Fara í efni

Hlýjar kveðjur frá Össuri

Á flokkstjórnarráðstefnu Samfylkingarinnar nú um helgina sendi Össur Skarphéðinsson,  formaður þess flokks, stjórnarandstöðunni hlýjar kveðjur - og raunsæjar - mjög í anda þess sem Vinstrihreyfingin grænt framboð sagði fyrir síðustu Alþingiskosningar. Batnandi mönnum er best að lifa. Þetta sagði Össur m.a. "Við þessar aðstæður er hlutverk stjórnarandstöðunnar mikilvægara en endranær. Við þurfum að leggja okkur enn frekar fram en áður um að endurheimta þann mannleika, þá mannúð, þá virðingu sem var áður grunntónn almannavaldsins í samskiptum við almenning. Við verðum að laga okkur að aðstæðum og læra af reynslunni. Stjórnarandstaðan hefur aldrei náð jafn miklum árangri og þegar hún var samstæð og samhent.
Það lærðum við af fjölmiðlamálinu. Ef við ætlum að verja hag almennings gegn ofríki ríkisstjórnarinnar einsog í fjölmiðlamálinu er samstaðan langsterkasta vopnið. Við gerðum það varðandi fjölmiðlanefndina fyrr í vikunni og höfðum fullan sigur.
Samfylkingin, Vinstri hreyfingin-grænt framboð og Frjálslyndir eru ólíkir flokkar að mörgu leyti. Grunnstefið allra þriggja er þó virðingin fyrir félagslegri velferð landsmanna.
Við eigum að vinna saman að því sem er sameiginlegt, en ekki hika við að rækta sérstöðu okkar. Og það sem sameinar okkar mest um þessar mundir er andstaðan við ríkisstjórn, sem sannarlega var vond fyrir en fer samt versnandi!"