Fara í efni

ÞÖRF Á VINSTRI STJÓRN

Ísland bráðvantar vinstri stjórn; ríkisstjórn sem af alefli beitir sér fyrir því að koma á jöfnuði í landinu og útrýma því misrétti sem fylgt hefur ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins frá því hann komst til valda árið 1991. Það er rétt sem Hrafnkell A. Jónsson, héraðsskjalavörður á Egilsstöðum og fyrrum verkalýðsforkólfur með meiru, segir í grein í Blaðinu 11. júlí sl., að "þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi í dag hafa aldrei búið undir vinstri stjórn..." Eftirfarandi er líka eflaust rétt eftir haft hjá Björgvin Guðmundssyni, sem segir í upphafsorðum greinar á vísir.is, sem einnig birtist sem leiðari Fréttablaðsins 25. júlí sl.: "Ég óska frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins til hamingju," sagði Ögmundur Jónasson, núverandi þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi vorið 1998 þegar lög um Íbúðalánasjóð voru samþykkt. Eins og aðrir vinstri menn á Alþingi taldi Ögmundur að með því að sameina félagslega íbúðalánakerfið hinu almenna í nýjum Íbúðalánasjóði væri verið að vega að hagsmunum hinna efnaminni í þjóðfélaginu..."

Vafasöm sagnfræði hjá Hrafnkatli...

Vandinn er sá að báðir reynast þessir ágætu menn, Hrafnkell og Björgvin, vafasamir sagnfræðingar og báðir komast þeir að mínu mati að röngum niðurstöðum.
Hrafnkell A. Jónsson botnar þá setningu sem hér að framan er vitnað í með því að segja að hagstjórn vinstri manna hafi m.a. falist í því "að éta vandann", en vandinn sem Hrafnkell vísar til er verðbólguvandinn. "Hver man í dag" spyr hann áfram, "aðför vinstri stjórnar Gunnars Thoroddsen að ungu fólki sem reyndi að koma sér þaki yfir höfuðið? Líklega fáir aðrir en þeir sem reyndu það á eigin skinni."
Nú vil ég ekki fullyrða afdráttarlaust um eitthvað sem mig kann að misminna um. Vel má vera að eitthvað hafi gerst í ríkisstjórnartíð Gunnars Thoroddsens sem sérstaklega kom niður á ungu fólki, sem var að koma sér þaki yfir höfuðið. Ekki minnist ég þess þó að svo hafi verið en ég tel mig hafa fylgst mjög vel með einmitt þessu fólki á þessum árum þar sem ég var þá sjálfur að koma mér þaki yfir höfuðið.
Það sem hins vegar gerist sumarið 1983, eftir að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens fór frá, reyndist húsnæðiskaupendum örlagaríkt. Þá geisaði mikil verðbólga á Íslandi. Bæði laun og lán voru þá vísitölubundin. Það þýddi að lánin hækkuðu – eða öllu heldur voru hækkuð – í samræmi við annað verðlag. En hið sama átti við um launin. Öll þessi víxlverkun viðhélt verðbólgunni en launamaðurinn hélt sjó vegna vísitölubindingar launanna. Um sumarið 1983 var hins vegar klippt á vísitölubindingu launanna en vísitölubinding lána látin halda sér. Þáverandi ríkisstjórn passaði þannig upp á hag fjármagnseigendanna en launamenn og þeirra hagsmunir voru látnir lönd og leið. Við þetta myndaðist það sem kallað var misgengi lána og launa, Sigtúnshópurinn varð til og þjóðfélagið lék um langan tíma á reiðiskjálfi.
Hverjir skyldu nú hafa staðið fyrir þessari aðför að launafólki og húsnæðiskaupendum? Ekki var það "vinstri stjórn" Gunnars Thoroddsens, sem Hrafnkell A. Jónsson nefnir svo. Það var samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks með sjálfstæðismann í fjármálaráðuneytinu! Rétt skal vera rétt.

 Vafasöm sagnfræði hjá Björgvin...

