Fara í efni

Ákall til Samfylkingarinnar: Ekki Blair til Íslands!

Birtist í Morgunblaðinu 21.10.04.
Sl. mánudag greinir Morgunblaðið frá stefnumótunarvinnu Samfylkingarinnar á sviði skólamála. Svokallaður Framtíðarhópur flokksins hafði nýlokið við að boða framtíðarsýn sína í skólamálum. Án efa rak margan í rogastans. Boðað var að flokkurinn tæki einkavæðingu grunnskólans opnum örmum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þetta er sama formúla og áður var boðuð í heilbrigðisþjónustunni. Ég fæ ekki betur séð en formúleringin sé sú sama og hjá Sjálfstæðisflokki, sem nú er kominn inn á þá línu að hið opinbera eigi að standa straum af kostnaði við heilbrigðis- og skólakerfi en einkaaðilar eigi að sinna því. Einnig hann talar um að uppfylla þurfi tiltekin félagsleg skilyrði þegar haldið er með þessa þjónustu inn á markaðstorgið.

Er Áslandsskóladeilan gleymd?

Ástæðan fyrir því, að margur maðurinn rekur upp stór augu þegar Samfylkingin opnar sig á þennan hátt, er sú, að því hefur margoft verið lýst yfir af hálfu flokksins að einkavæðing heilbrigðis- og menntakerfis komi ekki til greina. Hver man ekki deilurnar um Áslandsskóla í Hafnarfirði? "Af og frá", sagði stjórnarandstaðan þá einum rómi, ekki síður Samfylking en aðrir. Hvað segir Framtíðarhópurinn nú: "Til greina kemur að bjóða út byggingu og fasteignarekstur sérstaklega og kennslu og fæði sérstaklega. Var gert í Áslandsskóla og dæmi eru um þetta úr nokkrum leikskólum..." Allt á þetta að vísu að vera til "fordómalausrar" skoðunar en þó er staðhæft að Samfylkingin telji "að útboð á rekstri hverfagrunnskóla til einkaaðila geti fyllilega samræmst stefnu flokksins um uppbyggingu grunnskólans..." Þá segir starfshópurinn, samkvæmt frétt Morgunblaðsins, "að ýmsir fjárfestingar- og rekstrarþættir geti einnig verið betur komnir í höndum einkaaðila. Nauðsynlegt sé að sveitarfélög kanni fordómalaust hvenær slíkt leiði til hagfelldari útkomu...."

Ítarlegar skýrslur til um einkaframkvæmd

 Það er nú ekki eins og einkaframkvæmdin hafi ekki verið könnuð. Í Bretlandi hafa verið gerðar ítarlegar skýrlsur um alla þá valkosti sem Framtíðarhópur Samfylkingarinnar tíundar. Leyfi ég mér að vísa í nýlega og mjög ítarlega skýrslu sem Unison verkalýðsfélagið birti í júlí og varð kveikja að mikilli umræðu í breskum fjölmiðlum í sumar. Þar kom fram að einkaframkvæmdin sem Framtíðarhópur Samfylkingarinnar virðist hrífast af, hefur reynst miklu dýrari fyrir skattborgarann en rekstur ríkis eða sveitarfélags á grunnþjónustunni.
Í breska ríkisútvarpinu, BBC, var nýlega fjallað ítarlega um reynsluna af einkaframkvæmd í Bretlandi. Þar var m.a. staðnæmst við nýja hlið á þessum málum sem nú væri að koma fram: Samningar um einkaframkvæmd gangi nú kaupum og sölum á milli fjárfesta. Þannig hafi myndast eftirmarkaður með skóla, sjúkrahús og fangelsi! Í umfjöllun BBC sagði formaður samráðsnefndar um PFI (Public Private partnership Forum), David Metter að nafni, sem sjálfur á í fyrirtæki sem keypt hefur hluti í meira en 20 skólum, að hér væri um að ræða frjálsan markað og það kæmi hinu opinbera ekki við þótt menn högnuðust á þessum viðskiptum sínum! Til andmæla var Richard Bacon, þingmaður Íhaldsflokksins (!) sem sæti á í opinberri nefnd um endurskoðun ríkisreikninga (Commons Public Accounts Committee). Hann sagði hins vegar að skattborgaranum kæmi við hvernig með fé hans væri farið og fjárfestar í rekstri á vegum hins opinbera yrðu að sætta sig við meiri upplýsingaskyldu en í öðrum rekstri.

 Samsvörun á milli Bretlands og Íslands

 Hér virðist manni sem pólitíkinni hafi verið snúið á haus. En ég nefni þetta vegna þess að ákveðna samsvörun má einmitt finna hér á landi. Einn er sá aðili sem hefur kannað að eigin sögn "fordómalaust" kosti og galla einkaframkvæmdar. Það er fyrirtækið Nýsir. Ráðleggingarnar hafa jafnan verið á þann veg að öllum rekstri sé betur borgið í einkaframkvæmd. Hver skyldi svo hafa tekið að sér reksturinn annar en Nýsir sem nú færir sífellt út kvíarnar í rekstri almannaþjónustu?
Önnur samsvörun við Bretland er að auk vinstri manna er að finna í röðum markaðshyggjumanna einstaklinga sem ráða eindregið frá einkaframkvæmd. Dæmi um slíkan mann er Gunnar Birgisson, þingmaður og forseti bæjarstjórnar í Kópavogi. Því má ekki gleyma að Gunnar hefur verið umsvifamikill verktaki. Gæti verið að viðskiptavitið segi honum að þetta sé ekki góður bisness fyrir sveitarfélagið?
Og síðasta samsvörunin er náttúrlega við Blair. Mér sýnist Framtíðarhópur Samfylkingarinnar hafa gengið í smiðju hans. Verkalýðsfélagið Unison segir það vera veikleika hjá Blairstjórninni að neita að láta fara fram vandaða úttekt á einkaframkvæmdinni. Hún tali mikið um þörf á "fordómalausri" umræðu. En þegar til kastanna komi sé markaðssækinni hugmyndafræði hins vegar fylgt samkvæmt bókstafnum.
Og nú kemur ákallið til Samfylkingarinnar: Ekki Blair til Íslands!