Fara í efni

STJÓRNMÁLAFLOKKAR EIGA AÐ TALA SKÝRT

Ég hef margoft lýst þeirri skoðun að tveggja flokka kerfi, einsog er við lýði í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi reynst illa að því leyti að það dregur úr pólitískum áherslum í stjórnmálalífinu; höfuðfylkingarnar tvær keppa um þá hópa sem þær telja að geti hugsað sér hvorn valkostinn sem væri, þær keppa m.ö.o. um hina svokölluðu "miðju", en láta aðra kjósendur lönd og leið, vitandi að þeir komast hvergi. Slíkir kjósendur verða einfaldlega fangar tveggja flokka kerfisins. Þannig hefur það gerst að þeir sem vilja leggja áherslu á sjónarmið sem ekki hljóta náð fyrir miðstjórnum hinna stóru fylkinga hafa ekki átt í nein hús að venda. Afleiðingarnar birtast í steindauðu stjórnmálalífi þar sem áhersla verður meiri á menn en málefni. Þetta höfum við séð gerast í Bretlandi með hörmulegum afleiðingum. Verkamannaflokkurinn hefur vissulega haft árangur í kosningum. Hann hefur hins vegar tapað sjálfum sér og er álitamál hvor flokkurinn er hægri sinnaðri, Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn.
Margflokkakerfið býður hins vegar upp á miklu kraftmeiri pólitík og sveigjanlegri. Nýir flokkar geta komið fram á sjónarsviðið og gamlir geta dottið upp fyrir ef þeir fá ekki hljómgrunn hjá kjósendum.
Margflokkakerfið krefst samsteypustjórna sem byggja á málamiðlunum. Málamiðlanir eru ekki slæmar í eðli sínu. Þær eru snar þáttur í öllu lýðræðislegu starfi. Málamiðlanir eiga hins vegar að vera fyrir opnum tjöldum og af heilindum. Annað heitir makk. Auðvitað hafa skoðanir oft verið mjög skiptar í Verkamannaflokknum breska á undanförnum árum, svo við höldum okkur við það dæmi. Til að halda áferð og yfirbragði sléttu og felldu hefur verið reynt að fela ágreining og niðurstöður iðulega verið knúnar fram af fámennum hópi sem komist hefur til valda í flokknum. Málamiðlanir á milli flokka bjóða hins vegar upp á opnari vinnubrögð. Kjósendur þekkja áherslur þess flokks sem þeir kusu og ætlast til þess að þeim sé fylgt eftir í stjórnarsamstarfi og vilja skýringu á því hvers vegna þær ná ekki fram að ganga í stjórnarsamstarfi ef sú verður raunin. Slíkt fyrirkomulag kallar á opna og lýðræðislega umræðu.

Ókostur margflokka kerfis er hins vegar sá að kjósendur vita iðulega ekki nægilega vel að hverju þeir ganga að loknum kosningum. Þá hefst oftar en ekki mikið makk. Eðlilegra væri að flokkarnir lýstu því yfir fyrir kosningar með hverjum þeir vildu starfa. Fyrir þessu sjónarmiði hef ég oft talað. Svo lengi sem stjórnmálaflokkar telja sig eiga sameiginlegan samnefnara í almennri pólitík, vilja t.d. leggja áherslu á félagslega þætti, gagnstætt  sjónarmiðum sem byggja á módeli peningafrjálshyggju, eiga þeir tvímælalaust að lýsa því yfir að þeir ætli að starfa saman að loknum kosningum.
Í sjálfri kosningabaráttunni kynna þeir að sjálfsögðu eigin áherslur og stefnu, enda eru þeir að safna liði um hana. Að endingu eru það kjósendur sem ráða styrkleikahlutföllum í samstarfinu. En kjósendur eiga ekki að þurfa að ganga gruflandi um vilja stjórnmálaflokkanna að afloknum kosningum.

Um þetta fjallar Helgi Guðmundsson í Frjálsum pennum hér á síðunni í dag.
Hann vísar m.a. í það sem hann kallar norsku leiðina, og hvetur til þess að menn íhugi hana fyrir komandi kosningar í Reykjavík. Helgi segir m.a. : "Vitlegt upphaf kosningabaráttunnar fyrir R-listaflokkana væri að fara norsku leiðina, lýsa því yfir að þeir hyggðu á áframhaldandi samstarf þó þeir bjóði ekki fram saman eins og síðustu ár. Þær ættu að koma sér saman um ákveðin megin málefni sem þeir legðu áherslu á að vinna saman að. Kjósendur skilja vel að flokkarnir vilji spreyta sig einir – sjá hvernig þeir standa og semja svo á grundvelli þess styrks sem þeir fá í kosningunum. Umfram allt eiga flokkarnir að ganga hreint til verks við kjósendur, segja þeim að ekki standi til að taka upp sama makkið í borgarstjórn og gert er við myndun ríkisstjórna heldur þvert á móti: Félagshyggjuflokkarnir í Reykjavík vilji áfram vinna saman að sameiginlegum markmiðum að kosningum loknum."