í kjölfar landsfundar Samfylkingarinnar þar sem áherslur voru talsvert lengra til hægri en áður hefur heyrst úr þeim herbúðum. Markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar virðist komin á dagskrá þar á bæ! Að vísu er okkur sagt að  Samfylkingin eigi eftir að kanna málið – en það vekur athygli, að einmitt nú þegar vitað er um átök innan ríkisstjórnarinnar um stefnuna í heilbrigðismálum, skuli Samfylkingin leggja lóð sitt á vogarskálar með markaðshyggjumönnum.

Sterkir innviðir

Landsfundur VG var einnig góður fyrir flokkinn inn á við. Enda þótt mikil eftirsjá sé í Svanhildi Kaaber úr embætti varaformanns flokksins og Kristínu Halldórsdóttur úr embætti ritara ( hún fer reyndar ekki langt því hún er eftir sem áður framkvæmdastjóri VG) þá koma galvaskar ungar konur í þeirra stað: Katrín Jakobsdóttir var kosin varaformaður og Drífa Snædal ritari. Báðar hafa þær getir sér mjög gott orð og látið að sér kveða í pólitíkinni. Ekki leikur nokkur vafi á því að við eigum að heyra mikið frá þeim á komandi árum. Kosið var um varaformennskuna og var Steingrímur Ólafsson fyrrverandi formaður VG í Reykjavík í kjöri. Nær væri að segja að hann hafi verið boðinn fram en að hann hafi boðið sig fram því margir vildu gjarnan sjá hann komast til frekari áhrifa innan VG enda kraftmikill og glöggur. Framboð Steingríms kom seint fram en almennt held ég að fólki hafi þótt ágætt að fá kosningar um embætti í flokknum. Hygg ég að allir hafi staðið upp ósárir.

 Hvernig á að kjósa í stjórnir?

 Talsvert var um kosningar í stjórn VG og komust færri að en vildu. Uppstillingarnefnd var hins vegar með afgerandi vísbendingar sem urðu að endanlegri niðurstöðu. Á undanförnum árum hefur talsvert verið rætt um fyrirkomulag við kosningar í félagasamtökum og er ég í hópi þeirra sem hef vaxandi efasemdir um uppstillingarnefndarformið og gerist æ hlynntari opnum kosningum. Sá sem býður sig fram í stjórnir og ráð án þess að vera tilnefndur af uppstillingarnefnd á yfirleitt litla möguleika á kosningu. Sú spurning vaknar hvort þetta sé nægilega lýðræðislegt form.

 Svanhildur með frá fyrstu byrjun

 Sem áður segir er mikil eftirsjá í Svanhildi Kaaber sem verið hefur í fremstu víglínu VG frá upphafi. Hún tók þátt í stofnun flokksins og var reyndar með í öllum aðdragandanum. VG á sér margar rætur. Ein heitir Stefna, félag vinstri manna, sem stofnað var á fyrri hluta ársins 1998 með það fyrir augum að búa í haginn fyrir kröftuga baráttu vinstri manna. Niðurstaðan varð Vinstrihreyfingin grænt framboð þar sem fólk úr ýmsum áttum, þar á meðal úr Stefnu, tók höndum saman. Svanhildur Kaaber var ein aðaladriffjöðurin í þessu starfi. Þetta eru ekki pólitísk minnigarorð heldur þakkarorð fyrir frábært starf hennar á vettvangi VG sem varaformaður flokksins á fyrstu mótunarárum hans.
Eftir þennan landsfund og þær líflegu og skemmtilegu umræður sem þar fóru fram, velkist ég ekki í nokkrum vafa um að Vinstrihreyfingin grænt framboð á bjarta framtíð.