Síðan eru það "sagnfræðilegar" útleggingar Björgvins Guðmundssonar á húsnæðiskerfinu og varðandi yfirlýsingar mínar um breytingar á því, sem gerðar voru með lögum um Íbúðalánasjóð, sem öðluðust gildi í ársbyrjun 1999.
Ekki efast ég um að tilvitnun Björgvins í ummæli mín er rétt. Um niðurstöður hans gegnir hins vegar öðru máli. Gefum Björgvin Guðmundssyni aftur orðið, því hann hafði engan veginn lokið máli sínu: "Þegar á reyndi kom í ljós að þau stóru orð sem féllu í ræðum vinstrimanna á þessum tíma gengu ekki eftir. Þeir höfðu einfaldlega rangt fyrir sér. Þeir sem höllum fæti stóðu í þjóðfélaginu komu ekki verr út úr þessum breytingum...Kjarabót almennings vegna innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn er óumdeild. Á það ekki síst við um þá launalægstu því þeir greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í afborganir af lánum en aðrir. Þetta sýnir enn og aftur að drifkraftur einkaframtaksins nýtist öllum þjóðfélagshópum og að rekstur Íbúðalánasjóðs í óbreyttri mynd er óþarfur..."
Ísland hefur alla tíð skorið sig úr öðrum ríkjum að því er varðar hlutfall eignarhúsnæðis. Um 80% landsmanna býr í eigin húsnæði. Í Þýskalandi er þetta hlutfall innan við 40%, í Svíþjóð um 55%, Danmörku innan við 60%, svo nokkur dæmi séu tekin.Enda þótt víða í Evrópu hafi orðið stöðug aukning í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis á síðustu árum hefur Ísland trónað á toppinum.
Nú sýnist sitt hverjum um þetta. Sumir telja þetta til góðs, aðrir að heppilegra sé að koma upp kröftugum húsaleigumarkaði, einkum fyrir hina tekjulægstu, þá hópa sem óraunhæft sé að ætla að geti fjármagnað kaup á eigin húsnæði. Þessi umræða hefur heyrst hér á landi á síðustu misserum enda aðstæður þannig að raunsætt mat kallar hreinlega á þetta.  
En hvað hefur breyst? Hvers vegna getur fólkið með lægstu tekjurnar ekki eignast húsnæði? Með verkamannabústaðakerfinu og ýmsum afbrigðum þess (félagslegum eignaríbúðum samhliða svokölluðum kaupleiguíbúðum) var tekjulágu fólki gert auðvelt að eignast húsnæði. Vextir á félagslegum lánum til kaupa á þessu húsnæði voru lengi vel 1% ofan á vísitölubætur. Á árunum 1993/4 voru vextirnir hækkaðir upp í 3,5% gegn mótmælum verkalýðshreyfingar og vinstri manna á Alþingi en þessi gjörð var réttlætt m.a. með tilvísan í vaxtabætur sem þá voru komnar til sögunnar og voru að nokkru leyti tekjutengdar. Félagslegu lánin voru til 40 ára og voru jafngreiðslulán og fannst mörgum það ókostur vegna þess hve eignamyndunin var hæg en á móti kom að þau voru tekjulitlu fólki viðráðanleg.

Um hamingjuóskir til frjálshyggjudeildarinnar

Þessu félagslega kerfi, eða mjög veigamiklum þáttum þess, var verið að slátra þegar ég óskaði frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins til hamingju árið 1998, einsog Björgvin Guðmundsson rifjar upp í skrifum sínum.
Vextir á íbúðalánum – einkum og sérílagi til hinna tekjulægstu, sem Björgvin segir að hafi hagnast sérstaklega! – hækkuðu við þessar breytingar auk þess sem lögin kváðu á um vaxtahækkun til allra þeirra félagslegu aðila sem reisa íbúðarhúsnæði fyrir skjólstæðinga sína, svo sem námsmannasamtök, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbörg og svo framvegis! Bráðabirgðaákvæði var sett í lögin um frestun gildistöku þessa ákvæðis til að milda áfallið en lagabókstafurinn var skýr. Á sama hátt var kveðið á um svokölluð viðbótarlán til hinna tekjulægstu, það er að segja þeirra sem á annað borð fengu aðgang að kerfinu – hinum allra tekjulægstu var neitað um lán og vísað á leigumarkaðinn. Viðbótarlánin til hinna þurfandi voru með hærri vöxtum en almennu lánin!
Allt þetta varð þess valdandi að félagshyggjufólk á Alþingi andmælti kröftuglega og það sem meira er, andmælin reyndust á rökum reist.

