Fara í efni

PRÓFKJÖRSRAUNIR

Prófkjörsbaráttunni vindur fram eins og við mátti búast. Fyrst var það Íhaldið. Þar tókust þeir fyrst og fremst á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmson, hinn gamalreyndi og ágæti pólitíkus Sjálfstæðisflokksins til margra ára og hinn galvaski og kraftmikli Gísli Marteinn, boðberi hægri frjálshyggjunnar, ef ég hef skilið boðskap hans rétt.  Þessir menn settu augljóslega stórar peningafúlgur í kosningabaráttu sína. Að baki þeim greinilega digrir sjóðir. Nú eru það framsóknarmenn sem berjast sín í milli. "Hestamenn, kjósið Bergsson", ómar á öldum ljósvakans kvölds og morgna og samsvarandi má heyra frá öðrum kandídötum: Þeir sem vilja umferðaröryggi, fylkið ykkur um Önnu Kristins. Og síðan er það Björn Ingi, sem hvarvetna blasir við, hvort sem er á auglýsingasíðum eða netmiðlum. Sá maður virðist hafa peningavaldið á bak við sig. Nýlega var hann sakaður um að gefa unglingum bjór og áfengi á kosningaskrifstofu sinni.

Össur Skarphéðinsson segir á heimasíðu að þarna sé á ferðinni ómerkileg árás á Björn Inga og Hrafn Jökulsson tekur undir með Össuri í hvassyrtri blaðagrein. Ég virði það við þá félaga Össur og Hrafn að vilja drengilega kosningabaráttu og halda hlífiskildi yfir mönnum sem þeir telja sæta ómaklegum árásum.

Ef verið er að hafa Björn Inga fyrir rangri sök verður að sjálfsögðu að draga allar ásaknir til baka. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn hefur í undanförnum kosningum verið mjög ábyrgðarlaus í baráttu sinni einmitt hvað þetta snertir, veitt ungu fólki áfengi og gefið gjafir. Á kosningaskrifstofu flokksins á Laugaveginum í Reykjavík lak ókeypis áfengið úr öllum krönum. Hvað eftir annað bárust fréttir af  mjög ósvífnum kosningatrikkum Framsóknar; unglingum boðið í mat og í áfengar skemmtiferðir. Ef Björn Ingi, sem virðist hafa milljónastuðning á bak við sig, starfar í þessum anda er sjálfsagt að taka það til opinberrar umræðu. Þetta er nefnilega umræðunnar virði.

Kristinn Snæland leigubílstjóri upplýsti um meint ókeypis unglingapartý í kosningamiðstöð Björns Inga. Ekki verður sagt að Kristinn Snæland vegi úr launsátri því það sem sá maður tekur sér fyrir hendur er jafnan opið og undir nafni. Af kynnum mínum af Kristni Snæland efast ég ekki um heilindi hans.

Senn lýkur prófkjörsbaráttu Framsóknar. Þegar höfum við fengið forsmekkinn af baráttu samfylkingarfólks. Ég er þegar farinn að vorkenna kandidötunum sem taka þátt í þessari afskræmingu á lýðræðinu, peningaaustrinum og skruminu. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega eftir slíka baráttu hver eigi hvern. Eða skyldu fyrirtæki og fjármálamenn veita fé sínu til frambjóðenda af einskærri góðmennsku? Ég held ekki.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar hnyttna grein í Blaðið í dag. Hún hafði farið að kjósa í prófkjöri Framsóknar þótt sjálf segist hún vera samfylkingarkona! "Ég setti minn kandidat í fyrsta sætið", skrifar Kolbrún, "og frænku Reynis Traustasonar í annað, en Reynir hafði beðið mig fyrir hana. Svo varð ég stopp. Ekki gat ég kosið höfuðandstæðinga mannsins sem ég hafði sett í fyrsta sæti. Þegar ég er í ham hef ég miskunnarlaust skap. Prófkjörsbarátta er stríð og þar einangrar maður óvininn. Ég varð að nota innsæið við að raða í næstu sæti. Ég hef alltaf heillast af nöfnum sem byrja á Ás- eða Ást og þarna var eimitt kona sem hentaði þessum smekk mínum. Ég skellti henni í þriðja sætið..."

Auðvitað er þetta grínagtugt en engu að síður lýsing á því sem raunverulega á sér stað. Öll pólitík – hugmyndir og hugsjónir - rokin út í veður og vind. Að lokinni baráttunni standa kandidatarnir í þakkarskuld við velgjörðarmenn sína, sjálfir án efa stórskuldugir þótt allur gangur kunni að vera á því – og síðast en ekki síst hálf aulalegir. Prófkjörsbaráttan, eins og hún er að þróast á Íslandi, er nefnilega ein allsherjarniðurlæging fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálin í heild sinni.