Aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar leiðréttur
Birtist í Morgunblaðinu 22.12.2003
Í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins skrifar Björn Ingi Hrafnsson
grein, sem ber titilinn Traust og trúverðugleiki. Höfundur, sem
titlar sig "varaþingmaður Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður
utanríkisráðherra", rís því miður ekki undir þessari dýru fyrirsögn
greinar sinnar því hann gerist þar sekur um að fara með staðlausa
stafi. Umræðuefni Björns Inga er margumtalað lífeyrisfrumvarp
ríkisstjórnarinnar.
Hann segir m.a.: "Nú er rétt að geta þess að þverpólitísk
frumvörp eru ekki ýkja algeng á Alþingi Íslendinga. Þaðan af síður
þingmannafrumvörp sem orðið hafa til í samtölum formanna allra
flokka og allir þingflokkar hafa samþykkt að leggja fram. Slíkt
heyrir fremur til udantekninga og þá vitaskuld aðeins að full sátt
sé um mál og til standi að afgreiða þau. Einmitt þetta átti við um
eftirlaunafrumvarpið og hin mikla samstaða um það endurspeglaðist í
hófstilltri umræðu um efni þess við fyrstu umræðu á Alþingi, enda
þótt það ætti vissulega eftir að breytast."
Í fyrsta lagi skal það tekið fram að mjög eindregin andstaða
kom fram gegn frumvarpinu þegar við fyrstu umræðu á Alþingi. Þetta
geta menn kynnt sér í gagnasafni Alþingis. Af hálfu þingmanna VG
fór ekkert á milli mála hvaða augum frumvarpið var litið enda hafði
aðstandendum þess verið skýrt frá því áður, að andstaða væri fyrir
hendi af hálfu VG. Ekkert fór á milli mála á þeim
bænum.
Þá er ósatt að um hafi verið að ræða samkomulagsmál milli
þingflokkanna eins og aðstoðarmaður utanríkisráðherra gefur í skyn
í framangreindri tilvitnun. Þingflokkarnir höfðu ekki séð umrætt
frumvarp þegar því var dengt fram miðvikudaginn 10. desember,
daginn áður en fyrsta umræða fór fram um málið. Þingflokkar
Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykktu frumvarpið þegar í
stað eftir hraðsuðuyfirferð. Þetta er okkur nú sagt vera vinnubrögð
sem gildi hjá "stjórntækum" flokkum og er svo að skilja að aðeins
þeir stjórnmálaflokkar séu "stjórntækir", sem hafa á að skipa
þingliði sem þarf ekki að kynna sér málin áður en það samþykkir
þau, ef svo er mælt fyrir um.
Í þriðja lagi vil ég lýsa furðu á því að aðstoðarmaður Halldórs
Ásgrímssonar skuli vísa til samræðna formanna stjórnmálaflokkanna
án þess að hafa sjálfur verið viðstaddur slíka fundi og því ekki
með vitneskju frá fyrstu hendi um hvað þar fór fram, hvaða
fyrirvarar kunni að hafa verið settir um efnisþætti og málsmeðferð.
Það sem meira er, eftir því sem ég best veit, sat formaður
Framsóknarflokksins enga slíka fundi með formönnum
stjórnarandstöðuflokkanna.
Þetta er óvandaður og ótrúverðugur málflutningur og ekki sæmandi
Birni Inga Hrafnssyni, pólitískum aðstoðarmanni Halldórs
Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins. Annað hvort er Björn
Ingi vísvitandi að fara með rangt mál eða að formaður
Framsóknarflokksins segir honum ekki rétt frá.