 Fjármálafyrirtæki og Sjálfstæðisflokkur taka höndum saman

  Síðan hefur barátta okkar gengið út á að bæta það kerfi sem nú er við lýði. Þar er við ramman reip að draga þótt framsóknarmenn í ríkisstjórn hafi verið jákvæðir. Bankarnir, í nánu samstarfi við frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins, vilja ná öllum íbúðalánamarkaðnum til sín, að undanskildum svæðum í dreifbýli þar sem veð þykja lítils virði; þau má ríkið og skattborgarinn sjá um, segja talsmenn bankanna!
Samtök banka og verðbréfasjóða hafa beitt öllum ráðum, stundum mjög óvönduðum, til að bola Íbúðalánasjóði út af markaði. Fyrst var kært til ESA á þeirri forsendu að það stríddi gegn reglum á hinu Evrópska efnahagssvæði að láta opinbera stofnun keppa við banka um viðskiptavini. Þetta stóð Íbúðalánsjóður af sér - en ekki fyrr en þá, að töpuðu málinu - lækkuðu bankarnir vexti hjá sér. Vextirnir liggja núna almennt í 4,15% ofan á vísitölubætur. Þetta þykir bönkunum vera óásættanleg staða og kærðu því Íbúðalánasjóð að nýju, að þessu sinni með því að áfrýja úrskurði ESA til EFTA-dómstólsins.
Halda menn að vextir verði lækkaðir með því að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef? Það er fráleitt því það er hann sem heldur bönkunum við efnið en ekki öfugt. Þess misskilnings gætir oft í umræðunni að Íbúðalánasjóður sé styrktur með skattfé. Hið rétta er að hann leitar eftir fjármagni á fjármálamarkaði eins og bankarnir. En vegna þess hve veð hans eru traust – í íbúðum nánast allra landsmanna, tryggasta veði sem um getur - þá fær hann tiltölulega ódýrt fjármagn. Ef hann hins vegar fengi það verkefni eitt að sjá um lán þar sem veðin eru ótrygg, eins og frjálshyggjan krefst, þ.e. á dreifbýlissvæðum sem eiga í erfiðleikum, þá segir það sig sjálft að fjáröflun sjóðsins yrði torveldari, fjármagnið dýrara og þar með myndu vextir hækka. Sjálfstæðisflokkurinn, frjálshyggjan og fjármálaheimurinn vilja þannig draga úr augljósri stærðarhagkvæmni sem þjónar hagsmunum almennings vel. Þessum almannahagsmunum eru þessir aðilar reiðubúnir að fórna í þágu fjármálastofnana svo þær geti makað krókinn.

 Sjálfstæðisflokkur vill ekki að tekjulágir eigi húsnæði

 Á dögum íhaldsstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 1983-87 var hinum stöndugu í þjóðfélaginu þjónað í flestum aðgerðum stjórnvalda – eins og nú. Það geisaði meira að segja óðaverðbólga. Nokkuð sem menn virðast hafa gleymt er að það var vinstri stjórnin í samvinnu við samtök á vinnumarkaði sem kvað hana niður í víðtækum samningum í byrjun tíunda áratugarins.
Þannig var það nú Hrafnkell A Jónsson. Og þannig er það Björgvin Guðmundsson, leiðarahöfundur á Fréttablaðinu, að breytingarnar á húsnæðiskerfinu 1999 voru ekki til hagsbóta fyrir hina tekjulægstu í samfélaginu. Nú er af sem áður var að allra tekjulægsta fólkið eigi þess kost að eignast húsnæði.
Leiguhúsnæði getur vissulega verið eins eftirsóknarvert og eignarhúsnæði. En það á þá að vera val fólks. Stefna Sjálfstæðisflokksins og hjálparhellna hans við landstjórnina á undanförnum hálfum öðrum áratug, hefur gert það val að engu.
Í þjóðfélaginu blasir nú víða við okkur misrétti sem þarf að leiðrétta, og það hið snarasta. Það verður aðeins gert með vinstri stjórn. Og nú er þörf á vinstri stjórn.